Um bókina
Einstæð móðir hverfur af heimili sínu en skilur eftir miða með skilaboðum á eldhúsborðinu. Í fyrstu er talið að hún hafi fyrirfarið sér en þegar illa farið lík finnst í Grábrókarhrauni sjö mánuðum síðar standa lögreglukonan Elma og samstarfsmenn hennar frammi fyrir flókinni morðgátu. Fimmtán árum fyrr liggur nýbökuð móðir á fæðingardeild og hefur óbeit á barninu sem liggur við hlið hennar.
Stelpur sem ljúga er spennusaga um það hvernig brotin æska og áföll geta leitt til skelfilegra atburða síðar á lífsleiðinni.
Úr bókinni
Mál Maríönnu Þórsdóttur var Elmu enn í fersku minni. Það var sjaldgæft að ungar konur hyrfu á Íslandi og málið vakti mikla fjölmiðlaathygli á sínum tíma. Því var það líklega rétt sem Hörður sagði - nú þegar ljóst var að Maríanna hefði verið myrt yrði fjölmiðlafárið enn verra.
Rannsóknin um vorið leiddi fljótlega í ljós að Maríanna átti langa sögu um geðræna erfiðleika. Hún var á þunglyndislyfjum og hafði nokkrum sinnum sokkið í neyslu á áfengi og fíkniefnum. Skilaboðin sem biðu dóttur hennar eftir skóla voru skrifuð aftan á gluggapóst og lágu á eldhúsborðinu ásamt krumpuðum fimmþúsundkalli. Fyrirgefðu. Ég elska þig, mamma.
Það var ólíkt Maríönnu að skilja eftir svona skilaboð en Hekla velti því lítið fyrir sér. Hún pantaði pítsu fyrir peninginn og sofnaði fyrir miðnætti án þess að pæla í því hvers vegna mamma hennar var ekki komin heim. Vissi að Maríanna átti stefnumót um kvöldið. Það var ekki fyrr en langt var liðið á næsta dag að Hekla varð áhyggjufull. Hún reyndi að hringja en það var slökkt á símanum. Þegar tók að kvölda hringdi Hekla í Sæunni sem sótti hana og gerði lögreglunni viðvart.
Þegar lögreglan fór að skoða málið kom í ljós að Maríanna mætti aldrei á stefnumótið. Þá fyrst fór alvara að færast í málið. Hún hafði þá verið týnd í meira en sólarhring. Maðurinn sem hún ætlaði að hitta hét Hafþór og vann á vöktum í járnblendinu við Grundartanga eins og svo margir sem bjuggu í nágrenni þess. Það var ekkert sem tengdi hann við hvarfið, þau voru nýlega byrjuð að hittast og þekktust lítið. Hann virtist nokkuð svekktur yfir því að hún lét ekki sjá sig. Hringdi margoft áður en hann gafst upp. Símagögn staðfestu það.
Maríanna átti fyrrverandi kærasta, reyndar nokkra, en það voru allt sambönd sem höfðu varað stutt. Þau köfuðu ekki djúpt ofan í fortíð hennar, enda var hún ekki í neinu sambandi við gömlu kærastana þegar þarna var komið. Eini fjölskyldumeðlimur Maríönnu á lífi var faðir hennar sem bjó í Reykjavík. Hekla hitti hann síðast þegar amma hennar var enn á lífi. Móðir Maríönnu lést þegar Hekla var tíu ára. Bróðir Maríönnu lést þegar Maríanna var ófrísk að Heklu. Fyrirfór sér tuttugu og fimm ára gamall.
Eftir að hafa fínkempt Akranes og nágrenni í leit að Maríönnu fannst bíllinn hennar á Bifröst. Gamall og ryðgaður Golf. Það kom þeim verulega á óvart því þau höfðu rakið slóð símans upp á Akranes og leitin öll tekið mið af því. Gögnin sýndu að síminn varð ekki batteríslaus heldur var slökkt á honum handvirkt. Slökkti Maríanna sjálf á símanum eða hafði einhver annar gert það fyrir hana? Þau giskuðu á fyrri valkostinn.
(s. 62-64)