Um bókina
Þessi ljóðabók er sprottin úr harkalegu þroskaskeiði ungdómsáranna, ástarsorg og svo endurreisn, sem reis meðal annars á bylgju næsta ofsafenginnar náttúruástar.
Úr bókinni
i
Skuggi minn geymir nú
sársauka liðinna tíma
kvölin ei lengur í
launfylgsnum hugans
þó rís á sorgbitnu bjargi
hús hamingju minnar.
ii
Ég var kysst í morgun
og elskuð í nótt.
Mér líður eins og hafmey
sem býr í þykku ástarvatni
með ívafi morgunsársins.
vi
Herðubreið ertu enn
í skýjamöttli
um herðar þér
bærast ljósþokur
öldruð og vís
hol innan
og guðirnir búa á tindinum
jötnar við ræturnar
líkt og stjórnir þú
örlögum vatns og vinda
elds og ísa
sá er klífur andlit þitt
með tóg og meitli
svo smálegt korn
úr ryki alheims.