Æviágrip
Þórdís Björnsdóttir fæddist í Reykjavík þann 7. ágúst 1978. Hún lauk stúdensprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1999 og B.A.-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2005. Hún stundar nú meistaranám í sömu grein við sama skóla. Þórdís var skiptinemi í Montpellier í Frakklandi skólaárið 2005-2006.
Þórdís gaf sjálf út sína fyrstu ljóðabók, Ást og appelsínur, haustið 2004 sem vakti athygli. Fyrir jólin sama ár var verkið sett á svið á Akureyri í leikstjórn Arnar Inga Gíslasonar. Þar flutti Þórdís ljóðabálkinn í heild á sviðinu, en um leikræna tjáningu sáu fimleikastúlkur, leikarar, tónlistarfólk og dansarar. Sýningar voru alls þrjár.
Árið 2005 var upptaka gerð á tónverki sem fiðluleikarinn og tónskáldið Szymon Kuran samdi við Ást og appelsínur, en þar les Þórdís valin ljóð yfir tónlistina. Upptökum lauk rétt áður en Szymon dó í ágúst sama ár og er þetta hans síðasta verk. Diskurinn verður gefinn út árið 2007.
Þórdís hefur skrifað tvær bækur í samstarfi við bandaríska skáldið Jesse Ball sem báðar komu út hjá Nýhil 2006. Önnur heitir Og svo kom nóttin og inniheldur ljóð eftir Þórdísi en myndir eftir Jesse Ball. Hin er á ensku og heitir Vera & Linus en hún kom bæði út á Íslandi og í Bandaríkjunum.
Skáldskapur eftir Þórdísi hefur einnig birst í blöðum og tímaritum, m.a. í Lesbók Morgunblaðsins, The Reykjavík Grapevine, Tímariti Máls og menningar og Skímu, en hún var „Skímuskáldið“ í janúarhefti ritsins 2005. Hún hefur tekið þátt í fjölda upplestra hérlendis, á Nótt hinna löngu ljóða á Nasa á Menningarnótt 2004, á Ljóðahátíð Nýhils í Klink og Bank í júlí 2005, á menningarhátíðinni Vestanvindum á Ísafirði 2005 og á Nýhilkvöldi í Stúdentakjallaranum í nóvember 2006, svo fátt eitt sé talið. Þórdís hefur einnig tvívegis komið fram í New York, á Happy Ending Reading Series í júní 2006 og Casa Readings á The Cup-cake Café í júlí 2006. Hún tók þátt í norrænni rithöfundasmiðju á Biskops Arnö í Svíþjóð 2005.
Þórdís er búsett í Reykjavík og á eina dóttur.
Frá höfundi
Frá Þórdísi Björnsdóttur
Ég hef skrifað sögur og ljóð frá því ég var krakki, og á þeim tíma þótti mér sjálfsagðasta mál að taka fram blýant og blað og skrifa. Þetta var bara eðlilegur hluti af tilverunni og ég velti því lítið fyrir mér. Fljótlega fór þó að heyrast spurningin: „Hvað ætlarðu að verða þegar þú ert orðin stór?“ og lengi var fátt um svör. Skáld eða rithöfundur hvarflaði ekki að mér því mér fannst að draumastarfið hlyti að eiga að tengjast fjarlægri framtíð þegar ég væri orðin fullorðin, en ekki því sem ég var að fást við nú þegar á barnsaldri. Á endanum kom ég þó með svör sem breyttust á milli mánaða í minningarbókum bekkjarsystra minna; málari, vefari, grafískur hönnuður eða teiknimyndahöfundur. En þegar ég var orðin unglingur sá ég loks í gegnum alla vitleysuna og áttaði mig á að það sem skipti mig mestu máli í lífinu væri að skrifa, hvert svo sem það myndi síðan leiða mig.
Nýlega hitti ég unga konu sem sagðist lengi hafa látið sig dreyma um að verða rithöfundur. „Já er það. Skrifarðu sem sagt?“ spurði ég eftirvæntingarfull því þetta kom mér á óvart. „Nei“, sagði hún þá. „Ég hætti við þegar ég áttaði mig á því að ég hef engar sögur að segja.“ Það sökk alveg í mér hjartað við þetta dapurlega svar; hvernig er hægt að vera lifandi, og hafa lifað lífinu í fjölmörg ár án þess að hafa neinar sögur að segja?
Amma mín hafði unun af því að rifja upp fortíðina. Hún sagði mér reyndar takmarkað frá lífi sínu meðan ég var krakki, og þá spiluðum við helst marías útí eitt. En þegar ég eltist tók hún að rifja upp hitt og þetta yfir kaffibollanum í eldhúsinu. Maður þurfti reyndar að kunna á henni lagið; hún byrjaði alltaf á að spyrja mig hæversklega hvernig gengi í skólanum og hvort ég ætti einhverja vini. En þegar ég hafði gefið henni nokkra mynd af mínu daglega lífi, læddi ég að henni einni eða tveimur spurningum um fortíðina, og þá lifnaði yfirleitt yfir henni. Hún bætti sykurmola útí kaffið með ánægjuglampa í augunum og byrjaði síðan að segja frá.
Eftir að ég hitti konuna sem langaði að verða rithöfundur, hef ég velt því fyrir mér hvort ungt fólk í dag muni almennt hafa færri sögur að segja í ellinni, þar sem líf meirihlutans mun hugsanlega hafa gengið tiltölulega áreynslulaust fyrir sig með öllum helstu nútímaþægindum. Eða hvort sögunar verði jafnmargar, en fátæklegri og ópersónulegri þar sem gamlir sjónvarpsþættir og úreltir viðburðir skemmtanalífs verða í aðalhlutverki. Ég vona ekki.
Samt vil ég ekki vera með neina bölsýni eða predika um ágæti þess að þurfa að hafa fyrir lífinu, því til að segja góða sögu skiptir auðvitað mestu máli að kunna að nota ímyndunaraflið, geta aftengt sig svolítið raunveruleikanum og skapað nýjan heim sem sagan getur lifað í. En hvað svo sem verður í framtíðinni, þá vonast ég allavega sjálf til að verða gömul kona sem hefur frá ýmsu að segja.
Þórdís Björnsdóttir, í lok árs 2006.
Um höfund
Huggulegur hryllingur: ljóð og prósar Þórdísar Björnsdóttur
Gotneska skáldsagan er iðulega álitin eiga sér skýra bókmenntasögu. Upphaf hennar er rakið til skáldsögu Horace Walpole, The Castle of Otranto (Otranto kastalinn), sem kom út árið 1764. Walpole var undir áhrifum frá kirkjugarðsskáldunum svonefndu (sem eru kenndir við helsta tema ljóða sinna), svo og þeirri gotnesku fagurfræði sem var að ryðja sér til rúms á þessum tíma og einkenndist af vandlega hannaðri hnignun. Þetta birtist meðal annars í hönnun garða, sem áttu að líta út fyrir að vera dálítið villtir og helst átti að finnast í góðum garði eins og ein miðaldaleg húsarúst. Hugmyndaheimurinn var heimur miðalda – tími hinna villtu og barbarísku Gota – séður í afskaplega rómantísku ljósi þessa upphafstíma rómantíkurinnar. Með rósrauðum gleraugum hinna nýju ‘Gota’ birtust miðaldir í ævintýraljóma riddara, hetja og fagurra, en fremur varnarlausra kvenna og því var áherslan einnig lögð á fantasíu og hrollvekju. Sjálfur endurhannaði Walpole setur sitt á Strawberry Hill sem gotneskan kastala. Hann fékk til liðs við sig hóp af öðrum spjátrungum sem líkt og hann sjálfur voru sjálfskipaðir smekk- og gáfumenn og í sameiningu hönnuðu þeir húsið bæði utan sem innan. Þeir sönkuðu að sér allskonar bókum með gotneskum mynstrum sem voru notuð til að skreyta loft og veggi, en vegna fjárskorts voru slíkar skreytingar gerðar úr pappamassa og ódýrum viði en ekki gifsi eins og almennt þykir heppilegra. Þarsem pappamassinn dugði ekki til skreytinga, var gripið til þess ráðs að mála grá og guggin gotnesk steinmynstur á veggfóður sem síðan prýddi veggina. Í hverju herbergi var mikilfenglegur arinn í heiðursstöðu, en þeir voru allir eftirmyndir af gotneskri gröf eða grafhýsi einhvers mikilmennis, sem er að sjálfsögðu ákaflega viðeigandi fyrir hina hrollvekjandi stemningu sem Walpole þótti einkenna hinar gotnesku miðaldir. Það hefur líklega aukið á stemninguna að einungis einn arinn virkaði sem eldstæði, hinir voru bara til skrauts og því má gera ráð fyrir að gotneskur kuldi hafi ríkt á jarðarberjahæð.
Síðan þá hefur gotneskan lifað góðu lífi í menningu og bókmenntum og á sér í dag fjölmargar birtingarmyndir. Þrátt fyrir að iðulega sé miðað við að hápunktur gotnesku skáldsögunnar hafi verið í kringum aldamótin 1800, þá er eitt þekktasta verk hennar, skáldsagan Drakúla eftir Abraham Stoker, frá árinu 1897 og gotnesk einkenni voru ríkjandi í draugasagnaskrifum breskra höfunda frá fyrri hluta aldarinnar, eins og til dæmis í sögum M.R. James. Gotneskan hélt svo áfram að setja mark sitt á breskar hrollvekjur og gerir enn, eins og skrif Peters Ackroyd, Ramsays Campbells og Patricks McGrath eru gott dæmi um. Hinum megin við hafið tók gotneskan sér bólfestu í bandarískum bókmenntum, eins og sögum þeirra Edgar Allans Poe og Nathaniel Hawthorne, sumar sögur Henry James eru greinilega undir gotneskum áhrifum, og svo tóku hrollvekjuhöfundar eins og Stephen King og Anne Rice við kyndlinum.
Og það er þeim megin hafsins sem nýtt andlit gotneskunnar birtist, ásýnd sem kennd hefur verið við ‘krútt’. Í B.A. ritgerð sinni Fallegt ógeð, fjallar Ragna Þorbjörg Úlfarsdóttir um þetta fyrirbæri og ræðir tvo helstu postula þess, kvikmyndagerðarmanninn Tim Burton (f. 1958) og myndasöguhöfundinn og teiknarann Edward Gorey (1925-2000). Einkenni verka þeirra beggja er að þar er blandað saman einhverju sakleysislegu og ‘sætu’, eða krúttlegu, og óhugnanlegu og myrku. Í myndum Burtons birtist þetta til dæmis í litanotkun, en Ragna bendir á að þegar Burton fjallar um dauðann og drauga birtist sá heimur iðulega í skærum litum, en hversdagur okkar lifenda er öllu grárri. Einkenni teikninga Gorey eru sakleysislegar barnslegar persónur, oft hreinlega börn, sem verða fyrir miklum hörmungum. Úr verður sérstök tegund gotnesku, einskonar sakleysislegur óhugnaður, iðulega með kómískum undirtónum, en verk þeirra Burtons og Gorey eru oftar en ekki fyndin á einhvern hátt.
Þessi krúttlega gotneska er nokkuð sterkt einkenni á sögu Þórdísar Björnsdóttur og Jesse Ball, The Disastrous Tale of Vera & Linus (2006), og þegar betur er að gáð má sjá sömu undirtóna í ljóðabókum Þórdísar, Ást og appelsínur (2004), Og svo kom nóttin (2006) og Í felum bakvið gluggatjöldin (2007). Reyndar er titill þeirrar í miðið nokkuð á reiki, en á bókarkápu er engan titil að finna, né á titilsíðu. Það sama má reyndar segja um söguna af Veru og Linusi, en hún er ýmist nefnd Storie S: Schemes, eða einfaldlega Vera &Linus.
Titillinn á Ást og appelsínur er hins vegar á tæru og útgáfa þeirrar bókar fór heldur ekki framhjá neinum sem fylgist með nýjum bókmenntum, því Þórdís gaf bókina sjálf út og var dugleg að kynna hana með dreifimiðum og kynningareintökum. Það útaf fyrir sig vakti athygli, ung skáldkona sem stígur svona fast fram á ritvöllinn er hiklaust allrar eftirtektar verð og ljóðin sviku ekki heldur. Hrollvekjan er undirliggjandi þráður eða þema bókarinnar, ljóðin einkennast af einskonar blóðugri rómantík – eða kannski frekar blóðugri erótík. Dæmi um þetta er í ljóðinu sem birtist aftan á bókinni:
Ég bað þig að bíta mig í hálsinn
svolítið fast
og þú gerðir það
og sagðir að ég smakkaðist vel
væri svolítið á bragðið
eins og blóðappelsína
og ég fann hvernig safinn
lak á milli brjóstanna
meðan nærbuxurnar blotnuðu
og borðdúkurinn litaðist af rauðu.
Hér er kannski ekki sérlega frumleg mynd á ferðinni, en hún nær samt að lifna í samblandi borðhalds og erótíkur.
Ljóðið er einnig gott dæmi um þann holdleika, eða líkamleika sem einkennir mörg ljóðanna, og það er óhætt að segja að þó þau séu misjöfn að gæðum þá tekst Þórdísi að kalla fram heildartilfinningu þessa líkamleika í bókinni. Þetta birtist á ýmsan hátt í áherslu á líffæri og líkama eins og í ljóðinu „Saman“ þarsem ljóðmælandinn kroppar augun úr elskhuga sínum og rúllar þeim „niður á maga / eins og tveim litlum eggjum“. Í næsta ljóði, „Bolti“, langar ljóðmælanda að opna magann á hinum elskaða og fylla hann af dóti:
Ég set í þig tannbursta
túrtappa og teskeið
krumpaða miða
með krassi og kroti
munnhörpu í d-dúr
og perlur úr plasti
pinna og nælur
og greiðu sem glansar
gulllitað armband
og einn lítinn bolta
sem minnir á haus.
Þarsem flest ljóðin fjalla um samskipti ljóðmælanda við elskhuga sinn mætti segja á vissan hátt að hér séu ástarljóð á ferð, enda ber titillinn þess vitni. Þannig lýsa ljóðin ýmiskonar ofbeldi og ástúð sem elskendurnir úthella hvort yfir annað og birtist í ýmsum skemmtilegum og fallegum myndum, eins og ljóðið „Bolti“ er gott dæmi um. Annað eftirminnilegt ljóð er þegar ljóðmælandi fylgist með elskhuganum klæða sig upp sem konu og óskar að hann verði alltaf konan sín og sömuleiðis er mynd úr lokaljóðinu falleg, en þar sameinast hinn líkamlegi hryllingur, þarsem elskendurnir vaða stöðugt inn í líkama hvers annars, og ástúðin – og dauðinn. Ljóðið hefst á því að ljóðmælandi lýsir því hvernig hún talaði oft um að ráðast á elskhugann, en bara í gríni, nema svo hendir hún honum fram af svölunum. Í millistefi lýsir hún því hvernig hann var bestur í heimi og þegar hann var sofnaður synti hún inní hann eins og fiskur, „synti framhjá innyflunum / og alveg uppí heila /og fylgdist þar með öllu / sem þig dreymdi / um okkur tvö / og ýmislegt / sem enginn vissi um“.
Sá heildarsvipur sem næst fram í gegnum þessi minni líkamleika og hryllings er orðinn enn sterkari í næstu bók Þórdísar, Og svo kom nóttin, en sú bók er í raun ljóðabálkur eða ljóðsaga um mannfuglinn í skógi nokkrum. Ljóðmælendur eru tveir, stúlka og piltur, en á stundum virðast þau renna saman við mannfuglinn og því er sjónarhornið stundum dálítið snúið. Þetta dregur nokkuð úr áhrifum ljóðanna. Hinsvegar má segja að hér hafi hin unga skáldkona tekið greinilegum framförum í meðferð myndmáls, en sá skondni og ferski blær sem sýndi sig í Ást og appelsínum er mun sterkari og greinilegt að höfundur er að ná betri tökum á ljóðmáli sínu. Strax í fyrsta ljóðinu er lesandi settur inní sviðið:
1.
Skógurinn fyllist
af verum sem sungu
með gulnuðum röddum
og sveimuðu
eins og heitur blærinn
yfir hvolfinu
sem fyllti mig gleði
svo ég hallaði mér niður
fann mig leysast upp í friði
og renna hægt í burtu
eins og vatn
Ljóðmælendur kallast á og sem fyrr eru hrollvekjandi undirtónar áberandi, þó ekki eins sláandi og áður. Ljóðmælendur eru ýmist uppi í trjánum og á einskonar flugi, eða niðurgrafnir í jörðina og á ferð neðanjarðar. Dæmi um þetta er í erindi 15, en þar situr hinn karlkyns ljóðmælandi að því er virðist uppí tré:
Langar að veiða fugla og menn
Hann kemur sér þægilega fyrir
hulinn grænu eins og laufþykkni
með örvar sínar vígbúinn og bíðurEn nóttin er full
af þéttofnum möskvum
til að veiða vindinn
Hér gæti það reyndar fullt eins verið mannfuglinn sem talar, en af honum stafar nokkurri ógn í ljóðunum. Ljóðlínan „hulinn grænu eins og laufþykkni“ er líka gott dæmi um það hvernig Þórdís leikur sér með myndmál, en eins og áður sagði virðist ljóðmælandi í fyrstu vera uppi í tré, en þegar nánar er að gáð er hann bara hulinn grænu sem er eins og laufþykkni. Hann gæti því allt eins verið ofaní jörðinni, eins og ljóðlínurnar um möskva næturinnar, sem væntanlega vísa í trjágreinar, gefa til kynna. Þannig færist sjónarhornið frá því að vera að ofan yfir í að horft er upp, en þó er ómögulegt að skera úr um hvort er.
Samruni við náttúruna á sér stöðugt stað, og það er ekki laust við að lesandi tengi þann samruna dauða og rotnun, eins og kemur fram í erindi 30, þegar ljóðmælandi kemur auga á þúst í grasinu og sér „að þarna liggur / dáinn maður með andlitið / grafið ofan í moldina.“
Mannfuglinn sjálfur er dularfull vera en hann er aðalviðfangsefni teikninga Jesse Ball sem myndlýsir bókina og gefa myndir hans ljóðunum sterkt yfirbragð hinnar krúttlegu gotnesku. Í erindi 22 hittum við mannfuglinn fyrir í tunglsljósinu:
Tunglið sveipaði allt undarlegri slikju
Mannfuglinn gekk eftir þröngum stígnum
og skildi eftir sig söltuð fótspor
sem máðust smám saman burt
þynntust útí tómið
en augun voru fjarlæg og köld
eins og egg í bláu rými
Hér er myndin öll sveipuð bláu, allt frá tunglskininu til augna fuglsins sem hljóta að vera einhvernvegin hvít-blá, eða blá-hvít, ef marka má lýsinguna „egg í bláu rými“, en þar sé ég fyrir mér hvítt egg sem dregur í sig bláan lit, nægilega mikið til að vera ekki lengur hvítt, en er þó ekki endilega blátt heldur.
Líkt og mannfuglsljóðið er lýsandi dæmi um eru ummerki súrrealismans víða í bókinni sem síðan blandast tærum myndum eins og í erindi 20 þar sem ljóðmælandi yfirgefur fallegt land: „sný aftur inní / niðdimma nóttina / og skelli í lás“.
Einskonar súrrealismi eða kannski frekar absúrdismi í formi hins huggulega hryllings krútt-gothsins er ríkjandi í þriðja verki Þórdísar. Hin átakanlega saga Veru og Linusar er skrifuð á ensku, en bókin er samstarfsverkefni Þórdísar og Jesse Ball, eiginmanns hennar, en hann er bandarískur rithöfundur. Þrátt fyrir að hugmyndaheimur bókarinnar sé sjálfsagt unninn af þeim í sameiningu er greint á milli texta þeirra, svo lesandi getur á hverjum stað áttað sig á hvorn höfundinn hann er að lesa. Bókin er einskonar saga í brotum, eða safn örsagna, sem segir sögu tveggja manneskja, Veru og Linusar sem eru par. Þau eyða tímanum almennt og yfirleitt í einhvern óskunda, og dunda sér helst við að kála börnum. Það er þetta barna-morða-tema sem minnir mig hvað mest á verk Edward Gorey en eitt frægasta verk hans, The Gashlycrumb Tinies, lýsir einmitt margvíslegum dauðdögum barna, í stafrófsröð.
Vera og Linus drepa ekki endilega í stafrófsröð og saga þeirra er mun þéttari en sérviskulegar myndasögur Gorey. Hún hefst á því að hjúin eru að grafa bók, en síðan byrja morðin á börnunum. Við erum stödd í skógi, sem minnir um margt á heiminn sem dreginn er upp í Og svo kom nóttin, og þau Vera og Linus ferðast um hann á svipaðan hátt, líkt og kemur fram í upphafstextanum þegar þau eru að grafa bókina og fara ofan í uppþornað stöðuvatn og fylgja þar neðanjarðarlæk þartil þau koma inn í rjóður í gröfnum skógi. Í næsta texta, sem einnig er merktur Jesse Ball, opnar Linus kistil og dregur þaðan upp þrjú stúlkubörn. Stúlkurnar brjótast um og blikka augunum ákaft í óvæntri birtunni, en undir þeim í kistunni er stöðuvatn og seglbátur. Og til að tryggja að stelpurnar sleppi ekki meðan þau sigla, sker Vera annan ökklann af hverri. Næsti texti er merktur Þórdísi og þar segir frá því að Linus hefur útbúið dökkgrænan kjól handa Veru sinni. Í öðrum vasa kjólsins eru fimm lítil þögul börn, en sá vasi er vandlega saumaður aftur. Í hinum vasanum er eitt hávært barn og það vill fara heim. Aldrei, segir Vera og ýtir höfði þess ofaní vasann og þau sauma hann vandlega saman. Barnið grætur enn ákafar en loks hættir það að brjótast um og textinn endar svo: „No sound came from it any more, neither wailing nor sobbing. No sound anymore.“ En Vera og Linus ráðast ekki bara á börn, þau hrekkja líka hvort annað – og eru þá dálítið barnsleg sjálf – og þannig rúllar þessi sundurlausa saga áfram, lesandi kynnist þeim hjúum í smámyndum sem stundum eru hæfilega raunsæar, en á öðrum stundum afar fantastískar.
Það að drepa börn er almennt álitið ákveðið hámark hrollvekjunnar, jafnframt því að vera hreinlega tabú. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að börn séu nokkuð algengar persónur í hrollvekjum. Börnin eru þá iðulega uppspretta einskonar óhugnaðar, ýmist vegna ókennilegra hæfileika eins og í Carrie og Firestarter (Stephen King 1974 og 1980), eða þau eru afkvæmi hins illa eins og í Rosemary’s Baby (Ira Levin 1967) og Omen kvikmyndunum (1976-2006), svo örfá dæmi séu tekin. Önnur verk spila á sakleysi barnsins í bland við óhugnað eins og The Shining (Stephen King 1977) og Poltergeist myndirnar (1982-1988), en hér mætti einnig nefna myndir mexíkóska leikstjórans Guillermo del Toro (t.d. Völundarhús Pans 2006). Börn eru í þessum verkum einskonar landamæraverur, sem standa ekki aðeins á mörkum sakleysis bernskunnar og syndafalls fullorðinsáranna, heldur einnig á mörkum tveggja heima, hins raunverulega og þess sem ekki þykir eins áþreifanlegur. Þetta má að hluta til útskýra með hugmyndum um ímyndunarafl barnsins, að barnið búi í heimi sem er alltaf að einhverju leyti óraunsær og jafnvel ævintýralegur. Þannig verða hrollvekjandi verk sem fjalla um börn einmitt mjög gott dæmi um þetta krútt-goth, þarsem annarsvegar er spilað á hið sæta sakleysi (sem getur þó á stundum tekið á sig hreinar hrollvekjandi myndir, alveg lausar við krútt) og ósnertanleika barnsins, og hinsvegar á ógnir bernskunnar í formi ímyndaðra heima sem, eins og ævintýrin sjálf sanna, eru oftar en ekki ansi hrollvekjandi. Og í þessum verkum eru einskonar ævintýri og / eða goðsagnir iðulega nærri, líkt og í Völundarhúsi Pans – og í sögunni af Veru og Línusi, en yfir henni er einmitt einhver ævintýrablær, sem fellur vel að hinum alltumvefjandi gotneska anda.
Strax með fyrstu bókinni, Ást og appelsínur, varð ljóst að hér var komin skáldkona sem hafði þegar fundið sína rödd. Í þriðju ljóðabók hennar, Í felum bakvið gluggatjöldin, er sú rödd orðin mun skýrari og greinilegt að Þórdís er orðin næsta örugg í þeim heimi ævintýralegs og gotnesks myndmáls sem hún skapar. Enn hittum við fyrir dáin börn („Í fjörunni“), hnífa („Herbergi“) og dálítið blóð („Á hverri stundu“), en nú er myndmálinu fylgt lengra eftir og áhrifin sem skapast eru oft dálítið eins og að ganga inn í draugahús – svo að ég haldi mig við gotneskar líkingar. Draumkennt yfirbragð er áberandi sem fyrr, á stundum með þeim hætti að lesandi veit ekki vel hver afstaða hans er til draumsins: það er að segja, draumurinn er dálítið eins og hús sem lesandi gengur inní, horfir í kringum sig og veit skyndilega ekki hvernig hann á að komast út úr. Dæmi um þetta er ljóðið „Ljósmynd“, sem í fyrstu virkar óskup einfalt stef við ljósmynda-temað:
Eftir að hann drap systur sína með hamri
fyrir að vilja ekki opna fyrir honum kistilinn
barði hann í allt sem fyrir honum varð
í leit að öðrum leyndardómum
uns hann uppgötvaði holt rýmið bakvið vegginn
þar sem marmarakúlurnar voru faldar.En undir þeim lá gömul ljósmynd af lítilli stúlku
með bronslitaðan lykilinn um hálsinn.
Það sem verður fyrst fyrir er sagan, hér er greinilega heilmikil saga á bakvið, líktog algengt er í ljóðum um ljósmyndir. En svo komum við að þessu með lykilinn, sem er með ákveðnum greini, og þá fer sagan dálítið á flökt: hvar byrjaði þetta nú aftur? Þessi tilfinning fyrir því að ferðast í einskonar hring, sem samt lokast ekki heldur opnast eitthvað annað er víða, eins og í ljóðunum „Býflugur“ en þar erum við stödd í bók, „Apríl“, en þar erum við stödd í mynd, eða allavega var einhverntíma mynd á veggnum og „Krákur“, en þar erum við raunverulega stödd í einskonar draugahúsi þarsem ljóðmælandi klippir blöðin af pottaplöntum, því þær „þjóna engum tilgangi hér lengur.“ Hún lítur í kringum sig „til að sjá hvað tímanum líður“ en það er engin klukka. Hana „langar að komast burt“ og láta krákurnar svæfa sig, en þær búa á þaki húss þar sem hún bjó áður „og boða dauða hans / sem situr við borðið / með tebolla við hlið sér / og lagar úrverkið.“
Inni á milli eru öllu kyrrlátari myndir eins og í „Áður“, en þar segist ljóðmælandi hafa verið gömul kona „sem þóttist vera draugur“. En hún var einnig lítil stúlka, „í felum bakvið runna.“ Loks segist ljóðmælandi hafa synt í sjónum þartil hún „hvarf undir öldurnar / dauð á meðal fiskanna.“ Og ljóðið endar á línunni: „Þetta voru góðir tímar.“ Hér birtist okkur líka dálítill húmor mitt í öllu þessa draumkennda draugadrama, sem slær kærkominn tón.
Fremst í bókinni er ljóð eftir Gyrði Elíasson, sem lýsir ljósmynd af „fallegum selum“ sem „brosa vingjarnlega“, og eru með augu „úr drukknuðum / börnum.“ Á næstu síðu er óljós ljósmynd sem gæti vel verið af einhverri (ó)vætt að rísa uppúr vatni. Það er áhugavert að skoða ljóð Gyrðis í þessu samhengi, en hann hefur einmitt sérhæft sig í draumkenndum stemningum sem stundum blandast framliðnum óhugnaði. Þó er hann alltaf nær þjóðsögunni, en Þórdís hallast meira í átt að ævintýrinu. Dæmi um lítið ævintýri sem minnir mig bæði á Lísu í Undralandi og sögur H.C. Andersens er ljóðið „Andvaka.“ Þar stækkar heimurinn og um leið smækkar stúlka „þar til hún var vart greinanleg lengur.“ Ljóðmælandi er næstum búin að stíga á hana en svo kemur maður sem „setti þig ofan í / tóman eldspýtustokk um kvöldið / til að tryggja að þú týndist ekki, / og þar lástu andvaka alla nóttina. // Á næturstað sem utan frá / virtist ekki meira en lítill kassi / fullur af ryki.“
Hér ferðumst við milli stærða og endum í eldspýtustokk, andvaka með stúlkunni, en svo sjáum við þetta aftur utanfrá, lítinn kassa sem kannski er þegar allt kemur til alls fullur af ryki?
Líkt og frammi fyrir kistlinum í upphafsljóðinu (sem aldrei opnast?) þá fyllumst við undarlegri forvitni frammi fyrir hinum fjölmörgu vistarverum sem eru í felum bakvið gluggatjöldin. Það sama má reyndar segja um fyrri ljóðabækurnar tvær, en þar ríkir einnig einskonar ævintýralegur andi, í þessari undarlegu blöndu af gleði og óhugnaði sem Þórdís matreiðir á sinn huggulega hrollvekjandi hátt.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2007
Richard Davenport-Hines, Gothic: Four Hundred Years of Excess, Horror, Evil and Ruin, New York, North Point Press 2000.
Ragna Þorbjörg Úlfarsdóttir, Fallegt ógeð, B.A.-ritgerð í grafískri hönnun, leiðbeinandi Úlfhildur Dagsdóttir, Listaháskóli Íslands 2007. Vísað er til ritgerðar með leyfi höfundar.
Greinar
Almenn umfjöllun
„Ást og appelsínur“ (viðtal)
Stína, 1. árg., 1. tbl. 2006, s. 32-35
Eyrún Ólöf Sigurðardóttir: „Þórdís appelsínuskáld“ Viðtal við Þórdísi Björnsdóttur
Vera, 23. árg., 5. tbl. 2004, s. 36-3
Um einstök verk
Ást og appelsínur
Dagur Gunnarsson: „Killing, Shooting, Maiming and Falling in Love. A Poetry Book of Course.“ Viðtal við Þórdísi um Ást og appelsínur.
The Reykjavík Grapevine, issue 9 2004, s. 34
Lesa má blaðið á netinu, sjá hér
Emil Hjörvar Petersen: „Mannfugl og fílabeinsturn: Konan í undraveröld“
(Um Húðlit auðnin eftir Kristínu Eiríksdóttur og Ást og appelsínur Þórdísar)
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 3. tbl. 2007. s. 58-63
Hjalti Snær Ægisson: „Um ljóðabækur ungskálda frá árinu 2004: Nokkrar glæfralegar athugasemdir“
Són: tímarit um óðfræði, 3. hefti 2005, s. 141-159
Sölvi Úlfsson: „Krútthorrorklám“
Stúdentablaðið, 81. árg., 1. tbl. 2005, s. 16
Tinna Mjöll Karlsdóttir: „Ást og appelsínur“
Umfjöllun á vefnum Ljóð.is í október 2004, sjá hér
Úlfhildur Dagsdóttir: „Ást og appelsínur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Og svo kom nóttin
Úlfhildur Dagsdóttir: „Norrænar bókmenntir“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Saga af bláu sumri
Úlfhildur Dagsdóttir: „Tíminn er eins og klukka“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Vera & Linus
Haukur Magnússon: „A deep, strong hope in its core.“ Viðtal vegna Veru & Linusar.
The Reykjavík Grapevine, issue 15 2006, s. 30.
Lesa má blaðið á netinu, sjá hér
Gagnrýni um verk Þórdísar og viðtöl við hana hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins
Þín eru sárin
Lesa meiraÍ staðinn fyrir að fréttirnar bærust frá manni til manns skyldi ég flytja þær sjálf hverjum sem heyra vildi, með mínum eigin orðum og hana nú! Og svo gæti ég bara gengið út frá því að allir vissu og staðið keik utan við vandræðagang og slúður. Já, þetta var leiðin, ekki spurning. Ég skyldi birta pistil um árásina á FacebookSólmundur
Lesa meiraLjóð í leiðinni: skáld um Reykjavík
Lesa meiranötur gömlu nútíðarinnar
Lesa meiraSchlafsonate
Lesa meiraLjóð í Neue Lyrik aus Island
Lesa meiraSónata fyrir svefninn
Lesa meiraÍ felum bakvið gluggatjöldin
Lesa meiraSaga af bláu sumri
Lesa meira