Um bókina
Fullorðin dóttir kynnir sig hér fyrir látnum föður sínum í listilega skrifuðu bréfi sem jafnframt er bréf til ungu meyjarinnar sem hún eitt sinn var. Meydómur er saga af leiðinni sem hún fetar frá sakleysi bernskunnar til uppreisnar unglingsáranna þegar meydómi hennar lýkur.
Úr bókinni
Gleraugnaglámur
Hún gleymir að fara í nærbuxur, skellir sér í kjólgopa og fer ein út að leika, vaknar á undan hinum systkinunum og flýtir sér í fötin, sérstaklega ef það er sumar og sólin skín. Þá langar hana fljótt, fljótt upp á leikvöllinn fyrir ofan, hleypur upp götuna svo rykið þyrlast upp og fyllir vitin og svo yfir aðra sem kennd er við frjósemisgyðju, fer beinustu leið í róluna. Klifrar upp þykkan kaðalinn og finnur alsæluna á toppnum, efst uppi, óviðjafnanlega sælu sem hún kann enga skýringu á en verður hennar haldreipi síðarmeir í tilfinningalegri nauð.
Hún er ein á leikvellinum, því það er enginn vaknaður jafn snemma og hún. En smám saman koma fleiri krakkar, stórir strákar sem leika sér saman. Þegar þeir koma auga á hana vilja þeir fá að skoða það sem sker hana úr öllum krakkahópum hvar sem hún kemur. Enginn krakki sem hún þekkir er með gleraugu á nefinu, gleraugu sem síga stanslaust niður á búlduleitar barnskinnarnar. Hún lærir reyndar fljótt að ýta þeim upp, ekki með höndunum, heldur andlitinu. Þá lyftir hún kinnunum til skiptis svo gleraugun mjakast smátt og smátt á sinn stað. Þetta finnst fullorðna fólkinu auðvitað stórfyndið en henni finnst þetta fyrst og fremst þægilegt því þá getur hún haldið áfram að nota hendurnar við það sem hún er að gera hverju sinni. Hún getur illa án gleraugnanna verið, annað augað næstum ónýtt og leitar burtu. Vill ekki vera í liði með hinu auganu og dregur sig feimið í hlé. Fötlun hennar frá barnsaldri, latt auga sem smám saman er rekið að verki með aðstoð augnlæknisins hraðmælta í Austurstræti. Hann setur risastór og skrítin gleraugu á hana með mörgum glerjum, skiptir þeim út á methraða til að prófa sjónina. Hann lætur hana horfa gegnum glerin á myndir og spyr til skiptis hvort það sé betra eða verra, verra eða betra, þetta eða hitt glerið. Að lokum setur hann svartan lepp fyrir heilbrigða augað svo letinginn hypji sig á réttan stað. Eineygð getur hún ekki verið. Allt mömmu að þakka sem tekur eftir þessu þegar litla stelpan hennar situr við stofuborðið, teiknar og litar á pappírsrenninga, afgangspappír úr prentsmiðjum. Þá notar hún aðeins vinstra augað en leggur því hægra svo það fer næstum í hvarf. Hún er eineygð þar til hægra augað hefur hypjað sig tilbaka og rétt mæld gleraugu mæta á lítið stúlkunefið.
Krakkahópnum á leikvellinum finnst hún ægilega hlægileg með gleraugu, svona óskaplega lítil stelpa á ekki að vera með gleraugu. Það eru bara gamlir karlar og kerlingar sem eru með gleraugu. Hún er kerlingarbarn. Henni finnst hún því eldast langt fyrir aldur fram, ekki vera eins og hinir krakkarnir og ekki nóg með það, hún er með sjónskekkju og gleraugun hennar eru alveg ógurlega sterk. Það segja krakkarnir á leikvellinum þegar þau hópast í kringum hana og heimta að fá að prófa gleraugun. Og hún er alveg til í að leyfa þeim að finna hvað gleraugun eru sterk en skilur samt ekki hvað þau eru að tala um þegar þau skiptast á að setja gleraugun hennar á nefið og hrópa:
,,Svakalega eru þau sterk maður, svakalega er hún með sterk gleraugu, þetta eru sterkustu gleraugu sem ég hef prófað!
Þau segjast verða alveg ringluð í hausnum af því gleraugun séu svo sterk. Hvernig er hægt að sjá með svona sterk gleraugu?
Þegar þau eru farin sest hún á hækjur sér í sandkassann, tekur af sér gleraugun og grefur þau djúpt í gráleitan sandinn, mokar vandlega nokkrum lögum yfir, sléttar vel með tréskóflu. Síðan stendur hún upp og hoppar margsinnis á staðnum þar sem þau liggja grafin, eins fast og hún getur, af öllu alefli heimsins, oft og lengi. Nú er spurning hvort gleraugun séu jafn sterk og krakkarnir segja. Til að sannreyna það er þessi tilraun nauðsynleg og hún hlakkar til að grafa þau upp úr sandinum og sjá hvort þau hafi þolað álagið, þolað litla, sterka líkamann sem hamast svona á þeim. Hún verður að geta sagt næstu krökkum sem vilja prófa gleraugun að hún sjálf viti að gleraugun séu sterk, hún hafi grafið þau í sandkassann, hoppað og trampað á þeim. Og viti menn, þau koma heil upp úr sandinum, alveg strýheil, óbrotin og ólöskuð. Þetta eru svo sterk gleraugu að þau þola að það sé troðið á þeim án þess að þau brotni. Hún finnur til stolts yfir því að vera stelpan með sterku gleraugun. Hún er ekki bara lítil lengur, hún getur verið ein af eldri krökkunum. Hún er með sterk gleraugu eins og eldra fólk og það gerir hana kotroskna. Andstyggilegt þetta orð kotroskin, eins og gamall afdalur þar sem ekkert hefur breyst í þúsund ár.