Úr Hljóðin á heiðinni:
Bolli ýtti upp hurðinni og gekk inn í anddyrið, sem var lítið. Síðan lauk hann upp hurð til vinstri handar og kom þá inn í herbergi, sem greinilega var eldhús. En hvernig hafði fólkið gengið frá? Allt var á rúi og stúi. Skápar opnir og flest lauslegt á víð og dreif um gólf og bekki. „Þetta frændfólk þitt virðist ekki vera sérstakt þrifnaðarfólk, þú fyrirgefur,“ sagði Skúli við Bjarna. Bjarna vafðist tunga um tönn, enda vonlegt, því þetta var heldur óhrjáleg aðkoma. „Og sjáið gólfið,“ sagði Dísa. Hún hafði lög að mæla. Á gólfinu mátti sjá forug fótspor, sem voru þvers og krus yfir allt gólfið. „Þetta er ekki einleikið,“ tautaði loks Bjarni og leit til dyra. Bolli opnaði dyr inn af eldhúsinu. Á móti honum flæddi sunnankaldinn utan af heiðinni og hann þeytti gluggatjöldunum inn í herbergið. Bolli gekk út að glugganum og þá sá hann, að rúða var brotin og lágu glerbrotin inn á gólfinu. Bolli sá líka, að moldarslóð lá frá glugganum og þvert yfir herbergisgólfið. „Hvað er hér um að vera?“ spurði Skúli og spaðjarkaði inn í herbergið. „Þetta er skrýtið. Glugginn er brotinn og allt á öðrum endanum,“ sagði Bolli. „Það má sjá. Það er eins og fólkið hafi verið að flýja undan loftárás,“ sagði Skúli. „Þetta er eins og eftir loftárás,“ sagði Addi, sem kominn var á vettvang.
(s. 59-60)