Úr Grallaraspóar og gott fólk:
- Það eru margar rúður eftir. Síðan varð þögn. Við Valur skildum ekki, hvað Eyvi var að fara. Hann beið ekki eftir því, heldur skaut án hiks niður fjórðu rúðuna. Þá rann á okkur berserksgangur eins og sagt var í fornsögunum. Án þess að mæla orð frá vörum, gengum við milli bols og höfuðs á rúðunum, sem eftir voru í þessu húsi, rétt eins og þær hefðu gert okkur eitthvað til miska. Og það hófst á milli okkar óformleg keppni, hver gæti grandað flestum rúðum. Eftir því sem brotnu rúðunum fjölgaði, glamrið varð tíðara, fannst okkur of tafsamt að nota teygjubyssurnar. Í þess stað brutum við rúðurnar í tryllingi. Og þegar glerbrotin grýttust út í snjóinn, rákum við upp heróp, sem líklega voru ættuð úr indíánasögum, sem við fengum að láni í Lestrarfélaginu.
(s. 102)