Um bókina
Ung kona finnst myrt í fjörunni við Akranes. Hin látna reynist hafa búið sem barn í bænum en flutti skyndilega burt ásamt móður sinni.
Lögreglukonan Elma, sem er nýflutt á Skagann, rannsakar málið ásamt samstarfsmönnum sínum. Upp á yfirborðið koma ýmis skuggaleg mál úr fortíðinni en Elma þarf líka að takast á við atburði í eigin lífi sem hröktu hana aftur heim á æskuslóðirnar.
Marrið í stiganum er fyrsta bók Evu Bjargar Ægisdóttur og bar handrit hennar sigur úr býtum í samkeppninni um Svartfuglinn, glæpasagnaverðlaun sem Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til í samvinnu við Veröld.
Úr bókinni
Elma opnaði ísskápinn, tók út skyrdós og setti beyglu í ristina. Hún settist svo með matinn í sófann, kveikti á sjónvarpinu og horfði annars hugar á þátt án þess að taka sérstaklega eftir því sem fór fram á skjánum.
Dagurinn hafði verið langur. Eftir líkfundinn kvöldið áður höfðu þau mætt snemma til vinnu þrátt fyrir að hafa unnið frameftir. Það var ekki oft sem lík fundust á Íslandi við grunsamlegar kringumstæður, hvað þá á Akranesi. Flest mál voru þess eðlis að auðvelt var að segja til um hvað hafði átt sér stað. Morð voru yfirleitt framin í heimahúsum undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna af einhverjum nánum fórnarlambinu sem viðurkenndi sekt sína oftast samstundis. En nú var annað uppi á teningnum og fjölmiðlar hringdu látlaust eftir frekari upplýsingum.
Vandamálið var að þau gátu afar litlar upplýsingar gefið. Þau vissu ekki ennþá nafn konunnar. Hún hafði engin skilríki á sér og virtist ekki hafa komið á bíl, það fannst í það minnsta enginn yfirgefinn bíll í grennd við staðinn þar sem líkið fannst. Það leiddi til þess að þau veltu einnig upp þeim möguleika að líkinu hefði verið komið fyrir þarna. Að einhver hefði reynt að láta líkið hverfa í hafið en ekki tekist betur til en þetta. Tæknideildin hafði fundið blóð á vettvangi sem styrkti enn fremur þá tilgátu. Þegar hún lýsti upp svæðið hafði blóðslóðin verið greinileg frá mölinni við nýrri vitann og í átt að klöppunum. Blóðferlasérfræðingur sem skoðaði myndirnar var viss um að konan hafði verið dregin frá bílastæðinu og út á klappirnar. Til að fá nánari svör um dánarorsök þurftu þau að bíða eftir niðurstöðum frá réttarmeinafræðingi sem var væntanlegur daginn eftir. Því hafði dagurinn leitt til lítils annars en vangaveltna um hvaðan konan kæmi og hver hún væri. Einu tilkynningarnar af því tagi vörðuðu ungar stelpur sem skiluðu sér ekki heim eftir helgina og áhyggjufullir foreldrar létu lýsa eftir.
Elma lagði frá sér diskinn og dró teppið betur yfir sig. Allt hafði gerst svo hratt. Ný vinna, nýr bær. Nýtt líf. Það var einmitt á þessum stundum sem löngunin til að hringja í Davíð var nánast óbærileg. Hana langaði til að heyra rödd hans. Finna fyrir nærveru hans.
(s. 88-89)