Æviágrip
Jón Jóhann Hjartarson er fæddur 20. janúar 1942 á Hellissandi. Hann útskrifaðist sem kennari frá Kennaraskóla Íslands 1965 og lauk leikaraprófi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur 1968. Jón var jafnframt við framhaldsnám í Berlín 1984. Hann var um margra ára skeið fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur og hefur leikið aragrúa hlutverka. Jón hefur einnig leikið með ýmsum leikhópum, s.s. Grímu, Litla leikfélaginu, Litla leikhúsinu, Öðru fólki o.fl. Hann hefur ennfremur leikið í kvikmyndum sem og fjölmörgum sjónvarps- og útvarpsverkum.
Jón hefur samið fjölda leikrita bæði fyrir börn og fullorðna, auk barna- og unglingabóka. Fyrsta leikrit hans, Afmælisboðið, er frá 1969. Hann samdi leikgerð upp úr skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur, Mávahlátri, sem sett var upp hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1998. Hann hefur bæði leikstýrt verkum sínum og annarra hjá atvinnuleikhúsum og áhugaleikhópum. Hann hefur einnig samið ýmis konar dagskrár fyrir félagasamtök og stofnanir sem og aragrúa skemmtiþátta, rabbþátta, söngtexta og pistla.
Um höfund
Um verk Jóns Hjartarsonar
Það er skemmtileg tilbreyting að lesa íslenskar barnabækur sem deila á samfélagið en láta boðskapinn þó ekki draga sig niður, heldur eru fullar af lífsgleði og glettni þrátt fyrir alvarlegan boðskap. Einmitt svoleiðis eru bækur Jóns Hjartarsonar, kennara og leikara, en hann hefur hingað til sent frá sér þrjár barnabækur sem eiga það allar sameiginlegt að fjalla á einhvern hátt um alvarleg málefni. Jóni tekst í öllum tilvikum að gera þeim málefnum sem hann fjallar um góð skil án þess að frásögnin verði þung og alvöruþrungin eða vandamálaleg.
Auk barnabókanna hefur Jón sent frá sér fjöldann allan af leikgerðum sem reyndar hafa fæstar birst á prenti. Ein af fáum leikgerðum Jóns sem komið hafa út fyrir almenning er gerð eftir bókinni Mávahlátur og kom út 1998. Jón hefur einnig samið barnaleikrit sem hafa verið leikin á gæsluvöllum og leikrit fyrir fullorðna, þar á meðal leikritið Skornir skammtar (1981) ásamt Þórarni Eldjárn.
Nýjasta bók Jóns er ævisagan Sú dimma raust (2001) en hún fjallar um óperusöngvarann, leikarann og hrossabóndan Jón Sigurbjörnsson, líf hans og listiðkun. Ævi Jóns er áhugaverð enda lifir hann á tímum mikilla nýjunga og breytinga. Frásögnin fer fram í samtölum milli þeirra nafna og er hún á köflum brotakennd þó ekki geti það talist til lýta. Stíllinn gerir það fremur að verkum að lesandanum finnst hann vera staddur í eldhúsinu á Helgastöðum ásamt Jónunum tveimur og heyri samtalið þegar það á sér stað.
Snoðhausar (1993) er fyrsta bók Jóns og fjallar hún um hóp krakka sem eru öll nýflutt í hverfi sem kallað er „nýja hverfið“, til aðgreiningar frá „gamla hverfinu“. Sumir krakkanna hafa verið þar í nokkra mánuði, aðrir í nokkra daga. Krakkarnir eiga það öll sameiginlegt að foreldrar þeirra eru að byggja og segir bókin frá upplifun barnanna á þessum byggingarframkvæmdum foreldra sinna, sem lífið gengur að miklu leyti út á. Auk þess er sagt frá hversdagslegum atburðum svo sem afmælisveislum og prakkarastrikum, og lífi krakkanna almennt þetta sumar sem sagan spannar.
Ekkert eitt barnanna er aðalpersóna heldur segir sagan frá nokkrum af strákunum í hverfinu og byrjar frásögnin hjá Týra, eða Angantý, sem er að láta pabba sinn snoða sig eftir að hafa séð Kaftein Krók snoðaðan í bíó. Frásögnin flyst svo yfir til Elfars sem á afmæli, Simba Jóns og Óla bróður Týra. Elfar, Simbi Jón og Óli eru allir vinir og stundum fær Týri að vera með þó hann sé minni en hinir.
Bókin er innan við 100 síður en þrátt fyrir það ná krakkarnir að gera ýmislegt fyndið og skemmtilegt en flekaferð ömmu Pálínu stendur þar sérstaklega upp úr. Strákarnir byggja fleka til að sigla á í stærðarinnar drullupolli sem myndast hefur í skurði og fá Pálínu ömmu til að koma í fyrstu siglinguna. Siglingin endar vægast sagt með ósköpum og amman endar á kafi í drulluvatninu. Fleiri slíkar sögur eru af uppátækjum drengjanna og annað dæmi er eftirfarandi samtal sem á sér stað á leiði í Fossvogskirkjugarði og eru það Simbi Jón og Elfar sem tala saman:
„-Hvað borða þeir sem eiga heima hérna?
-Ekkert. Það eru ormar sem borða þá.
-Noj.
-Víst. Ormarnir breyta fólki í mold.
-Þú veist þetta ekkert.
-Jú, sko líkaminn er ekki málið þegar fólk er dautt heldur sálin.
-Hvað er sálin?
-Sálin? Það er önd.
-Áttu við svona fugl?
-Jebb.
-Eins og á Tjörninni?
-Nei, auðvitað ekki þannig. Sálin er meira eins og hnoðri held ég.“(Snoðhausar bls. 34)
Eins og sjá má er stíll bókarinnar einfaldur og hentar vel ungum lesendum, og léttleiki og húmor eru í fyrirrúmi.
Angantýr er án efa fyndnasta persóna bókarinnar, þrátt fyrir að vera bara sex ára og ekki ennþá byrjaður í skóla. Í mörgum tilvikum er það hann sem á upptökin að því sem gerist hjá börnunum, eins og þegar hann kemur í öngum sínum og tilkynnir að Gústi vinur sinn sé að drukkna í drullupolli og hálft hverfið rýkur til til að bjarga þessum óheppna dreng, sem reynist svo vera ímyndaður vinur Týra. Sjálfur fellur Týri í yfirlið af hugaræsing eftir að hafa tilkynnt um óhappið og getur þess vegna ekkert sagt um þetta mál meir.
Þrátt fyrir fyndnina og uppátæki barnanna fara þau ekki varhuga af alvarlegri hliðum lífsins. Foreldrar Döllu, vinkonu strákanna, skilja og til stendur að Dalla flytji úr hverfinu með mömmu sinni. Elfar kemst að þessu þegar hann felur sig í geymslunni hjá foreldrum Döllu og heyrir mömmu hennar skammast út af pabbanum. Þetta vekur með Elfari ótta um að hans eigin foreldrar muni skilja og þrátt fyrir að móðir hans reyni að sannfæra hann um að það sé ekkert á döfinni er hann ekki í rónni. Elfar skilur það á tali móður Döllu að ástæður skilnaðarins séu fjárhagslegar og tengist eilífum áhyggjum sem foreldrarnir hafa af peningum, húsbyggingum og því að eiga ekkert sjálf í húsinu sem þau byggja. Þetta eru einmitt áhyggjur sem Elfar veit að foreldrar hans hafa líka og orsakar þetta miklar vangaveltur.
Nornin hlær (1997) fjallar um krakka sem eru á svipuðum aldri og strákarnir í Snoðhausum en aðalpersónurnar hér eru vinkonurnar Gunnur og Sara. Þær stöllur gera allt saman og kvöld eitt taka þær þátt í feluleik í hverfinu sem endar næstum því með ósköpum. Þær taka upp á því að fela sig í klettaskoru í fjörunni en vara sig ekki á því að það er fjara þegar þær klifra upp í skoruna. Minnstu munar að þær festist og hættan sem þær eru í er mikil. Á síðustu stundu kemur stórundarleg kona þeim til bjargar, Albína, sem er nornin í hverfinu.
Bæði börn og fullorðnir hræðast Albínu og börnunum er bannað að tala við hana eða koma nálægt húsinu hennar. Börnunum finnst það reyndar allt í lagi því sögurnar sem fara af henni í hverfinu eru allsvakalegar og enginn þorir að koma nálægt henni hvort sem er. Sara og Gunnur eru mjög meðvitaðar um þetta þegar Albína býður þeim heim til sín en forvitnin og ímyndunaraflið, sem vinkonurnar hafa í ríkum mæli, taka yfirhöndina og þær láta til leiðast.
Albína reynist vera stórskemmtileg, að vísu undarleg og dyntótt, en stelpurnar hafa sjaldan skemmt sér jafn vel og þessa stund sem þær eiga með Albínu í skrýtna húsinu, sem minnir einna helst á hús Línu Langsokks í bókum Astrid Lindgren. Hjá Albínu fær ímyndunaraflið að leika lausum hala, tíminn er ekki til og hægt er að ferðast bæði í tíma og rúmi heima í stofu. Albína spinnur svakalegar sögur í kringum þá undarlegu hluti sem hún hefur sankað að sér í gegnum tíðina og stelpurnar tvær skemmta sér konunglega. Þær eru að vísu ennþá svolítið smeykar við Albínu því það er deginum ljósara enn sem áður að hún er norn.
Ævintýri stelpnanna fær þó skjótan endi þegar lögreglan bankar uppá til að grennslast fyrir um þær því bæði lögregla og björgunarsveitir eru að leita að þeim þar sem þær skiluðu sér ekki eftir feluleikinn og einhver sá þær fara ofan í fjöru. Albína felur þær í kjallaranum og þykist ekkert vita um þær en ímyndunarafl stelpnanna tekur völdin og þær fara að upplifa sig eins og Hans og Grétu í ævintýrinu. Þar sem Albína er einmitt norn og lokar þær niðri í kjallara er líka ekkert eðlilegra. Þegar stelpurnar eru orðnar ansi hræddar hleypir Albína þeim þó út og læðir þeim út um gluggann þegar lögreglan er farin.
Þegar heim er komið og leitinni hefur verið hætt, hrekkur óvart upp úr Gunni hvar þær hafa verið, þó þær hafi ákveðið að segja ekkert. Hér koma fram skýr skilaboð til hins unga lesanda sem eru sett fram á þann hátt að þau draga hvorki hann né frásögnina niður, en skilaboðin eru þau að það á ekki og er eiginlega ekki hægt að ljúga að mömmu sinni. Mamma Gunnar er ekki alls kostar ánægð með ævintýri dótturinnar en í framhaldi af því koma alvarlegri umfjöllunarefni bókarinnar í ljós. Það á að flytja Albínu á elliheimili og Albína vill ekki fara. Húsið sem hún býr í er talið óíbúðarhæft sökum lélegrar einangrunar. Mamma Gunnar reynir að leggja sitt af mörkum til að Albína geti fengið að vera áfram heima hjá sér, en yfirvöldum verður ekki hvikað og hvorki foreldrar Söru né Gunnar vilja taka gömlu konuna að sér.
Úr deilu Albínu, og síðar móður Gunnar, við yfirvöldin má lesa vissa ádeilu á það samfélag sem við búum í í dag þar sem börn og gamalt fólk virðast oft fyrir og til trafala. Foreldrar Gunnar vilja hjálpa Albínu en vilja ekki taka hana að sér yfir veturinn til að forða henni frá elliheimilinu og þar sem Albína á engan annan að verður hún hornreka í samfélaginu sem hefur ekki tíma til að sinna gömlum konum sem búa í húsum sem geta verið hættuleg heilsu þeirra.
Þrátt fyrir tilraunir krakkanna í hverfinu til að hjálpa Albínu við innkaupin og fleira sem yfirvöldin telja hana ekki færa um verður hún á endanum að flytja á dvalarheimilið, og skrítna húsið er rifið. Eftir flutninginn býr Albína í litlu herbergi ásamt annarri konu þó að henni hafi verið lofað einstaklingsherbergi og hér deilir höfundur enn frekar á samfélag og yfirvöld, sem taka ákvarðanir um fólk án tillits til þess sjálfs og geta svo ekki staðið við gefin loforð.
Loforðin sem yfirvöldin gefa Albínu en svíkja síðan kallast á við loforð sem Gunnur og Sara gefa en ætla að svíkja. Þær stöllur ákveða að halda tombólu til að safna peningum fyrir bágstödd börn og ganga í hús og safna dóti. Þær fá fyrir þetta meiri peninga en þær geta talið en þegar öll peningadýrðin liggur fyrir framan þær freistast þær til að eiga peningana sjálfar og kaupa sér ís og nammi. Gunnur segir mömmu sinni frá áætlunum þeirra en móðir hennar tekur í taumana og kennir henni að maður eigi að standa við það sem maður segir, hafi þær lofað að gefa fátækum börnum peningana skuli þær gera það. Svo fer líka að lokum og vinkonurnar læra þessa dýrmætu lexíu, en fá ísinn að launum frá mömmu Gunnar.
Vinkonurnar tvær komast svo að því þegar þær heimsækja Albínu á dvalarheimilið að hún er alls ekki af baki dottin, þrátt allar hrakningarnar. Hún ákveður að hún skuli skemmta sér á dvalarheimilinu og sjá svo til. Samúð lesandans er öll hjá Albínu á þessu stigi sögunnar en þrátt fyrir vandræði hennar fyllist hann síður en svo vonleysi. Þó að hús Albínu sé rifið í sögulok halda Gunnur og Sara áfram þeim leikjum sem Albína kenndi þeim, að láta ímyndunaraflið taka völdin og flytja sig á ótroðnar ævintýraslóðir. Þannig endar sagan á jákvæðan hátt því augljóst er að þó að hægt sé að setja fólk á elliheimili og rífa hús er ekki hægt að beisla hugann, hann fer þangað sem hann vill.
Unglingabók Jóns skilur sig töluvert frá barnabókunum tveimur, enda heimur unglingsins allt annar en heimur barnsins. Ég stjórna ekki leiknum (2000) er mun alvarlegri saga en barnabækurnar tvær og er hún hvorki fyndin né glettin eins og hinar bækurnar. Sagan segir frá Olgeiri, eða Geira, sem býr ásamt móður sinni og systur í Reykjavík. Geiri er í gagnfræðaskóla og samræmdu prófin nálgast óðfluga. Hann hefur þó lítinn áhuga á lærdómi, en eyðir mestöllum tíma sínum í ofbeldisfullum tölvuleikjum.
Á árshátíðarballi í skólanum grípur undarlegt æði Geira þegar hann ætlar að verja frænda sinn fyrir hrekkisvínum, sem reyndar eru vinir hans sjálfs, og hann ræðst á aðalgaurinn og stórslasar hann. Eftir það er hann stimplaður vandræðaunglingur og rekinn úr skólanum rétt fyrir samræmdu prófin. Til að byrja með lokar hann sig af með tölvuleikjunum en að lokum samþykir hann tillögu móður sinnar og stærðfræðikennarans að fara út á land til móðursystur sinnar og taka prófin í skólanum þar.
Fyrir vestan er honum vel tekið, bæði af frænkunni og krökkunum í skólanum en hann verður fljótt var við að ekki er allt sem skyldi í fjölskyldu hans. Frændi hans sem á land fyrir utan bæinn kemur þegar skólakrakkarnir fara í óvissuferð og rekur þau burtu með látum frá helli sem þau ætla að fara í. Geiri fer síðar með frænku sinni og hittir þennan ömmubróður sinn sem er talinn bæði geðveikur og elliær og hann býður Geira sumarvinnu.
Það kemur í ljós að frændinn og Geiri eiga ýmislegt sameiginlegt og örlög þeirra spegla hvor önnur á undarlegan hátt. Frændinn, Finnur, átti bróður sem hvarf og flestir í bænum telja að þeir hafi rænt skip sem var að sökkva fyrir utan bæinn, skotið skipstjórann og að bróðirinn hafi stungið af með peningana. Í ljós kemur að hræðilegur glæpur var framinn í skipinu nóttina sem bróðirinn hvarf og Finnur átti þátt í honum á svipaðan hátt og Geiri á þátt í hræðilegum glæp gagnvart skólafélaga sínum. Báðir fremja þeir glæp sinn til að verja annan og Geiri kemst að því þegar hann finnur gamlar ljósmyndir heima hjá Finni að þeir eru meira að segja frekar líkir.
Ég stjórna ekki leiknum er mjög spennandi saga og eiginlega alveg eins glæpasaga eins og unglingasaga. Bókin er langt frá því að vera hefðbundin unglingabók þar sem lítið er fjallað um ástarmál Geira eða önnur unglingavandamál. Umfjöllunarefni bókarinnar er mun alvarlegra en unglingsást og augljóst er að hún byggir að miklu leyti á umræðunni um tölvuleiki og áhrif þeirra á börn og unglinga. Þegar Geiri ræðst á skólafélaga sinn upplifir hann sig eins og skrímslabílinn sem hann er í tölvuleiknum, hann kemst yfir allar hindranir sem í vegi eru og er viðbúinn öllum brögðum. Lífið verður á þeirri stundu að tölvuleik í augum hans og strákurinn sem hann ræðst á aðeins hindrun til að komast framhjá. Hinir standa máttvana hjá á meðan Geiri gengur berserksgang á vini sínum og má þar, og í mömmu Geira, sjá endurspeglast það magnleysi sem einkennir samfélagið, foreldra, skóla og aðra, í þessum málum.
Sögumaðurinn í bókum Jóns er nokkuð hlutlaus, bækurnar eru allar sagðar í þriðju persónu og sögumaðurinn alvitur, hann fylgir reyndar oftast aðalpersónunni en getur flakkað á milli persóna ef honum sýnist. Hið sama gildir um barnabækurnar og unglingabókina, sögumaðurinn dæmir ekki persónur sínar og gerir ekki grín af þeim. Fyndnin í barnabókunum er ekki á kostnað sögupersónanna heldur felst meira í skemmtilegum eða óheppilegum kringumstæðum sem þær lenda í.
Þar sem bækur Jóns eru með öllu lausar við vandamálatal, án þess þó að draga úr vandamálunum, er auðséð að það er hægt að skrifa bækur fyrir börn og unglinga þar sem fjallað er um alvarlegri hliðar lífsins á hátt sem vekur áhuga lesandans og hvetur hann til að lesa áfram. Í bókum Jóns er boðskapur eins og í flestum barnabókum en hann er ekki settur fram á hátt sem gerir lítið úr lesandanum eða sögunni sjálfri. Það er greinilegt að það er vel hægt að skrifa barnabækur með boðskap, án þess að vera leiðinlegur.
© María Bjarkadóttir, 2003
Greinar
Almenn umfjöllun
„Samtíðarskáld“
Börn og menning 2001, 16. árg., 2. tbl. bls. 24-5.
Troðningar
Lesa meiraAllskonar sögur fyrir börn og fullorðna
Lesa meiraÓrói
Lesa meiraÍ gylltum ramma. Saga Sigríðar Þorvaldsdóttur leikkonu
Lesa meira„Leikhús í kreppu“
Lesa meira„Brokkgeng saga leikhúsmála“
Lesa meiraFróðárundrin
Lesa meiraVerndarenglar
Lesa meiraSú dimma raust: Leikarinn, óperusöngvarinn og hrossabóndinn Jón Sigurbjörnsson
Lesa meira