Beint í efni

Áslaug Jónsdóttir

Æviágrip

Áslaug Jónsdóttir fæddist þann 31. mars 1963. Hún ólst upp á bænum Melaleiti í Melasveit í Borgarfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1983 og stundaði síðan nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1984 - 1985. Áslaug nam við Listiðnaðarskólann í Kaupmannahöfn (Skolen for Brugskunst - Danmarks designskole) frá 1985 - 1989 þegar hún útskrifaðist frá teikni- og grafíkdeild skólans. Auk þess hefur hún tekið þátt í námskeiðum í Bandaríkjunum, Svíþjóð og á Íslandi.

Frá því að hún lauk námi hefur Áslaug starfað sem myndhöfundur, grafískur hönnuður, rithöfundur og myndlistamaður. Hún hefur skrifað og myndskreytt fjölda barnabóka og tekið þátt í samsýningum, bæði hér heima og erlendis. Þá hefur hún haldið námskeið og fyrirlestra á ýmsum vettvangi, m.a. í Háskólanum á Akureyri, hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, hjá Ung í Færeyjum og víðar á Norðurlöndum. Áslaug hefur einnig skrifað og myndlýst barnaefni fyrir sjónvarp. Hún var fréttaritari fyrir Morgunblaðið 1996 - 1998 og pistlahöfundur og teiknari á Degi 1998. Hún hefur átt sæti í stjórnum SÍUNG, félags barnabókahöfunda, og Fyrirmyndar, félags myndskreyta, frá 2001.

Áslaug hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín, m.a. hefur hún tvisvar fengið Dimmalimm verðlaunin – íslensku myndskreytiverðlaunin, hún hlaut Barnabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins 2002 ásamt Andra Snæ Magnsyni fyrir Söguna af Bláa hnettinum og Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2017 í flokki barna- og unglingabóka fyrir Skrímsli í vanda.

Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.