Beint í efni

Elías kemur heim

Elías kemur heim
Höfundur
Auður Haralds
Útgefandi
Iðunn
Staður
Reykjavík
Ár
1987
Flokkur
Barnabækur

Myndir eftir Brian Pilkington

Um bókina

Elías, mamma hans og pabbi eru komin heim til Íslands aftur. Það hefði átt að vera mjög friðsamlegt, því Magga móðursystir mömmu varð eftir í útlöndum. En það er enginn friður. Pabbi Elíasar sér fyrir því. Elías veit ekki hvort hann er orðinn svona gamall eða hvort hann varð svona af að lenda í Fílnum. Eða, eins og Simbi segir: "Enginn með viti þrasar við fíl."

Það hjálpar ekkert, að mamma Elíasar er alveg róleg. Hún er það nefnilega bara af því hún sefur allan daginn. Sjálf segir hún að það sé litla bróður Elíasar að kenna og að hún vakni örugglega þegar hann fæðist. Elías veit ekki hvort hann á að þora að trúa því. Hann hefur áhyggjur af hvað verði um litla bróður sinn. Því sennilega á litli bróðir ekki von á því að eignast mömmu sem sefur stanslaust og pabba sem gerir eintómar vitleysur.

Sem betur fer á litli bróðir stóran bróður sem ákveðjur að bjarga honum.

Úr bókinni

Þá ætlaði pabbi að vera ofsalega sniðugur. Hann tók hnefafylli af hnetum og henti þeim langt í burtu. Þetta tókst alveg ágætlega hjá honum. Allir aparnir þutu á eftir hnetunum. Pabba fannst svo gaman, að hann ætlaði að henda fleiri hnetum. En þá kom bara allt í einu myrkur inn í bílnum. Það var af því að það stóð fíll við hliðina á honum. Fíllinn hafði frétt, að Guðmundur Jónsson væri mættur að útbýta hnetum. Og nú vildi hann fá líka.
   "Sæll, vinur," sagði pabbi við fílinn og stakk tíu hnetum inn í ranann á honum. Mamma sagði "G-g-g-g-u-u-u- ..."
   Þá sagði pabbi: "Hvað er þetta, Elva mín, þetta er bara stór grasæta. Fílar eru ósköp gæfir og blíðir. Sjáðu bara," sagði hann og klappaði ranann á fílnum. Og svo sat pabbi þarna og stakk hnetum í ranann, fíllinn stakk rananum í munninn og blés hnetunum upp í sig, og svo renndi hann rananum aftur inn um gluggann hjá pabba og bað um meira.
   Alveg þangað til pabba langaði að sjá gíraffana. Þá sagði hann við fílinn: "Allt búið, vinur. Allt búið." Og klappaði á ranann. En fíllinn hlustaði ekkert á hann, því hann vissi vel að pabbi var að ljúga. Hann fann sko lyktina af öllum hnetupokunum hans.
   "Allt búið, kallinn," sagði pabbi og ætlaði að ýta rananum út um gluggann. En hann bara gat ekkert ýtt mörgum tonnum af vinalegri grasætu.
   "Fíllinn skildi heldur ekki íslensku," sagði Simbi. "Þessi fíll skildi í mesta lagi pínulítið swahili og smá í ensku, fyrir utan ítölskuna."
   "Þessi fíll vildi bara ekki skilja neitt," sagði ég. "Hann vildi fá fleiri hnetur. Og úr því að pabbi vildi ekki mata hann, þá ákvað hann að finna hneturnar sjálfur og taka þær. Svo hann stakk rananum soldið lengra inn í bílinn og fór að leita að þeim.
   Fyrst þreifaði hann á öllum perlunum í hálsfestinni hennar mömmu. Sennilega hélt hann, að pabbi hefði þrætt allar hneturnar upp á spotta og hengt þær á mömmu til að fela þær. Mömmu kitlar alveg hræðilega á hálsinum, svo hún öskraði af hræðslu og grenjaði af hlátri, í einu. Margir fílar hefðu orðið hræddir við lætin í henni. En ekki þessi. Hann hefur verið ægilegur hnetufíkill.
   Pabbi skammaði hann og stjakaði við rananum. Þá leitaði fíllinn á bringunni á pabba og pabbi hló alveg svakalega, til að sýna mömmu hvað hann væri hraustur. Svo hætti hann allt í einu að hlæja. Það var af því að fíllinn hafði fundið gleraugun hans. Sennilega hefur hann ætlað að athuga hvort honum gengi betur að finna hneturnar ef hann setti upp gleraugun hans pabba. Því hann tók þau af honum.
   Þá gargaði pabbi.

(s. 28-29)

Fleira eftir sama höfund

hvað er drottinn að drolla?

Hvað er drottinn að drolla?

Miðaldra bókhaldari vaknar skyndilega upp sem gjafvaxta ungmey í Englandi á 14. öld. 
Lesa meira
Elías

Elías

Hún hafði náð í sérstaklega harðgert gaddavírsgarn og búið til eins konar húfu. Húfan var hauspoki með tveim hnappagötum fyrir augun.
Lesa meira
elías, magga og ræningjarnir

Elías, Magga og ræningjarnir

Bankastjórinn kom og ætlaði að þakka henni fyrir að bjarga bankanum og Magga skammaði hann bara fyrir að hafa svona banka þar sem fólk þyrfti að nota byssu til að fá afgreiðslu.
Lesa meira
elías í kanada

Elías í Kanada

Á veggjunum í ganginum og eldhúsinu mjökuðstu sniglarnir mínir upp og niður og þreifuðu fyrir sér með fálmurunum. Alveg hafði ég steingleymt þeim þegar ég kom heim kvöldið áður. Um nóttina höfðu þeir svo skriðið upp úr bakpokanum og voru ennþá að leita að góðum steini til að búa á.
Lesa meira
elías á fullri ferð

Elías á fullri ferð

Fyrst skellur yfir þau gestaplága svo skæð, að mamma og pabbi eru að hugsa um að flýja að heiman. Elíasi tekst að hrekja gestapláguna burtu, að vísu með nokkuð grófum ráðum.
Lesa meira
baneitrað samband á njálsgötunni

Baneitrað samband á Njálsgötunni

Mætir Konráð skilningi hjá móður sinni? Nei. Hann finnur það nú bara bezt þegar hún rífur græjurnar hans úr sambandi á næturnar.
Lesa meira
hlustið þér á mozart?

Hlustið þér á Mozart? Ævintýri fyrir rosknar vonsviknar konur og eldri menn

Rósemi Lovísu verkar sem fyrirboði, gamla konan fær ónot í magann, hana langar ekki að heyra meira, en hún verður.
Lesa meira
litla rauðhærða stúlkan

Litla rauðhærða stúlkan

Hér er stutt saga af lítilli rauðhærðri stúlku sem skrifuð var af Auði Haralds í samstarfi við Vigdísi Hlíf Sigurðardóttur sem er höfundur myndefnis.
Lesa meira
læknamafían

Læknamafían : Lítil pen bók

Mér líður eins og perlumóður, ég á að halda áfram að safna steinum.
Lesa meira