Um Mömmu klikk!
Kæri lesandi,
Heldurðu að þú eigir klikkaða mömmu? Bíddu þangað til þú lest um mína! Einu sinni var hún skemmtileg og frábær og fjörug en upp á síðkastið hefur hún snarversnað. Það finnst það öllum!!! Ég gæti gefið þér fullt af dæmum svo þú trúir mér en það er betra að geyma þau bara inni í bókinni. En engar áhyggjur. Ég er með áætlun.
Áætlun: Breytum mömmu! Hún getur ekki klikkað. Og ef þú átt klikkaða mömmu geturðu lært hvernig á að laga hana eins og ég. Opnaðu bara bókina og sjáðu hvernig mér gengur!
Kveðja, Stella 12 ára (aaaaalveg að verða 13)
Úr Mömmu klikk!
Þetta byrjaði ágætlega.
Það sem mig langaði í var einhver geðveikur bolur og buxur sem urðu að vera rassvasalausar og þröngar um kálfana en víðar að ofan. Reyndar er mjög erfitt að finna svoleiðis buxur og ég átti tvennar sem mamma hafði saumað. Það er því augljóst að ég gat ekki verið í þeim í afmælinu mínu. Mamma var sko hræðileg saumakona.
Um leið og við komum inn sveif að okkur ung og falleg afgreiðslustúlka. Hún var í svartri skyrtu, svörtum buxum, svörtum hælaskóm og með svart leðurbelti og -bindi. Hún var svo falleg að ég hugsaði um leið að ég vildi vera hún. Ég vildi verða afgreiðslugyðja í fatabúð þegar ég yrði stór og svífa um búðina á háum hælum, umkringd fallegum fötum sem ég gæti keypt á rosalegum afslætti. Með vínrauðan varalit.
„Get é asstoða?“ spurði hún og brosti til mömmu. Mér fannst mjög töff hvernig hún sagði asstoða. Svo leit hún á mig og virtist bregða. Hún Ieit snöggt á mömmu og svo aftur á mig. Brosið breyttist í óöryggissvip og svo vorkunnarsvip. Það flögraði að mér að hún vorkenndi mér að eiga svona skrýtna mömmu en ég vissi að það var ekki málið.
„Hva ... héddna ... ertu að leita að fötum á hana?“ spurði hún og leit á mömmu og allt í einu var eins og ég væri ekki lengur til.
„Já, hún á bráðum afmæli þannig að, ha?“ sagði mamma og leit brosandi á mig. Ég brosti á móti.
„Já, okkei! Og hvað verður hún gömul?“ spurði afgreiðslustúlkan.
„Ertu blind?“ kastaði mamma framan í hana í snöggu pirringskasti.
„Ha?“ Þetta kom henni algjörlega á óvart.
„Mamma!“ hvæsti ég starandi á gólfið.
„Já, fyrirgefðu, Stella mín,“ sagði mamma og hristi pirringinn af sér. Svo leit hún á afgreiðslukerlinguna og sagði rólega: „Dóttir mín er nú hérna við hliðina á okkur, þú getur bara spurt hana sjálfa ef þig vantar að vita eitthvað um hana.“ Mamma brosti stífu brosi.
Ég vildi ekki verða eins og hún þegar ég yrði stór. Ég þoldi ekki þessa afgreiðslukerlingu. Ég hafði svosem lent í þessu áður. Ókunnugu fólki sem hélt að ég væri einhver aumingi eða eitthvað og taiaði við mig eins og smábarn. Yfirleitt leiddi það til þess að mamma varð brjáluð. Yfirleitt hellti hún sér yfir þetta fólk eða strunsaði burt með stæl, ýtandi mér á undan sér.
„Já, okkei, talar hún alveg?“ spurði afgreiðslugínan fyrir framan okkur.
„Ertu heyrnarlaus líka, ha?“ sagði mamma og brosti stórhættulegu brosi.
„Mamma, plís!“ skaut ég inn í.
„Nei, je er sko ekki hvorki heyrnarlaus né blend, sko,“ svaraði afgreiðsluherfan og bætti við: „Nei, ég meinti bara sko, er allt í lagi me' ana? Er hún alveg okkei eða ...?“
„Hverskonar spurning er þetta?“ urraði mamma. „Komdu, Stella, við verslum ekki hér,“ sagði hún, sneri sér við og ætlaði að ýta mér út úr búðinni.
„Nei, mamma!“ Mamma stoppaði í skrefinu og leit hissa á mig. „Ég vil versla hér. Þetta er uppáhaldsbúðin mín. Þó að afgreiðslufólkið sé með þroska á við tveggja ára,“ bætti ég við og leit ísköldu augnaráði á afgreiðslustúlkuna. Hún var með nafnspjald á brjóstinu. Dísa. Dísa skvísa, að eigin mati. Dísa heiladauða að mínu mati.
Dísa þóttist ekki skilja móðgunina og sagði bara:
„Þið hóið bara ef ykkur vantar asstoð.“ Svo brosti hún snöggu og dauðu brosi og sveif burt til að aðstoða aðrar mæðgur sem voru í sömu erindagjörðum og við.
„Ertu viss?“ spurði mamma áhyggjufull.
„Já, ég ætla ekki að láta þessa Dísu ákveða fyrir mig hvar ég versla föt,“ sagði ég ákveðin og fór af stað. Mamma virtist verða mjög glöð yfir þessu og óperaði:
„ Förum þá að mááátaaaa ...“
„Mamma!“
„Hvað?“ spurði hún steinhissa og kom á eftir mér.
(31-3)