Úr Emil og Skunda:
Konan gekk útúr eldhúsinu og inní nærliggjandi herbergi. Þar lá hvolpurinn í kassa. Hann var sofandi þegar þau komu inn. Móðir hans reis upp útí horni og horfði grunsemdaraugum á þau. Átti nú að taka þennan frá henni líka?
- Þetta er allt í lagi, Rósa mín, sagði konan við tíkina sem lagðist aftur niður en hafði augun opin og fylgdist með því sem fram fór.
Emil horfði bergnuminn oní kassann á þetta litla dýr sem lá þar. Hvolpurinn var svo fallegur að Emil fékk kökk í hálsinn og langaði mest til að taka hann í fangið og kjassa hann. Konan greip með annarri hendinni utanum hann og tók hann upp. Hvolpurinn opnaði augun syfjulega og leit á þau.
- Jæja, hvernig líst þér á hann? spurði konan og leit á Emil. Emil kyngdi.
- Bara vel, sagði hann.
Konan rétti honum hvolpinn. Emil fannst einsog hann hefði aldrei snert nokkuð eins mjúkt. Hann hélt honum uppað sér. Hvolpurinn leit á hann og sýnilega ánægður með það sem hann sá lygndi hann aftur augunum og hélt áfram að sofa.
(s. 31-32)