Um bókina
Ég var um nokkurt skeið landvörður á Þingvöllum og naut þeirra forréttinda að kynnast náttúrufari og sögu svæðisins vel og umgangangast heimafólk, sem allt var hið yndislegasta. Á þessum tíma bjó ég, stundum ein en oftar ásamt fleiri landvörðum þjóðgarðsins, í húsi ofan við Hrafnagjá handan sigdældarinnar heimsþekktu. Húsið nefndist Gjábakki og var teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Það var sannarlega hús með sál en nú er það brunnið. Í frístundum mínum skrifaði ég handritið að Húsi á heiðinni við eldhúsborðið í Gjábakka og vann það svo í kjölfarið til hlítar vetrarlangt í Þýskalandi.
Í bókinni eru dregnar upp margvíslegar myndir af lífi bæði manna, dýra og náttúrufyrirbæra á Þingvöllum. Ljóðin lýsa náttúruferlinu; vetur, vor, sumar, haust. Sagan er á margan hátt einnig tengd náttúrunni í ljóðunum.
Úr bókinni
Vorið
Árla morguns;
kyrrðin svo tær,
ljósbrot í snjóperlum,
grös að vakna,
þröstur á grein
og álftir í oddaflugi
með sunnanátt
undir vængjum.
Veröldin umhverfis
að bráðna saman
í nýtt upphaf.
Auðmjúkir
bíða farfuglarnir
á þröskuldi tímans.
Samspil
Fiðlan
er vatnið.
Boginn
fuglarnir.
Tónninn
söngurinn.
Verkið
náttúran sjálf.
Mosi
Mjúkur ertu mosi
og gamalgróinn.
Manstu hófaskelli
og þjark á þingi?
Smaladrengi,
þreytta bændur
blunda við þig?
Þúsund vor
og þúsund vetur
mjúki mosi.
Veiðimaður
Á vatnsbakkanum
maður með veiðistöng
og reynir af alefli
að fanga friðsældina.