Það varð að segjast að litlu, syfjuðu Reykjavík veitti ekki af smávegis innblæstri og upptakti til að lifna aðeins við og fá fólk út á göturnar þetta haustið. Vinirnir töluðu um hversu hressandi það væri í rauninni, og hreinlega frelsandi, að heyra önnur tungumál og sjá fleiri hörundsliti. Öryggiskröfurnar væru þó algjörlega bilaðar og skrítið og jafnvel ógnvekjandi að sjá allan þann öryggisviðbúnað sem smám saman var að taka á sig mynd í Borgartúninu og alls staðar þar sem Reagan og Gorbatsjev myndu fara um komandi helgi. Um stund hefði mátt halda að Reykjavík væri á pari við gamalgrónar evrópskar heimsborgir.