Myndir eftir Brian Pilkington
Um bókina
Nú á að byggja brú á milli Sikleyjar og Ítalíu. Pabbi hans Elíasar fær vinnu við brúargerðina.
Elías heldur að það geti verið að flugfélögin séu ekki búin að gleyma þessari fjölskyldu og neiti að selja þeim farmiða.
Þau eru hundelt af Möggu móðursystur mömmu og manninum hennar, honum Misja, sem pabbi segir að sé jafnvel ennþá hættulegri en Magga sjálf.
Á Sikiley þarf að gera fleira en byggja brýr. Það þarf að ala Sikileyinga betur upp, segir Magga. Þeir vilja ekkert læra góða siði af Möggu, en hún sannfærir þá með sínum aðferðum. Enda er Magga svo harður nagli, að jafnvel sterkbyggðustu vinnuhestar leggjast á hnén, bara ef Magga horfir á þá.
Pabbi, sem vildi komast í Möggufrí, hafði reynt að hræða hana með Mafíunni og mannræningjum. Hann hefði frekar átt að aðvara ræningjana.
Misja, sem kann á allt á Sikiley, segir að þar eigi aldrei að segja satt. Hann fer eftir þessu sjálfur og verður harmonikkuleikari keisarans. Það skiptir engu máli að keisarinn dó áður en Misja fæddist.
En foreldrum Elíasar hundleiðist. Þau taka upp á að gera ógurlega vitleysu, sem Elías heldur að hann neyðist til að leysa úr fyrir þau. Og það getur tekið hann tuttugu ár.
Úr bókinni
"Ha? Bankaræningi?" hváði Magga og leit á sparkandi mennina á gólfinu.
"Já, og hann var með byssu," sagði ég og kyngdi.
Varirnar á Möggu urðu að mjóu striki. Svo gerði hún smárifu á strikið og fussaði út um það :
"Byssu? Ég skil það svo vel. Það er eina leiðin til að fá afgreiðslu hérna."
Og með þetta bakkaði Magga aldrei. Bankastjórinn kom og ætlaði að þakka henni fyrir að bjarga bankanum og Magga skammaði hann bara fyrir að hafa svona banka þar sem fólk þyrfti að nota byssu til að fá afgreiðslu.
Löggan kom og tókst að finna ræningjann neðst í hrúgunni á gólfinu. Þeir settu hann í handjárn og svo vildu þeir að Magga kæmi með á lögreglustöðina til að þeir gætu skrifað niður hvernig hún hefði afvopnað ræningjann.
Magga sagðist ekki hafa tíma til þess og þar fyrir utan, þá hefði maðurinn ekki verið að ræna bankann, heldur aðeins gert örvæntingarfulla tilraun til að fá afgreiðslu. Og þar með sneri hún sér að gjaldkeranum, sem var enn að skjálfa, barði í glerið með regnhlífinni og spurði hvort hún þyrfti að berja í eitthvað annað, til dæmis hann, til að fá þessari ávísun skipt.
Það þurfti að hjálpa honum að telja peningana.
(s. 78-79)