Úr Loksins kom litli bróðir : Saga fyrir börn:
Stelpunum fannst farangur ömmu ögn merkilegur. Hún átti ýmislegt, sem mamma og pabbi áttu ekki. Til dæmis hlut sem hún kallaði kommóðu. Þessi kommóða var með mörgum skúffum og skrautlegum höldum. Svo átti hún sófa, sem hafði bak eins og úlfaldi og Alda kallaði hann strax „úlfaldann hennar ömmu“. En kannski var klukkan merkilegust af þessu öllu. Hún líktist einna helst skáp, þar sem hún hékk á veggnum gegnt dyrunum. Á þessari undraklukku var hurð að mestu úr gleri. Þar fyrir innan voru vísarnir og einhver spaði, sem sveiflaðist fram og aftur og þá talaði klukkan sitt alþjóðlega klukkumál „tikk-takk, tikk-takk“. Amma sagði, að þessi spaði héti pendúll. En þessi klukka gat meir en sagt „tikk-takk, tikk-takk“. Já, hún sendi frá sér á hálftíma fresti dimm og hljómmikil slög, sem bárust í bylgjum um húsið og þá vissu allir, hvað tímanum leið. Til dæmis þegar klukkan var níu, þá sló hún níu slög. Þegar hún var hálftíu þá sló hún bara eitt og það gerði hún við hvern hálftíma. En á mínútunni tíu sló hún tíu slög. Litlu systurnar í Höll sátu og horfðu á þessa merkilegu klukku, sem amma hafði fengið daginn sem hún giftist afa í Ási. En það var langt, langt síðan. Þá var mamma ekki einu sinni fædd. Ýmislegt fleira leyndist í farteski ömmu. Upp úr einni kommóðuskúffunni dró hún upp sallafína, litla kjóla, sem hún gaf stelpunum.
(s. 41-42)