Úr Húmar að kvöldi:
Hann lauk upp augunum, eftir mjög órólegan svefn og stuttan. Varla var hægt að kalla slíkan hænublund svefn eða var hann kannski búinn að sofa lengi og allt hitt verið draumur? Ívar settist upp í skyndi. Þá fann hann til sárinda í hálsi og höfði, og hendurnar voru eitthvað stirðar og eins og þrútnar. Hann rétti þær fram og sá, að þær voru plástraðar og rauðar og heitar, og hann sá fyrir sér æst andlitin niðri í lúkarnum og hvernig fumandi fingur Mjóna gengu frá skurfunum, sem höfðu komið eftir sárar brúnir þakrennunnar. Hún hafði verið þakin brúnum kvarsmulningi. Svo hafði Mjóni skellt aftur óhreinum sjúkrakassanum, og Ívar hafði tekið eftir, að rauðakrossmerkið var mjög rispað. „Ég get þetta ekki betur – ekki núna. Þetta eru líka grunnar rispur,“ hafði Mjóni sagt hásri, hlökktandi röddu, og andlit hans hafði horfið í sígarettureyk. Nei, þetta hafði allt verið veruleiki, en þó fannst Ívari þetta allt draumur. Allt óvænt og óvenjulegt finnst mönnum vera draumur, þangað til eitthvað sérstakt í atburðarásinni vekur þá til réttrar meðvitundar. Ívar renndi því augunum betur um herbergið og kom auga á föt sín, blaut og þvæld, sem lágu umsnúin á gólfinu. Þá varð hann að trúa, gat ekki lengur úthýst sannleikanum. Þetta hafði raunar allt verið mjög æsandi, og það hafði rignt og hrollur sest að í líkamanum. Þó hafði hjartað dunað og dælt blóðinu af óvenjulegum hraða um æðarnar, og þær höfðu hamrað á gagnaugunum eins og stimpill. Svo hafði hann klifrað upp sívala niðurfallspípuna og síðan handlangað sig eftir hvassbrýndri rennunni og kvarsflísarnar höfðu skorist í greiparnar. Þó hafði hann náð litlu svölunum, og hann hafði þá verið talsvert móður og æstur og kvíðinn, og regnið hafði smogið inn á bringuna, sem hafði berast í þessu bardúsi og nokkrar tölur slitnað. Hendurnar höfðu því verið ærið óstyrkar, er hann tók að fást við hurðina, og í gleri hennar hafði hann bara séð myrkur, en hvað í því bjó, gat hann eigi vitað. Það hafði verið slæm tilfinning og hann að því kominn að stökkva yfir í rennuna. Allt hafði þó gengið vel.
(s. 47)