Æviágrip
Einar Bragi fæddist í Skálholti á Eskifirði 7. apríl 1921. Hann ólst upp á Eskifirði, varð stúdent frá M.A. 1944 og stundaði nám í bókmenntum, listasögu og leikhússögu við Háskólann í Lundi 1945 – 1947 og við Stokkhólmsháskóla 1950 – 1953. Hann stundaði ýmis störf, meðal annars síldarvinnu á Siglufirði og Raufarhöfn, leiðsögumennsku erlendis, blaðamennsku á Þjóðviljanum og móðurmálskennslu í ýmsum skólum á gagnfræðastigi með hléum frá 1944 – 1987.
Einar Bragi gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir rithöfunda, meðal annars var hann formaður Rithöfundasambands Íslands 1968 – 1970, formaður Rithöfundasjóðs Íslands 1974, var fulltrúi Íslands í nefnd á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem samdi starfsreglur Norræna þýðingasjóðsins 1972 – 1974 og fulltrúi Bandalags íslenskra listamanna í ráði Norræna hússins í fjölda ára. Hann var frumkvöðull að stofnun bókmenntatímaritsins Birtings 1953 og sat í ritstjórn þess allt þar til útkoma þess lagðist af 1968.
Fyrstu ljóðabækur Einars Braga, Eitt kvöld í júní (1950) og Svanur á báru (1952) komu út þegar hann bjó í Svíþjóð en eftir heimkomu sína 1953 sendi hann frá sér þá þriðju, Gestaboð um nótt. Hann hefur gefið út fjölda ljóðabóka, skáldsögur, endurminningar og ritgerðasöfn auk þess sem hann var ötull þýðandi erlendra ljóða og prósaverka. Hann þýddi meðal annars leikrit Augusts Strindbergs og Henriks Ibsens. Ljóðabækur eftir Einar Braga hafa verið þýddar á önnur mál og einstök ljóð hafa birst í safnritum á fjölmörgum málum.
Einar Bragi lést í Reykjavík í mars 2005.
Frá höfundi
Frá Einari Braga
Einar Bragi er fæddur á Eskifirði skömmu eftir lok fyrri heimsstyrjaldar og var 18 ára þegar hin síðari hófst. Þjóðinni gafst aðeins næði til að koma honum á legg, þá var úti friðurinn, þótt ólíklegt sé að seinna stríð hafi beinlínis verið honum að kenna.
Móðurætt hans er talin alíslensk en í föðurættina hefur blandast sænskt blóð og danskt og jafnvel norskt þótt skömm sé frá að segja, en nokkuð kynni að bæta úr skák að faðir hans var kolsvartur á skegg og skör og getinn á Djúpavogi sem hvort um sig og sérstaklega að samanlögðu gæti bent til suðlægari erfðavísa aftan úr öldum.
Eskifjörður var fremur snöggsoðið pláss: íbúar 53 árið 1874 en höfðu hálfri öld síðar tólffaldast – að tölunni til. Vaxtarhraðann mátti rekja til upphafs síldveiða um 1880 og vélbátaaldar 1905. Faðir hans var sjómaður og sjaldan heima en móðirin annaðist uppeldi barna og heimilisstjórn af skörungskap þótt lág væri í loftinu. Hún lá fimm sængurlegur og þótti engum mikið nema henni; móðir hennar sem var enn minni og ákaflega nettvaxin eignaðist níu börn. Hann var stundum að velta fyrir sér hvar þessar litlu konur hefðu geymt öll þessi 14 börn sem voru engin smásmíði sum hver, til dæmis hann sjálfur 20 merkur við fæðingu. Þegar hann hreyfði þessum vangaveltum við móður sína svaraði hún: Við gengum nú ekki með ykkur öll í einu!
Meðal ljúfra bernskuminninga hans eru þær stundir þegar hríð geisaði úti og móðirin rauðkynti stóru kolakabyssuna í Framkaupstað, opnaði eldholið en slökkti ljós, lagðist því næst á eldhúsgólfið með börn sín tvö á hvora hlið og störðu í rauða glóðina meðan hún sagði þeim frá því þegar hún var lítil stelpa í Lóni eða Fagradal í Vopnafirði eða inni á Kolbeinstanga.
Rétt innan við Framkaupstaðarhúsið var lítil tjörn kölluð Íshústjörnin þar sem Einar Bragi iðkaði skautaíþrótt snemma á ævi sér til gleði þótt fræknleiks hans í greininni sé ekki getið í annálum. Síðar tóku við skíðaferðir sem gátu orðið ærið langar þegar freistingar teygðu hann hjalla af hjalla alla leið upp í Lambeyrardal þar sem Andri gætti inngöngu á aðra hönd en á hina voru útilegumannabyggðir og mátti heyra þaðan kvein kvenna sem þeir höfðu rænt og héldu hjá sér nauðugum. En átrúnaðargoð hans í hópi íþróttamanna var Jón Ben tannlæknir sem kom árlega til Eskifjarðar og dvaldist nokkra daga við að smíða upp í fólk sem fengið hafði ávísun á stell í afmælis- eða fermingargjöf. Í hádeginu gerði Jón hlé á smíði, snaraðist úr fötum, kastaði yfir sig baðslopp, gekk hægt og virðulega niður Útkaupstaðarbryggju, lagði af sér sloppinn og steypti sér án þess að hika fram af bryggjusporðinum á bólakaf í kaldan sjóinn. Það þótti Braga frækilega af sér vikið og hét sjálfum sér að þetta skyldi hann leika eftir þegar hann yrði stór. Og stóð við það. Á unglingsárum fékk hann að læra sund hjá Friðriki Jezsyni í Vestmannaeyjum og var fyrst á eftir illhemjandi á þurru landi. Hafa tveir dánumenn sem þá voru litlir drengir á Eskifirði sagst muna það gleggst úr bernsku sinni að þeir störðu stóreygir á hann stinga sér fram af Framkaupstaðarbryggju, og hafa ýmsar íþróttahetjur mátt sætta sig við færri aðdáendur þótt meira hefðu sér til frægðar unnið.
Ellefu ára fór Bragi fyrst að heiman til sumardvalar að Borgarhöfn í Suðursveit. Þar var heyskapartækni á sama stigi og verið hafði á dögum Egils á Borg að öðru leyti en því, að Þorsteinn smiður frá Steig í Mýrdal hafði innleitt orfhólka í stað þvengja og Árni Eylands skoska ljái sem við hann voru kenndir. Í Borgarhöfn var allt nýtt sem nýtanlegt var. Oft rak á fjörur talsvert af netakúlum sem riðið var utan um með snæri. Á innisetudögum þegar ófært var á engjar vegna úrhellisrigningar var honum og stúlkunni Ástu fengið það verk að leysa utan af kúlunum, um 40 hnúta á hverri. Síðan var snærið undið upp í hnykla af þægilegri stærð og fléttuð úr því reipi á veturna. Þessir hnyklar leiddu hugann að fyrirbæri sem hann hafði oft séð á sjávarbotni þegar hann var að stinga lúru á leirunum innst í firðinum heima. Þetta voru ofurlitlir sandhólar eða haugar kúptir eins og sneið af handbolta en áferðin líkust því að tveggja punda lína hefði verið rakin þarna niður. Einhver sagði honum að hér væri um að ræða dvergasmíð ormategundar sem síaði úr sandinum næringarefni og skildi hann síðan eftir svona snyrtilega hringaðan. Kannski var þaðan komin hugmynd að nafninu: Að flétta reipi úr sandi. Eftir að hann gerðist yrkjari kenndi hann ákveðins skyldleika við þetta merkilega sækikvendi: ljóðskáldin eru alla ævi að (póe)sía lífsins Langasand og hringa niður í smáskúlptúra sem þau skilja eftir á ströndinni við brottför sína og kallast ljóð.
Svei mér ef slær ekki sólarglætu á Fallastakkanöfina; ætli fari ekki að stytta upp, sagði Ásta.
Af hverju er hún kölluð Fallastakkanöf? spurði hann.
Sérðu ekki að kletturinn þarna framan í Borgarhafnarfjalli er alveg eins og fallastakkur? svaraði hún.
Hvað er fallastakkur?
Nú verð ég klumsa, sagði Ásta, veit ekki sonur sjávarþorpsins að fallastakkur er rákótta spikkápan á kviði hvalsins?
Ég hef aldrei séð hval, svaraði hann: norðmenn voru búnir að drepa alla hvali fyrir austan áður en ég fæddist og breyta fallastökkunum í lýsi, sigldu síðan til Afríku að drepa hvali þar en létu stassjónirnar ryðga og fúna þar sem þær voru komnar.
Við eigum líka Næfurhólanöf í sveitinni, sagði Ásta glettnislega til að stríða honum, en hún er austur á Mörk og sést ekki héðan. Árni hét bóndi í Sævarhólum sem átti ekkert barn með konunni en sjö í dulsmáli með griðku sinni og kastaði þeim öllum fram af Næfurhólanöf. Um það var ort
Sumir eignast enga gröf,
undir fannarhulu
fram af Næfurhólanöf
nauðar barn í dulu.
Þú gerir mig myrkfælinn um miðjan dag, sagði hann.
Fyrirgefðu, sagði hún. En veistu hvers vegna þú mátt ekki segja: Fyrirgefðu lítilræðið, þegar þér er þökkuð góð gjöf?
Nei, það veit ég ekki.
Þá sagði hún honum sögu:
Eitt sinn í fyrndinni var Skálholtsbiskup á yfirreið um Austurland og hafði tekið konu sína með henni til skemmtunar. Kvöld eitt var tjöldum slegið í nánd við prestssetrið Kálfafell í Fellshverfi. Áður en hjónin tækju á sig náðir reikuðu þau austur um völluna, því logn var um hauður og haf og hýrt til jökla að líta. Gekk þá í veg fyrir þau kona heiman frá bænum Brunnum og bar sér á örmum værðarvoð sem hún kvaðst gefa vilja biskupskonu til minja um komu hennar í Suðursveit.
Frúin rakti sundur voðina og virti fyrir sér aðdáunaraugum, vegsamaði handbragðið og þakkaði höfðingsskapinn blíðum orðum.
Fyrirgefið lítilræðið, svaraði konan.
Dýrgrip kalla ég þetta en ekki lítilræði, mælti biskupsfrú, og trúi ég slík voð hafi ekki ofin verið á einum degi.
Tólf ár hékk hún á vefstaðnum, svaraði konan, og ekki einvörðungu vegna seinvirkni minnar. Ívafið er þráður spunninn úr hári mínu, og það vildi ekki vaxa hraðar en skaparinn leyfði.
Einar Bragi var svo sem engu nær, en alla tíð síðan þessar einlægu samræður fóru fram hefur hann samt verið að kljást við undarleg orð á borð við Fallastakkanöf, dularfullar vísur og skrýtnar sögur í ætt við þá sem Ásta sagði honum forðum eða baksa við að leysa þótt ekki væri nema einn hnút á því flókna neti sem einhver reið endur fyrir löngu um jarðarkúluna.
Einar Bragi, 2001.
Um höfund
Ljóðið til öndvegis: Um skáldskap og ritstörf Einars Braga
Fyrstu ljóð Einars Braga munu hafa birst í skólablöðum Menntaskólans á Akureyri þegar hann var þar við nám. Þetta var um eða upp úr 1940 og höfundurinn þá um tvítugt. Á skólaárum sínum vann Einar Bragi mörg sumur í síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn og þar birtust þættir og prósaljóð eftir hann í veggblaðinu Verksmiðjukarlinn. Ljóð eftir Einar Braga tóku að birtast í tímaritum árið 1948 og einnig ljóðrænir þættir sem vitna um þessi nánu kynni af atvinnulífinu og uppvexti skáldsins í sjávarþorpi. „Svipmyndir úr verksmiðjuþorpinu“ heitir ljóðrænn bálkur sem sem birtist í Sjómannablaðinu Víkingi 1948 en gæti verið ættaður úr Verksmiðjukarlinum á Raufarhöfn. Og þangað kynni einnig að mega rekja syrpuna „Gyðingurinn gangandi. Götumyndir“ í tímaritinu Vinnunni sama ár. Það er hin „hversdagslega gata hversdagsmannsins“ sem er tilverusviðið í þessum þáttum eins og höfundur segir: karl, kona, barn, hamingja og strit. Þessi yrkisefni úr hversdagstilverunni og vinnulífinu færir skáldið svo á nýtt tilverusvið í fyrstu ljóðabók sinni Eitt kvöld í júní (1950). Þar birtast þeir endurfæddir í ljóðrænni fágun og oft prýddir ljóðstöfum en ljóðin öll órímuð.
Rætur Einars Braga í hversdagsstriti alþýðufólks fyrir daga tæknibyltingar setja því svip á skáldskap hans þegar í upphafi. Uppvextinum og lífi fólksins á Eskifirði hefur hann lýst á raunsæjan hátt í endurminningabókinni Af mönnum ertu kominn (1985). Í ljóðunum fer hann mýkri höndum um æskustöðvarnar og samferðafólkið, en undir ljóðrænu og stundum tregafullu yfirborði býr samt hlutlægt mat á örbirgð og erfiðri lífsbaráttu. Þetta má m.a. sjá í kvæðinu „Heim“. Fyrsta erindið birtist í fyrstu ljóðabók Einars Braga og hljóðar svo:
Munblíð gegnum
minninganna
mistur skín
snauðum harða
hungurvíkin
heimbyggð mín.
Ljóðið birtist alskapað, þrjú erindi, í næstu bók, Svanur á báru (1952), og er hið síðasta þannig:
Góða veröld
gef mér aftur
gullin mín:
lífs míns horfna
ljósa vor
ég leita þín.
Heimþráin kann að hafa rómantískt yfirbragð; tilfinningum er aldrei úthýst í ljóðum Einars Braga, en „hungurvíkin“ geymir hið raunsæja mat á æskustöðvunum. Skáldskapur Einars Braga er allur ljóðrænn í bestu merkingu þess orðs og þar af leiðandi er stíll hans oft með rómantískum blæ, en hugarfar ljóðanna er mótað af samtímanum og baráttu gegn ranglæti og fyrir betri tíð.
Í Svani á báru er eitt þekktasta ljóð Einars Braga sem upphaflega hét „Haustljóð á vori 1951“. Síðar felldi hann ártalið úr titlinum og breytti ljóðinu nokkuð. Ljóðið er ort í andstöðunni gegn komu hersetuliðsins til Íslands vorið 1951 og flytur skapheit mótmæli undir ljóðrænu yfirbragði. Síðasta erindið er svona:
Felmtruð og þögul sem þöllin
er þjóðin mín unga,
brugðið þér sjálfum hið sama:
þú syngur ei lengur,
þeyrinn ber handan um höfin
haustljóð á vori.
Hvað veldur sorg þeirri sáru,
svanur á báru?
Ljóðið brýtur mjög í bága við þá hefð pólitískra baráttukvæða með stóryrðum og herópum sem á sér langa sögu í íslenskum kveðskap. Það fór líka svo að skáldið fékk ákúrur pólitískra hávaðamanna fyrir þetta ljóð, ekki síst skoðanabræðra. Þeim þótti það ekki nógu hvassyrt og vígreift en samt hefur þetta ljóð lifað lengst og best af öllum þeim sæg ljóða sem ort voru af sama tilefni. Hér er ádeilan fólgin í náttúrumyndum því náttúran getur verið spegill þjóðfélagsmála og allar misgerðir við þjóðina koma líka niður á landinu.
Formbyltingin
Það voru miklir átakatímar í þjóðmálum þegar fyrstu ljóðabækur Einars Braga komu út og má sjá þess glögg merki í bókunum. Á þessum sömu árum var líka tekist á af miklu kappi um framtíð íslensks skáldskapar. „Formbyltingin“ svokallaða var að ná hámarki og hart var deilt um réttmæti nýjunga í ljóðagerð, s.s. um það hvort skylt væri að yrkja með ljóðstöfum og rími eins og verið hafði um aldir. Einar Bragi var ekki heldur hlutlaus í þeirri baráttu. Hann var eitt af atómskáldunum og hann var sá þeirra sem einarðast beitti sér í baráttu hinna yngri skálda fyrir endurnýjun ljóðformsins en andstaðan gegn nýjungum var hörð. Hann var helsti málsvari ungra skálda og skrifaði margar skorinorðar greinar til að skýra sjónarmið þeirra sem vildu endurnýja íslenska ljóðagerð. Hann var einnig ódeigur að verjast óbilgjörnum árásum þeirra sem ekki vildu una því að hróflað yrði við hefðbundnu kvæðaformi og viðteknum kvæðastíl.
Mitt í þessari orrahríð, árið 1953, stofnaði Einar Bragi tímaritið Birting og ritstýrði honum einn fyrstu tvö árin. Árið 1955 fékk hann fleiri til liðs við sig og ritið var stækkað. Birtingur kom út til ársins 1968 og var málgagn íslenskra módernista. Að ritinu stóðu listamenn úr ýmsum greinum sem vildu efla og endurnýja íslenska list á öllum sviðum. Einar Bragi var lífið og sálin í útgáfu ritsins alla tíð.
En það var ekki eingöngu í opinberri umræðu sem Einar Bragi var málsvari nýrra ljóða og listrænna nýjunga. Í ljóðum hans eru skýrustu rökin fyrir því að endurnýjum ljóðformsins var ekki einungis tímabær heldur nauðsynleg fyrir framþróun ljóðlistar. Ljóð hans eru skýr dæmi um listræna sköpun sem byggir á fornum arfi en tjáir þó allt á ferskan máta. Þetta má glöggt sjá í þriðja ljóðabók hans Gestaboð um nótt sem kom út sama árið og hann hleypti Birtingi af stokkunum. Titilljóð bókarinnar er í einskonar þuluformi, útleitið, myndríkt og ævintýralegt; knöpp vísuorð, ljóðstafir og rímorð stuðla að óvenjulegum hraða og gáskafullri stemmningu. Önnur ljóð bókarinnar, nema prósaljóðin, eru knöpp og langflest háttbundin. Í bókinni eru nokkur prósaljóð en við það ljóðform lagði hann mikla rækt síðan. Þarna er t.d. frumgerðin að prósaljóði sem hlaut síðar nafnið „Næturaugu“ og sver sig í ætt við síldarþorpsljóðin áðurnefndu. Eina prósaljóðið sem áður hafði birst er „Leysing“, en því ljóði hefur skáldið lítið breytt í gegnum tíðina.
Ströng endurskoðunarstefna einkennir frá upphafi skáldskaparviðhorf Einars Braga og kemur hún fram í öllum bókum hans. Hann er sífellt að fága og enduryrkja þau ljóða sinna sem hann telur að verðskuldi framhaldslíf en vill kasta öðrum í glatkistuna. Ljóðabækur hans flytja ekki eingöngu ný ljóð, heldur einnig fyrri ljóð endursköpuð. Þetta er vel ígrunduð aðferð og stefna skáldsins. Aftan við ljóðin í Gestaboði um nótt setur hann þetta sjónarmið fram skýrt og skorinort: „Ljóð er því miður aldrei fullort. Af 55 ljóðum og prósaskissum í fyrri bókum mínum eru sex birt í breyttri gerð hér að framan. Hin verða aldrei endurprentuð.“
Næsta ljóðabók Einars Braga er Regn í maí (1957), einstaklega fallegt ljóðakver með einungis 13 ljóðum og jafnmörgum myndum eftir Hörð Ágústsson. Einungis eitt ljóðanna hafði birst í fyrri bókum skáldsins en tvö í Birtingi. Hér eru mörg af fegurstu ljóðum Einars Braga, m.a. titilljóð bókarinnar og ljóðið „Con amore“ sem síðar hlaut nafnið „Mansöngur“. Þetta ljóð er einstakt. Aldrei fyrr hafði kvenleg fegurð verið mæld í slíkum gildum né tjáð með ríkulegri myndvísi:
Ég elska konuna nakta
með næturgala í augum:
nývaknaða angandi lilju
laugaða hvítri morgunsól,
konuna unga ólétta
með knapprauð blóm
á bleikum þúfum
þreyjulaus af þrá
eftir þyrstum hunangsfiðrildum,
konuna stolta sigurglaða
sýnandi öllum heiminum
sinn vorsána frjóa akur
þar sem undrið vex í myrkri
moldinni gljúpu: vex.
Að sjálfsögðu hefur þetta ljóð verið endurprentað og í því hefur skáldið engu orði hnikað. Í Regni í maí er einnig ljóðið „Nocturne“ sem seinna fékk nafnið „Bifreiðin dregur rauða æð“. Eins og kunnugt er hefur bíllinn treglega fengið inngöngu í ljóðagerðina, nema í kersknisvísum, og hefur víst þótt fremur óljóðrænt fyrirbæri. Í þessu ljóði er í fyrsta sinn ort um mannlíf í bifreið, og hér er bílinn fullgildur hluti af borgarlífinu. Við horfum í gegnum framrúðuna á bíl sem er á ferð í borginni á rigningarkvöldi:
Á fægðum geira
í grámóðu rúðunnar
hverfast í hvítum reyk
bros hendur bráðlátar varir
víngler glóandi flugur
flöktandi þöglar
Öll ljóðin úr Regni í maí stóðust næstu endurskoðun skáldsins og birtust í ljóðaúrvalinu Hreintjarnir. Ljóð 1950-1960 en það kom út 1960 og aftur 1962. Í bókinni eru fimm ljóð sem ekki eru í fyrri bókum.
Auk Hreintjarna hafa frá hendi Einars Braga komið þrjú ljóðasöfn og hvert þeirra geymir nokkur ný ljóð en að miklu leyti eldri ljóð hans, stundum endurskoðuð eða með nýjum titlum. 1970 kom út Í ljósmálinu. Ljóð 1950-1970. Af 47 ljóðum eru nokkur nýleg í þessu safni; tíu þeirra birtust árið áður í smákveri sem nefnist Við ísabrot og eru þau meðal albestu ljóða Einars Braga. Eitt hið eftirminnilegasta þeirra er „Bið“, um sköpun ljóðs sem vex af fræi og verður tré og um sköpunartilfinningu skáldsins. Það er gert af stakri myndvísi – með vísun til skáldskaparguðsins, – háttbundinn bragur með hálfrími framanaf en alrími í lokin:
Hvílast í þögn og vaxa: vorsáð fræ
og vera sjálfur moldin sem því hlúir,
regn sól og vindur, himinn jörð og haf
hvílast í þögn og vaxa: verða tré
sem vetrarnakið bíður eitt og þráir
að finna brýnd við börkinn lítil nef.Þá ymur tiginn askur við og fagnar
Óðni vígður jafnt til söngs og þagnar.
( Ljóðið birtist fyrst í smákverinu Við ísabrot (1969))
Í eftirmála bókarinnar Í ljósmálinu víkur skáldið enn að vinnubrögðum sínum og skáldskaparviðhorfum sem sýna fádæma kröfuhörku og ögun gagnvart eigin ljóðum. Hann segist alltaf hafa verið verkasmár við ljóðagerð, og síðan: „Segja má að ég hafi alltaf verið að yrkja sömu bókina eins og gamli Walt Whitman, sem mér þykir vænna um en önnur skáld. Hver hefur sitt verklag, og lítið við því að gera: þetta er nú einu sinni mitt. Ég hlýt að biðja grandvara lesendur að taka aldrei mark á öðrum ljóða-bókum mínum en þeirri seinustu og reyna að týna hinum, séu þeir ekki búnir að því.“
Síðan þetta var skrifað hafa komið tvö ljóðasöfn frá Einari Braga. Árið 1983 kom út ljóðasafn með frumsömdum ljóðum og þýddum, myndskreytt af Ragnheiði Jónsdóttur, og heitir það blátt áfram Ljóð. Í bókinni eru ekki nema 64 frumsamin ljóð, svo mjög hefur skáldið takmarkað ljóðaúrval sitt. Eigi að síður eru hér fleiri ljóð en í fyrri bókum skáldsins og 16 þeirra höfðu ekki birst áður. Þetta leiðir hugann á ný að eftirmála bókarinnar Í ljósmálinu; þar segist Einar Bragi jafnan hafa „talið vel, ef takast mætti að ljúka einu boðlegu ljóði fyrir hvert ár ævinnar.“ Þegar að er gætt reynist ljóðafjöldinn í flestum bókum skáldsins vera í samræmi við fjölda liðinna æviára. Einar Bragi hverfur þó frá þessu samræmi ljóða og æviára í nýjustu bók sinni sem heitir Ljós í augum dagsins (2000); í henni eru einungis 40 ljóð, þar af þrjú ný.
Endursköpun
Í safninu Ljóð eru 48 ljóð úr fyrri bókum. Úr fyrstu bókinni fá þar inni einungis fáein brot, samtals þrjár vísur. Endurskoðun Einars Braga á ljóðum sínum má m.a. rekja í ljóði sem fékk endanlega nafnið „Báruljóð“. Það var upphaflega hluti af lengra ljóði og hefur tvisvar skipt um titil en eftirfarandi erindi hefur staðist alla endurskoðun án þess að orði væri breytt:
Lítill kútur
lék í fjöru
og hló,
báran hvíta
barnsins huga
dró.
Þetta ljóð orti skáldið í minningu föður síns; það er í raun ævisaga sjómanns í einstaklega knöppu formi og bundnu. Seinna erindi „Báruljóðs“ breytti skáldið lítillega síðar og er það svohljóðandi:
Langrar ævi
yndi og vos
á sjó,
báran svarta
bylti líki
og hló.
Þetta ljóð er í öllum bókum skáldsins nema Gestaboði um nótt.
Annað dæmi um endurskoðun ljóðs er ferill ljóðsins sem fékk endanlega titilinn „Barn“:
Hvítar síður
í bók
sem bíður
skáldsins
órituð
opin.
Þetta knappa ljóð er dæmi um fágæta myndvísi: aðeins ein mynd sem hefur þó víðtækar skírskotanir. Það var einmitt keppikefli margra módernista að búa um mikið efni í hverri mynd; þannig var hægt að segja margt í fáum orðum. Ljóðið í heild er ein myndhverfing og kenniliðurinn fólginn í titlinum. Upphaflega var þetta ljóð tvær línur í öðru ljóði sem var fimm erindi og hét „Manvísa“ í ljóðabókinni Gestaboð um nótt. Í smákverinu Við ísabrot var textinn eins og hér að ofan og ljóðið hét „Barnshendur“. Árið eftir hét ljóðið „Barn“ í bókinni Í ljósmálinu.
Ljóðskáldið Einar Bragi á langan og sérstæðan kveðskaparferil að baki. Ljóðagerð hans vitnar um mikla vandvirkni, málrækt og virðingu fyrir tungumálinu og meginstyrkur hennar er ekki síst auðugt og hnitmiðað myndmál. Myndsköpunin hefur ætíð verið metnaðarmál Einars Braga. Árið 1955 skrifar hann í Birtingi: „Veruleiki ljóðs er ekki yrkisefnið sjálft, heldur mynd þess. Í góðu ljóði hverfur yrkisefnið í mynd sína, verður hún.“ (2 Birtingur 4.h. 1955, bls. 38.)
Yrkisefni
Yrkisefnin, sem skáldinu eru hugleiknust, eru beinlínis tilgreind í „Nafnlausu ljóði“ sem hann setti fremst í ljóðaval sitt 1970 og 1983:
Ég sem orðum ann
nefndi einatt í auðmýkt
konu, mann
líf mold vatn,
á vörum brann
veikasta sögnin
að elska
fann mér hóglega
á hjarta lagt:
án mín fær skáldið
ekkert sagt.Hver ert þú?
Ég er þögnin.
(Ljóðið birtist fyrst í smákverinu Við ísabrot (1969))
Mannlíf, ást, náttúra – allt er þetta samofið í ljóðum skáldsins, og hafa þegar verið tilfærð nokkur dæmi þess. Fólkið og örlög þess, reynsla, gleði og dauði, eru efni margra ljóða, hversdagslíf og önn dagsins. Þar eru t.d. ljóðin um lífið í þorpinu, minnisvarðar um fólk sem lifði við strit og örbirgð víða um land, en örlög þess snerta okkur öll þegar þau birtast okkur í sterkum myndum þessara ljóða. Einar Bragi hefur tekið ódeiga afstöðu í þjóðmálum og hann hefur ort mörg ádeiluljóð. Ádeilan á félagslegt ranglæti, hernaðarofbeldi, pólitíska hræsni og hverskonar yfirdrepsskap er sett fram ýmist með kaldhæðni eða myndum úr náttúrunni. Sérkennilegt er ádeiluháðið í ljóði sem heitir „Ættjarðarljóð“ og fjallar um yfirborðsleg hátíðlegheit, fyndin og sorgleg í senn. Fjallkonan fer út úr hefðbundnu hlutverki á þjóðhátíðardaginn og í stað ljóðmæla þjóðskálda fer hún að tala um æðarfuglinn og lífsbaráttu hans og er við það að bresta í grát en mannfjöldinn ýfist við. „Æðurin var alltaf fuglinn minn“ segir hún loks – og:
hún vakir yfir eggjum sínum,
ann sér ekki matar,
sýpur aðeins regn af stráum
til að slökkva sárasta þorstann
meðan hún bíður,
bíður eftir að fá
að fylgja börnum sínum
stuttan spöl
úr dúnmjúku hreiðri
að nágulum goggi vargsins.
(Birtist fyrst í smákverinu Við ísabrot (1969). Í Þá var öldin önnur. fyrsta bindi, bls. 166-67, segir Einar Bragi frá tilurð þessa ljóðs.)
Það má auðveldlega heimfæra þessa dýralífssögu hinnar snöktandi fjallkonu á þjóðfélagsmálin jafnt í þröngum sem víðum skilningi. En ljóðakonan segir einmitt það sem ekki má segja á hátíðlegum stundum, því að þá er breitt yfir hinar félagslegu misgerðir og allir eiga að gleðjast með skrautklæddum hégómanum.
Áður var minnst á „Mansöng“, ástarljóðið um hina óléttu konu og fegurð hennar. Svipuð tengsl ástar, fegurðar og frjósemi ríkja í fleiri ljóðum skáldsins, t.d. prósaljóðinu „Regn í maí“, og ást er jafnan umvafin aðdáun og umhyggju, t.d. í smáljóði sem heitir „Æska“:
Andvarinn vekur
vatnið um ljósa óttueins vekur ástin
öldur í þínu blóðinýjar á hverri nóttu.
( Birtist fyrst í smákverinu Við ísabrot 1969)
Náttúran birtist í margvíslegum myndum í ljóðum Einars Braga og hún gegnir margskonar hlutverki. Hún er stundum spegill þjóðfélagsins eins og áður greinir, en hún er einnig lífgjafi og fegurðarmynd og nátengd sálarlífinu. Smáljóðið „Viðlag“ hljóðar svo:
Meðan jörðin sefur
sveipuð hvítum feldi,
fara glaðlynd vermsl
með vordrauminn um æðar henniÉg heyri ekki nið þeirra,
en nem í blóðinu
þöglan grun
um græna nál undir snjónum.
(Ljós í augum dagsins, bls. 7. Ljóðið birtist fyrst í Gestaboði um nótt.)
Og enn knappara ljóð um sambúð manns og náttúru sýnir magíska náttúrukennd. „Þegar náttar“ heitir það og hljóðar svo:
Ég hverf,
en hvítar örvar
annarlegra ljósa
sem loga í augum dagsins
falla á veg minn,
lýsa spor mín
í gráum sandinum
þegar náttar.
Ljóð Einars Braga hafa verið þýdd á mörg erlend mál. Etangs Clairs (1968) er frönsk þýðing á Hreintjörnum eftir Régis Boyer. Úrval ljóða hans á sænsku heitir Pilar av ljus (1976) í þýðingu Inge Knutson og úrval á norsku Regn i mai (1973) í þýðingu Knuts Ödegård. Mörg ljóð eftir Einar Braga eru í safni norræna ljóða á spænsku Poesía nórdica (1995) í þýðingu José A. F. Romero. Einnig hafa þýðingar birst í mörgum fleiri sýnisbókum, og tímaritum í ýmsum löndum.
Fjölþætt ritstörf
Hér að framan hefur eingöngu verið rætt um frumsamin ljóð Einars Braga. En hann hefur einnig unnið stórvirki í ljóðaþýðingum og þýtt ljóð frá mörgum löndum, einkum norrænum. Þýdd ljóð eru þegar í fyrstu bók hans og raunar í flestum ljóðabókanna. Ásamt Jóni Óskari ritstýrði hann bókinni Erlend nútímaljóð (1958) og drjúgur hluti þýðinga í bókinni er eftir hann. Allmargar bækur birta eingöngu ljóðaþýðingar Einars Braga: Hrafnar í skýjum er safn ljóðaþýðinga sem hann gaf út 1970, ennfremur bækur með þýðingum ljóða eftir Knut Ödegård (1973) og Gunnar Björling (1975) og ljóðasafn með lettneskum ljóðum. Þá er ótalið einstakt menningarstarf Einars Braga sem eru þýðingar hans og kynning á ljóðum skálda á jaðarsvæðum, annarsvegar grænlensk ljóð, Sumar í fjörðum (1978) og hinsvegar samísk ljóð, Hvísla að klettinum (1981).
Þetta er þó ekki nema hluti af þýðingastarfi Einars Braga; hann hefur einnig þýtt skáldsögur og leikrit eftir marga höfunda. Má þar sérstaklega nefna nær öll leikrit tveggja hinna mestu norrænu leikritaskálda: Strindberg: Leikrit I-II (1992) og Ibsen: Leikrit I-II (1995).
Mörg önnur viðamikil ritverk hafa komið frá hendi Einars Braga. Hann hefur ritað bernskuminningar sínar í bókinni Af mönnum ertu kominn (1985). Þar lýsir hann uppvaxtarárunum á Eskifirði og gefur glögga mynd af foreldrum sínum, ævi þeirra og kjörum. Annað rit og víðtækara, og frá öðru sjónarhorni ritað, er saga Eskifjarðar, Eskja I-IV (1971-86). Þar er saman kominn mikill fróðleikur um byggðarlagið sem Einar Bragi hefur takið saman og ritar um af hagleik og þekkingu. Hann hefur því vissulega goldið æskubyggðinni, „hungurvíkinni“, fósturlaunin. Með árunum virðist Einar Bragi hafa fengið aukinn áhuga á alþýðu- og lífsháttasögu. Af þeim toga er ritsafn hans og frásagnaþættir um liðna tíð Þá var öldin önnur I-III (1973-75). Í þessum bókum eru frásagnir af fólki og atburðum, einkum í Austur-Skaftafellssýslu en þangað á höfundur ættir að rekja. Þetta eru bæði þjóðlífsmyndir og endurminningar höfundar sjálfs frá þessum slóðum.
Árið 1982 kom úr sérkennileg bók frá hendi Einars Braga. Nefnist hún Hrakfallabálkurinn og fjallar um danska kaupmanninn Jakob Plum sem vann við dönsku konungsverslunina í Ólafsvík á 18. öld og gerðist þar síðan fríhöndlari. Bókin er að formi viðtalsbók íslensks samtímamanns danska kaupmannsins en byggð á tveimur bókum sem Plum skrifaði um starf sitt og kynni af Íslendingum.
Af framantöldu má sjá að Einar Bragi hefur unnið margháttað bókmenntastarf. Hann hefur einnig annast útgáfu á verkum annarra höfunda og ritað um þau, m.a. Lilju Eysteins Ásgrímssonar, ljóðaúrvali Jóns úr Vör, bókmenntagreinum Bjarna Benediktssonar frá Hofteigi og sögum og kvæðum Stefáns Jónssonar rithöfundar og kennara.
Þá hefur Einar Bragi ritað fjölda greina og ritgerða í tímarit og blöð um bókmenntir og aðrar listir og um þjóðfélagsmál. Skrif hans um viðhorf til skáldskapar eru mikilvægt framlag þegar athuguð er endurnýjun íslenskrar ljóðagerðar um og eftir miðja síðustu öld. Strax í upphafi þeirra umbrota var hann boðberi nýrra viðhorfa og rökfastur gagnrýnandi í málefnum íslenskrar ljóðagerðar. Í skáldasamræðum í Birtingi ( „Talað við gesti“ Birtingur 3.-4. hefti 1958.) lýsir hann viðhorfum sínum til módernismans:
Hann er eftir mínum skilningi fyrst og fremst uppreisn gegn stöðnuðum formum, vélrænum stuðlarunum, óinnlifuðu orðaskvaldri, andlausri skrúðmælgi, umskriftalausum ytri lýsingum, myndlausum frásagnakvæðum og alls konar bundnu „þjóðlegu“ rausi sem var að kæfa ljóðið – og jafnframt er hann viðleitni til endurnýjunar: sköpunar nýrra ljóðforma, hreinsunar ljóðmálsins, nýbreytni í myndum, líkingum og hugmyndatengslum í þeim megintilgangi að hefja ljóðið sjálft til öndvegis.
© Eysteinn Þorvaldsson, 2001
Greinar
Almenn umfjöllun
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson: „Í mildu frjóregni: um ljóðaþýðingar Einars Braga“
Glettingur 2010, 20. árg., 53. tbl. bls. 42-6.
Eysteinn Þorvaldsson: „Ég sem orðum ann“ : um skáldskap Einars Braga“
Glettingur 2010, 20. árg., 53. tbl. bls. 35-41.
Eysteinn Þorvaldsson: „Ljóðið sjálft til öndvegis. Um skáldskap og ritstörf Einars Braga“
Í Eysteinn Þorvaldsson, Baldur Hafstað og Þórður Helgason (ritsj.): Ljóðaþing. ReykjavíK: Ormstunga, 2002
Helgi Grímsson: „Hve líf sem friðar nýtur andar rótt“
Hugleiðingar um(hverfis) skáldskap Einars Braga
Tímarit Máls og menningar, 46. árg., 4. tbl. 1985, s. 473-482
Jóhann Hjálmarsson: „Myndin og yrkisefnið“
Íslensk nútímaljóðlist, s. 154-160.
Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1971
Jóhanna Guðrún Sveinsdóttir: „Sléttaleiti“
Skaftfellingur 2005, 18. tbl. bls. 79-84.
Kristján Eiríksson: „Til lesenda“ Eftirmæli
Són, 3. árg., 2005, s. 5-6
Pétur Gunnarsson: „Einar Bragi, samtíðarmaður“
Glettingur 2010, 20. árg., 53. tbl. bls. 28-34.
Silja Aðalsteinsdóttir: „Saknað“ Eftimæli
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 2. tbl. 2005, s. 94-95
Soffía Auður Birgisdóttir: „Strengurinn sem tengir móður og barn: um sjálfsæviskrif Einars Braga“
Skaftfellingur 2008-2009, 20. tbl. bls. 15-22.
Thor Vilhjálmsson: „Fornvinir kvaddir“ Eftirmæli um Einar Braga og Hörð Ágústsson
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 2. tbl. 2007, s. 52-58
Þorleifur Hauksson: „Kveðið í kverk“
Maukastella, færð Jónasi Kristjánssyni fimmtugum. Reykjavík, 1974, s. 69-71
Um einstök verk
Ljós í augum dagsins
Helgi Hallgrímsson: „Ritfregnir. Ljós í augum dagsins“
Glettingur, 12. árg., 3. tbl. 2002, s. 50
Í ljósmálinu
Ólafur Jónsson: „Veikasta sögnin á vörum. Í ljósmálinu“
Líka líf, s. 75-78. Reykjavík: Iðunn, 1979
Hrafnar í skýjum
Ólafur Jónsson: „Veikasta sögnin á vörum. Hrafnar í skýjum“
Líka líf, s. 78-81, Reykjavík: Iðunn, 1979
Ólafur Jónsson: „Hrafnar í skýjum. Þýdd ljóð“
Skírnir, 144. árg., 1970, s. 232-234
Hreintjarnir
Jón frá Pálmholti: „Hreintjarnir. Ljóð 1950-1960“
Tímarit Máls og menningar, 23. árg., 2. tbl. 1962, 270-271
Ólafur Jónsson: „Símtjöl við guð: blaðað í nokkrum ljóðabókum“
Félagsbréf Almenna bókafélagsins, 8. árg., 27. tbl. 1962, s. 40-57
Regn í maí
Rögnvaldur Finnbogason: „Regn í maí“
Tímarit Máls og menningar, 18. árg., 3. tbl. 1957, s. 300-301
Magnús Torfi Ólafsson: „Regn í maí“
Birtingur, 4. árg., 3.-4. hefti 1958, s. 69-70
Ólafur Jónsson: „Poëtae minores“
Dagskrá (Reykjavík 1957-1959), 1. árg., 1. tbl. 1957, s. 65-66
Gestaboð um nótt
Drífa Viðar: „Gestaboð um nótt. Ljóð“
Tímarit Máls og menningar, 16. árg., 1. tbl. 1955, 107-108
Pilar av ljus
Anders Palm: „Recensioner och anmälningar. Einar Bragi. Pilar av ljus“
Gardar, årsbok 7 1976, s. 78-80
Verðlaun
2001 - Heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands
2000 - Sænsk-íslensku menningarverðlaunin
1999 - Þýðingarverðlaun sænsku akademíunnar
1998 - Heiðursviðurkenning Bókasafnssjóðs höfunda
1995 - Heiðursviðurkenning Þýðingarsjóðs
1986 - Heiðursbogari Eskifjarðar
1969 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
Poesia. Anno XVIII. N. 200 - Dicembre 2005
Lesa meiraÉg litast um í leit...
Lesa meiraLjóð í Cold was that Beauty...
Lesa meiraLjóð í Wortlaut Island
Lesa meiraLjós í augum dagsins
Lesa meiraLjóð í Time and The Water
Lesa meiraVaikke jiehkki jávkkodivccii
Lesa meiraLjóð í HUGUR, offerts á Régis Boyer pour son 65' anniversaire
Lesa meiraLjóð í La Tradukisto
Lesa meira
Undir norðurljósum
Lesa meiraVíðernin í brjósti mér: ljóð
Lesa meiraKaldrifjaður félagi: ljóð
Lesa meiraHandan snæfjalla: ljóð
Lesa meiraBjartir frostdagar: ljóð
Lesa meiraMóðir hafsins : ljóð
Lesa meiraLeikrit I - II eftir Ibsen
Lesa meiraInnreið nútímans í norrænar bókmenntir
Lesa meiraLeikrit I - II eftir Strindberg
Lesa meira