Beint í efni

Bjarni Bjarnason

Æviágrip

Bjarni Bjarnason fæddist í Reykjavík þann 9. nóvember 1965. Hann bjó víða erlendis í æsku en hefur birt ljóð í blöðum og tímaritum á Íslandi frá unglingsaldri. Bjarni skrifaði leikrit um tvítugt sem flutt var af áhugaleikhópi. Í upphafi ársins 1989 kom út fyrsta bók Bjarna, ljóðabókin Upphafið, og síðar sama ár birtist á prenti bókin Ótal kraftaverk sem inniheldur prósaljóð. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri ljóðabækur, smásögur og skáldsögur auk þess sem hann hefur skrifað safn einþáttunga sem ber nafnið Dagurinn í dag.

Önnur skáldsaga Bjarna, Endurkoma Maríu, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1996 og tveimur árum síðar hlaut hann Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir skáldsöguna Borgin bak við orðin. Hann hefur hlotið verðlaun í smásagnakeppni Ríkisútvarpsins og skáldsaga hans, Mannætukonan og maður hennar vann til Bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness árið 2001. Bjarni var frumkvöðull að stofnun bókmenntatímaritsins Andblæs sem kom fyrst út 1994, en það hefur að geyma efni eftir unga höfunda.