Um bókina
Hin 14 ára Marsí skrifast á við strák sem býr hinum megin á landinu. En hún gerir það í nafni systur sinnar. Bréfaskiptunum lýkur með því að þau ákveða að hittast. Marsí kemst ekki til að hitta hann en þar sem þau höfðu mælt sér mót finnst blóðug úlpa systur hennar sem er horfin. Tíu árum síðar hefur þessi óþekkti pennavinur samband á ný.
Úr bókinni
Á eldhúsborðinu lá dagblað með mynd af Stínu upp í horninu á forsíðunni, líkt og það hefði verið skilið eftir fyrir mig. Ég settist niður með brauðið og kaffið og opnaði blaðið.
Greinin um Stínu tók heila síðu og þar var mynd af okkur fjölskyldunni sitjandi í sófanum í stofunni. Mamma með ljósa hárið sitt liðað, pabbi í dökkri skyrtu og ég við hlið hans nær óþekkjanleg. Mamma hafði dressað mig upp og greitt mér fyrir heimsókn blaðamannsins svo ég var með tvær fléttur, í rúllukragabol og skokk, og minnti helst á ofvaxna smástelpu.
Flestir kannast við nafn Kristínar Karvelsdóttur sem hvarf er hún gekk heim frá vinkonu sinni að kvöldi föstudagsins 17. nóvember 1967, en blóðug úlpa Kristínar fannst við brúna yfir Hvítá aðfararnótt laugardags. Mál Kristínar er meðal þeirra sakamála sem efst hafa verið á baugi undanfarin ár, ásamt hvarfi Guðmundar og Geirfinns árið 1974.
Foreldrar Kristínar eru þau Karvel Kristjánsson og Jónína Helga Sveinsdóttir. Þau hjónin eiga og reka eggjabúið Fjarðaregg og fuglasláturhús við Hvítársíðu í Borgarfirði. Kristín var aðeins sextán ára þegar hún hvarf og stefndi á myndlistarnám erlendis, en hún þótti efnileg myndlistarkona. Kristín hafði verið í heimsókn hjá vinkonu þegar hún ákvað að ganga heim, um tveggja og hálfs kílómetra leið. Hún lagði af stað klukkan tíu um kvöldið, en þegar hún var ekki komin heim um miðnætti fóru foreldrar hennar að hafa áhyggjur. Lögregla og hópur sjálfboðaliða tók þátt í leitinni að Kristínu og fljótlega fannst úlpan hennar við veginn skammt frá heimili hennar. Á úlpunni fannst blóð sem að öllum líkindum er úr Kristínu, og því var ljóst að einhver átök höfðu átt sér stað. Tíu árum síðar hefur enn ekkert spurst til Kristínar Karvelsdóttur.
Í greininni var því lýst á dramatískan hátt hvernig litla samfélagið lamaðist á meðan leitin hélt áfram næstu daga og vikur án þess að bera árangur.
Ég mundi í rauninni lítið eftir þessum tíma, þó að morgunninn væri mér enn í fersku minni. Rödd pabba sem vakti mig þar sem hann sat við rúmið mitt. "Píslin mín, hvernig líður þér?"
Höfuðið á mér var þungt og mér var flökurt þegar ég reisti mig við, en ég fann samstundis að eitthvað var að. Pabbi var ekki vanur að sitja á rúmstokknum hjá mér á morgnana og hann var enn klæddur í sömu föt og kvöldið áður.
(s. 35-36)