Um bókina
Mannfræðingurinn Saga Líf fær einlífa rithöfundinn Eyju Björk til að tala um ástalíf sitt í nokkrum viðtölum. Hvernig fer kona að því að finna traust í nánu sambandi eftir að hafa sofið hjá „hinum og þessum“? Er ástin til eða er hún bara uppfinning manneskjunnar? Konur eru alltaf að bjarga karlmönnum. Í því er ástarkraftur þeirra fólginn og sá kraftur er auðmagn sem allt samfélagið og ekki síst karlmenn njóta góðs af.
Einlífi – ástarrannsókn er þriðja bók Hlínar Agnarsdóttur þar sem hún vinnur úr minningum sínum og lífsreynslu. Í þetta sinn gengur hún skrefinu lengra en í hinum tveimur og leyfir skáldskapnum að blanda sér í málin.
Úr bókinni
Það var farið að síga í seinnipart boðsins og talið barst að einlífinu, kostum þess og göllum. Konur tala mjög mikið um ást og sambönd, karlmenn og tilfinningar þegar þær eru einar og enginn heyrir til nema hundurinn á heimilinu. Eða öllu heldur þegar þær eru tvær saman og hundurinn undir borði að hlusta. Samt tala ekki allar vinkonur saman um ástina, hvað þá kynlífið, það verður smátt og smátt að aukaatriði þegar tvílífi hjónabandsins hefur fest sig í sessi hjá annarri og einlífið hjá hinni. Kona sem hefur verið í löngu hjónabandi fer ekki að tala um ástalíf sitt við konu sem varla lifir neinu ástalífi. En þessi vinkona vestur í bæ, systir mín í einlífinu, hún gat talað frjálst og innilega um ástalífið sem við báðar þráðum. Margar konur sem eru einar og hafa verið einar um árabil tala gjarnan um að þær vilji eignast vin sem þær geti hitt af og til og sofið hjá en taka skýrt fram að þær vilji alls ekki hefja sambúð. Þetta eru allt draumórar, öll alvöru ástarsambönd sem hafa einhverja dýpt enda með sambúð sem hefur þó tilhneyingu til að rakna í sundur hver sem ástæðan er. Er þessi rannsókn ekki einmitt tilraun til að varpa ljósi á hana?
Haltu áfram, sagði Saga Líf einbeitt á svip.
Ef ég held áfram í þessum dúr, föllum við báðar á Bechdel prófinu. Tvær konur að tala saman um karlmenn, er ekki komið nóg af því í bókum, kvikmyndum og samfélaginu öllu? Annð hvort tala konur um hvað þær þrá karlmenn mikið eða hve illa þeir fóru með þær.
Haltu áfram, sagði Saga Líf, hafðu ekki áhyggjur, ég sé um Bechdel.
Höktandi hélt ég áfram og reyndi að muna. Við vinkonurnar vorum að tala um ástina og fyrrverandi ástarsambönd. Vinkonan hafði ýmiss konar reynslu eins og ég, hún var þó ekki alveg ein, hún átti tvö börn og því minni hætta á að hún yrði ein um sextugt eins og ég. Það yrðu komin barnabörn til að knúsa og svo átti hún fósturson, hundinn undir borðinu. Samt þráðum við vin, gáfaðan vin, sem væri í djúpu sambandi við eigin tilfinningar, skemmtilegan vin og síðast en ekki síst sem byggi yfir andlegum og líkamlegum kynþokka.
(s. 23)