Um bókina
Ungur maður lætur lífið í dularfullum eldsvoða á Akranesi og skilur eftir sig samfélag í sárum. Athafnamenn á Skaganum villast af þröngum vegi dyggðanna í einkalífi og starfi. Og um nætur bregður fyrir ókennilegum skuggum í þessu friðsæla bæjarfélagi.
Lögreglukonan Elma þarf að kljást við flókið og erfitt mál samhliða því sem atburðir eiga sér stað í einkalífi hennar sem gera það að verkum að líf hennar mun aldrei verða sem fyrr.
Úr bókinni
Logarnir höfðu farið illa með líkama unga mannsins og lyktin af brenndu holdi loddi enn við hann. Flíkurnar voru ennþá límdar við handleggina og fæturna og hárið hafði sviðnað af.
Hannes byrjaði á að taka myndir og myndaði líkamann frá öllum mögulegum sjónarhornum. Hann vandaði sig og hugsaði ekki um neitt annað á meðan.
Það var erfitt að ná fötunum af líkamanum. Bolurinn hafði brunnið fastur við hörundið á sumum stöðum. Hannes fór sér hægt. Hann hafði áður krufið fórnarlömb eldsvoða. Lík sem voru jafnvel verr farin en þetta. Eitt af fyrstu verkefnum hans þegar hann starfaði erlendis var að kryfja eldri hjón sem höfðu látist þegar kviknaði í húsbílnum þeirra á meðan þau sváfu. Grunur lék á að þau hefðu verið látin fyrir brunann.
Þau voru það ekki, og hann vissi ekki hvort það var gott eða slæmt.
Sama verkefni beið hans núna. Hann þurfti að komast að því hvort ungi maðurinn var lifandi eða látinn fyrir eldsvoðann. Ef hann hafði verið á lífi myndi Hannes finna merki um sót eða reyk í lungunum á honum. Hann myndi leita eftir hitaáverkum eins og blæðingum í öndunarveginum, bjúg í koki eða lungum. Það gerðist þó í einstaka tilfellum að engin slík ummerki fyndust án þess að það táknaði nokkuð grunsamlegt. Í eldsvoða gátu sum efni leyst úr læðingi blásýru sem orsakaði eitrun í andrúmsloftinu og dró fólk nokkuð hratt til dauða. Jafnvel áður en það náði að anda að sér sóti eða reyk.
Hannes talaði meðan hann vann, sagði frá öllu því sem hann sá eða sá ekki, fyrir upptökuna. Það skipti máli að ver vandvirkur þar sem lítil atriði gátu skipt öllu máli. Í þessu fagi voru smáatriðin aðalatriðið.
Hann tók lítið vasaljós og lýsti upp í nasirnar. Þrýsti síðan þumli á hökuna svo munnurinn opnaðist. Það þurfti smávegis átök til þess. Eftir dauðann stirðnaði líkaminn svo hann varð ómeðfærilegur. Munnhol mannsins var ennþá ósnert og engin augljós merki um bólgur eða blæðingar í öndunarfærum eða koki. Hann setti í brýrnar og hélt svo vinnunni áfram.
Eftir smá tíma rétti Hannes úr sér og sveigði bakið aftur svo það brakaði í. Á meðan hann tók af sér hanskana hugsaði hann með sér að þetta væri í fyrsta skipti í langan tíma sem niðurstöður krufningar kæmu honum á óvart.
(s. 50-51)