Um bókina
Ella Stína er átta ára þegar hún fer út í heim með fjölskyldunni. Í Grikklandi er allt með öðrum brag en heima á Seltjarnarnesi; eðlur skjótast um veggi, mandarínur og ólífur vaxa á trjánum, geitur ganga um með bjöllur um hálsinn og örsmáu bænahúsin í hlíðinni hljóta að vera sérstaklega fyrir krakka. Ella Stína skottast um allt með yngri bræður sína en foreldrarnir eru yfirleitt uppteknir við skriftir. Löngu seinna kemur Ella Stína aftur til Grikklands, hvað er þá orðið af sólbökuðu fjölskyldunni sem eitt sinn var?
Úr bókinni
Pabbi var öðru vísi í Grikklandi en á Íslandi. Í Grikklandi horfði hann út á sjóinn en heima gat hann verið sturlaður, horfinn úr þessum heimi, þjáningin og firringin lýstu úr augum hans. Hann var heillum horfinn. Hvernig komst hann til baka og hvar var hann?
Læstur í pínulitlu rými, komst hún að seinna því hún var líka alkóhólisti einsog hann, og að vera alkóhólisti er að hafa þannig heila að hann býr stanslaust til minna og minna rými þarsem alkóhólistinn lokast inni. Og deyr eða verður geðveikur. Nema þá að hönd blessunar eða félaga komist inn fyrir rýmið.
Sjö ára gömul horfði ég uppá þetta, sá þessa sturluðu skelfingu, þennan horfna pabba sem vissi ekki sitt rjúkandi ráð og það eina sem veitti honum náð var nærvera mín, að hann væri ekki einn, að það væri þarna lítil stúlka sem hann hafði búið til.
(s. 41-42)