Um ferð undir fjögur augu:
Ljóðræn skáldsaga um ungan mann, sem fer á skemmtistaði og eltir stelpur með misjöfnum árangri. Þess á milli hlýðir hann á orð sér eldri manns, sem heitir Óspakur en gengur jafnan undir nafninu Spakur.
Úr Ferð undir fjögur augu:
Ég tvísté fyrir utan húsið. Klukkan var fimm, svo Spakur var að öllum líkindum kominn heim. Hann hafði sagt mér, að hann væri yfirleitt heima síðdegis. Mér datt sem snöggvast í hug að hverfa frá, en lét það ekki eftir mér og barði að dyrum. Gamall viðurinn í hurðinni dró svo úr hljóðinu, að ég barði aftur til frekara öryggis. En húsið var hljótt hið innra, ekkert minnsta hljóð. Um stund stóð ég og hlustaði, áður en ég sneri frá og hélt niður eftir götunni.
Fyrsti maður, sem ég mætti, var að sjálfsöðgu Spakur.
“Sælir Spons”, sagði hann hressilega og ég tók undir kveðjuna. “Ætlaðirðu ekki að líta við hjá mér?”
Ég kvaðst hafa látið mér detta það í hug og spurði svo, hvort hann ætti húsið sjálfur. Hann hló.
“Hvernig dettur þér í hug, að ég safni jarðneskum auðæfum, Spons? Þá held ég, að ég væri langt leiddur. Ég kæri mig ekki um að verða einskonar dekurbarn eigna minna.”
Við gengum inn í húsið og Spakur vísaði mér til stofu, sem var lítil og sýndist ennþá minni, sökum aragrúa af alls kyns dóti. Mér varð starsýnt á gamla Borgundarhólmsklukku, sem stóð í einu horninu. Hún var óvenju tignarleg og virtist vaka yfir öllu þarna inni.
“Erfðagóss”, útskýrði Spakur, þegar hann sá, hvert athygli mín beindist, og hann benti mér að setjast. “Þú vilt te”, bætti hann við og hvarf fram í eldhúsið, án þess að bíða svars.
(s. 52)