Um bókina
Eitt haustið ákvað ég að fara ein suður á bóginn. Ég dvaldi í Mexíkó 1993-1994 og fór víða um landið. Af því að ég var að miklu leyti ein á ferð komst ég að einhverju marki inn í daglegan veruleika í landinu. Ég þvældist oft um með heimafólki, bæði bláfátæku og sterkefnuðu og allt þar á milli, kynntist jafnt götulistum sem hámenningu, örbirgð og allsnægtum, sorgum og gleði.
Ég skrifaði dagbók um það sem á dagana dreif. Minningarnar eru sterkar og ljóslifandi fyrir mér. Enn finn ég ilminn og hitann, heyri tónlistina og kliðmjúkt tungumálið og man kærleika og örlæti fólksins í þessu hrjáða en ægifagra landi.
Úr bókinni
Í tíbránni
Gamla indíánakonan
stendur við steinvaskinn
frá sólarupprás.
Blaut í fæturna,
þvottalúnar hendur,
gegnum gamalt skinn
rifar í gljáandi augun,
þau skotrast í átt til
bjórflöskunnar á vaskbrúninni.
Sólin strýkur gráar hærurnar.
Hún réttir úr stirðu bakinu – skimar,
óhrein föt í haugum,
fer upp snúinn járnstiga á þakið,
snúrustaurar eins og dauðvona skógur.
Borgin andar þungt í breyskjunni,
dómkirkjuturnar leysast upp í tíbrá
og sólin þurrkar blaut klæðin
sem bærast í golunni.
Nú er hún hætt að koma.
Við höldum að hún sé dáin.
Ung mexíkönsk kona með þreytt augu
er byrjuð að lifa við steinvaskinn okkar.
Frjáls
Ertu alein hér?
spyr konan mig undrandi
og skenkir meira jólate
ilmandi af kanel og eplum
í marglitar leirkrúsir.
Leyfði pabbi þinn þér að fara?
Máttu bara gera eins og þér sýnist?
Gæti ég kannski gert eins?
Þarf ég ekki að hlýða pabba
eða manninum mínum?
Get ég hugsanlega líka
– farið?
Gert það sem ég vil?
Verið frjáls?
Svona lá eftir mig slóðin hvert sem ég fór
og yfirleitt buðu karlmennirnir mig ekki velkomna aftur.
Elsa
Hún sagði að líf þjóðarinnar væri lengi búið að vera erfitt.
Fólkið, sem elskaði ástina, friðinn og fjölskylduna,
yrði stöðugt fyrir barðinu á gráðugum embættismönnum
sem seldu hæstbjóðanda sál sína og þjóðina með.
Söngvaskáldin næðu vart tóni lengur,
orð á stangli lífshætta,
engum að treysta,
fólk að hverfa.
Við grétum saman því mitt fólk hafði líka lifað
aldalangt harðræði við ysta haf.
Samt alltaf von.
Ekki síst í honum sem bara mátti hvísla nafnið á
og beið færis sunnan landamæra.
En skriðdrekarnir voru mættir þegar hann leiddi bændurna
inn stræti San Christobal með heykvíslar að vopni.
Ég hef ekki heyrt frá Elsu síðan
og var sagt af þarlendum yfirvöldum
að hún hljóti að vera hugarburður.
Enga konu með þessu nafni
sé nokkurs staðar að finna.