Um bókina
Linda hefur alltaf verið frægari en hana langar. Samfélagsmiðladrottningin mamma hennar tjáir sig óspart um fjölskyldulífið á netinu og barnamynd af Lindu er þekkt um allan heim. Sjálf vill hún helst af öllu fá að vera í friði og æfa parkúr án þess að fólk fatti að hún sé klósettkrakkinn.
En nú versnar í því! Mamma Lindu er einn af áhrifavöldunum sem keppa um pláss í raunveruleikaþættinum Mömmuskiptum. Barbara systir er æsispennt, pabba virðist standa á sama og enginn hlustar á hávær mótmæli Lindu. Ef allt fer á versta veg fá þau glænýja mömmu í heilan mánuð og heimsbyggðin mun fylgjast með!
Úr bókinni
Ég var í felum bak við sófann. Með bók
Klósettkrakkafréttin hafði gefið okkur meðbyr á Mömmuskiptasíðunni. Við kúrðum ekki lengur í örygginu neðst á listanum. Við vorum skuggalega ofarlega. Ég reyndi að fylgjast ekki nákvæmlega með því hvort við værum í öðru eða fjórða sæti á hverjum tímapunkti - það fór illa í kvíðann minn.
Mamma hafði hlaupið á móti mér og knúsað mig þegar ég kom heim og skellti á eftir mér. Hún var búin að sjá.
Hún sótti konfekt upp í skáp og við settumst saman í sófann og áttum langt samtal um klósettkrakkann. Ég vældi að myndin hefði auðvitað aldrei átt að fara á netið til að byrja með, og mamma samþykkti það og baðst enn og aftur afsökunar. Hún útskýrði að hún hefði bara ekki hugsað lengra en að þetta væri eitthvað sniðugt og sætt til að deila með ættingjum okkar og vinum - leyfa þeim að fylgjast með því sem væri að gerast hjá okkur - og að það hefði aldrei hvarflað að henni að myndin færi á flug. En þegar það gerðist var augljóslega ekkert hægt að gera í málinu lengur. Það var engin leið að grípa til baka það sem einu sinni hafði flogið út á netið.
Og ég hafði sagt að það sem ÚTLENDINGUR við Geysi hefði BENT Á MIG síðasta sumar og spurt mömmu hvort ég væri ekki "The Potty Tot" þá væri nú kannski bara góð lausn að gera eitthvað í þessu með eyrun. Mamma hafði krækt hárinu á bak við eyrun á mér svo þau stóðu út í loftið eins og gervihnattadiskar, og sagt mér að þetta væru Lindueyru og að ég væri fullkomin nákvæmlega eins og ég væri.
Ég hafði, augljóslega, ranghvolft augunum og hrist hárið fram í andlitið.
En þessi meðbyr hafði hvatt mömmu áfram og hún dældi út efni sem aldrei fyrr. Ef hún fyndi mig hérna á bak við sófann yrði það örugglega tilefni í heila færslu um börn og lestur: "Ég er heppin að eiga bókaorm! En auðvitað er þrotlaus vinna að baki! Smellið hér til að fræðast: Tíu ráð til að ala upp lestrarhest!"
Hún hafði samt haldið loforðið og ekki minnst orði á klósettkrakkann, jafnvel þótt búið væri að draga hann fram í sviðsljósið og allir aðrir væru að tala um hann.
En nú var mamma komin inn í stofu og þrammaði fram og aftur á meðan hún fletti og fletti í símanum sínum. Hún virtist ekki vera glöð. Samt höfðu hús og íbúðir flogið út af fasteignasölunni undanfarið. Fólk var rosa til í að láta Jöru af HHH selja sér húsnæði núna og græða kannski mynd af sér á samfélagsmiðlunum hennar í leiðinni.
(s. 24-25)