Um bókina
Hér ert þú söguhetjan og stjórnar ferðinni. En verkefnið er ekki auðvelt. Einn daginn vaknarðu og ekkert er eins og áður. Allir símar eru ónýtir. Samfélagsmiðlar eru hættir að virka. Tölvuleikir hafa þurrkast út. Hvað í ósköpunum gerðist? Þér er falið að leysa gátuna enda hefurðu sýnt og sannað að ekkert er of snúið fyrir þig. Eða hvað?
Í bókinni eru næstum 40 mismunandi endar og sögulok spanna allt frá eilífri hamingju að bráðum bana.
Þín eigin ráðgáta er áttunda bókin í bókaflokki.
Úr bókinni
Magnús skólastjóri er valdamikill maður.
Einhvers staðar lastu að svoleiðis gæjar sýni engum virðingu nema þeim sem þora að standa uppi í hárinu á þeim. Vel greiddu hárinu, í þessu tilfelli.
Þú lítur á hann. Hann starir á móti.
Þú dregur andann djúpt.
„Jæja!“ hrópar þú svo og sprettur upp úr stólnum, sem skýst til hliðar og þýtur fram hjá Óliver.
„Vó!“ heyrist í honum fyrir aftan þig. „Passaðu vélina!“ Magnúsi skólastjóra dauðbregður. Hann kastast aftur í skrifstofustólnum sínum, sem rennur af stað og klessir á vegginn fyrir aftan hann. Bókahillan yfir höfði hans titra.
HARMSÖGUR UMSJÓNARKENNARANS - VIÐTÖL VIÐ ÍSLENSKA KENNARA FRÁ 2000-2020 sömuleiðis.
„Hvað á þetta að þýða?!“ hrópar Magnús og er á minna en sekúndu orðinn eldrauður í framan af bræði. Hann sprettur upp og rekur fæturna í skrifstofustólinn sem verður til þess að stóllinn kastast aftur í vegginn.
Aftur titrar bókahillan.
HARMSÖGUR UMSJÓNARKENNARANS - VIÐTÖL VIÐ ÍSLENSKA KENNARA FRÁ 2000-2020 sömuleiðis. Þér er alveg sama. Þú skellir báðum lófum á skrifborðið hans og hallar þér fram.
„Hvað gerðir þú við alla símana?!“ hróparðu eins hátt og þú getur. „við vitum alveg að það varst þú!“ Magnús skólastjóri er orðinn svo rauður í framan að hann virðist vera að springa. „Hvers vegna eyddirðu öllum netaðgöngunum?!“ heldurðu áfram.
„Viljiði gjöra svo vel að da-rulla ykkur héðan, eins og skot!“ argar Magnús skólastjóri. Skrifstofustóllinn hefur nú rúllað aftur frá veggnum og að skólastjóranum og er greinilega að þvælast fyrir honum. Án þess að hugsa sig um sparkar Magnús enn einu sinni í stólinn, sem í þriðja skiptið lendir í veggnum með látum.
Og þá gerist það:
Bókahillan gefur sig.
Áður en þú nærð einu sinni að vara Magnús við hafa bæði hillan og HARMSÖGUR UMSJÓNARKENNARANS - VIÐTÖL VIÐ ÍSLENSKA KENNARA FRÁ 2000-2020 lent beint á kollinum á kallinum. Magnús skólastjóri gefur frá sér hljóð sem hljómar örlítið eins og hann hafi verið kýldur í magann. Svo ranghvolfir hann augunum og lyppast niður á gólfið, í hvarf á bak við skrifborðið.
Þú fölnar.
Þetta var ekki það sem átti að gerast.
„Á ég að halda áfram að taka upp?“ heyrist allt í einu í Óliver. „Ég get örugglega náð betra skoti ef ég kem nær.“
„Nei!“ veinarðu og stekkur af stað í áttina að skólastjóranum. Þú ert miður þín. Vonandi er í lagi með hann. „Sæktu hjálp!“
Flettu á blaðsíðu 123.
(s.129-130)