Úr Hér hlustar aldrei neinn:
Það sem drengurinn skelfist mest af öllu gerist núna frammi í stofu. Þau rífast af heift. Amma hans hækkar sífellt röddina og brátt heyrir hann líka í afa sem annars talar alltaf svo lágt. “Það er ótrúlegt að heyra til þín, Sæunn!” heyrir hann afa hrópa skjálfandi rómi. “Já, ég segi það aftur! Þér er hreinlega ekki sjálfrátt!”
“Það veit ég vel að þú heldur!” æpir hún á móti.
“Hvað á svona tal að þýða? Hvernig gastu sagt þetta við drenginn?”
“Ég segi bara það sem mér sýnist.”
“Karlfauskar! Þú leyfir þér að kalla hann ónefnum – eins og hann heyri ekki nóg af slíku annars staðar.”
“Auðvitað heyrir hann það. Það sjá nú líka allir hvernig hann er. Nema þú!”
“Nei, ég skil þig ekki,” segir afi og Benni heyrir að hann æðir um gólfið.
“Það hefurðu heldur aldrei gert. Þú skilur hann, það gerirðu! En þú skilur ekki konuna þína!”
“Hættu nú!” hrópar afi þreytulega. “Ég get ekki hlustað á þetta!”
Og Benni tekur undir í hálfum hljóðum: “Já, góða amma, hættu nú! Láttu hann afa í friði!”
Hann veit alveg að afi hans þolir ekki þennan æsing – hann er orðinn allt of bágur til heilsunnar. Og svo veit hann líka að þetta er beinlínis rangt. Afi hefur margoft brýnt fyrir honum að sýna ávallt stillingu, aldrei sé til góðs að missa stjórn á skapi sínu því við það versni bara allt, og það reynir Benni jafnan að hafa hugfast og láta ekki mótlætið, hvorki í skólanum né hérna heima, spilla fyrir sér. Hins vegar gleymir afi stundum að fara eftir þessu sjálfur og af því hefur Benni verulegar áhyggjur. “Já, þú skalt líka hætta afi,” hvíslar hann. “Þú verður að hætta!” Hann situr á rúmstokknum með hendur í skauti og þennan dynjandi hjartslátt sem harðnar síðan enn meir þegar honum verður hugsað til þess sem hann leynir bæði afa sinn og ömmu. Honum vannst ekki tími til að leysa frá skjóðunni við matarborðið þótt hann hefði verið byrjaður á því, og nú harmar hann að hafa ekki gert það fyrr.
(s. 62-63)