Beint í efni

Góða nótt, Silja

Góða nótt, Silja
Höfundur
Sigurjón Magnússon
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
1997
Flokkur
Skáldsögur

Úr Góða nótt, Silja:

“Af hverju talaðirðu svona við hann?”
“Vertu fegin að ég fylgdist með ykkur. Og farðu að mínum ráðum. Láttu þennan mann eiga sig.”
“Nei, þú veist ekki neitt... Þetta var ekki honum að kenna. Það var ég sem gætti mín ekki. Það var ég sem sagði hluti sem ég átti ekki að segja...”
“Nei, hlustaðu nú á mig...”
En Silja er rokin af stað. Hún sér Harald hverfa í troðninginn frammi við dyrnar, hann er síðan á leiðinni út þegar hún kemur þangað – honum bregður fyrir í dyrunum, og hún eltir. Biðröðin á gangstéttinni er þunnskipuð. Hún sér í hálfrökkrinu hvar hann skýst fyrir húshornið og afræður undir eins að fara á eftir honum. Hún iðrast þess sárlega að hafa ekki gætt orða sinna betur; sumt er svo varasamt að nefna og það var rangt af henni að spyrja svona umbúðalaust hvort hann hefði verið “heima” – en hún gerði það og nú finnst henni að hún verði að útskýra betur hvað hún meinti með orðum sínum. Þegar hún gengur inn í þetta skuggalega húsasund setur að henni hálfgerðan óhug, en hún hristir það af sér. Ef hún á að geta rætt við hann í hreinskilni þá þolir það enga bið. Kannski er þetta eina tækifærið til þess. Hún veit ekki hvert hann leiðir hana, hún hefur aldrei komið hingað fyrr, en sundið er langt og þröngt og hrópin og hlátrarnir frá götunni hljóðna að baki henni. Hvergi er ljósglætu að sjá, himinninn yfir er niðadimmur. Eftir stuttan spöl opnast þó sundið og hún er stödd í stóru og sóðalegu ruslaporti. Og þar stendur hann. Hann húkir upp við húsvegginn öðru megin og lítur til hennar eins og hann hafi verið að bíða þess að nákvæmlega þetta gerðist – að hún kæmi.
“Jæja, Silja.” Hann ávarpar hana lágum, þreytulegum rómi.
“Æ, Haraldur,” segir hún biðjandi, “ef þú bara vissir hvað mér þykir þetta leiðinlegt. Ég skil ekki hvað kom yfir mig þarna inni. Ég veit að þér mislíkaði það hvernig ég talaði. Þú getur vonandi fyrirgefið mér...”
Þegar hann svarar henni ekki gengur hún alveg til hans og leggur handleggina blíðlega um hálsinn á honum. Hún býst allt eins við því að hann taki þessu illa og stjaki henni frá sér.

(49-50)

Fleira eftir sama höfund

Borgir og eyðimerkur: Skáldsaga um Kristmann Guðmundsson

Lesa meira

Hér hlustar aldrei neinn

Lesa meira

Endimörk heimsins: frásögn hugsjónamanns

Lesa meira

Gaddavír

Lesa meira

God natt, Silja

Lesa meira

Dauðavegir

Lesa meira

Morðingi um borð

Lesa meira

Sonnettan

Lesa meira

Útlagar

Lesa meira