Um Rangstæður í Reykjavík
Myndskreytingar: Rán Flygenring
Varstu að deyja úr spennu yfir Víti í Vestmannaeyjum? Og varstu með hjartað í buxunum þegar þú lagðir frá þér Aukaspyrnu á Akureyri? Þá er þetta bókin fyrir þig! Hvað varð um Ívar? Fór Eivör í atvinnumennskuna? Hvar í veröldinni er Rósa?
Jón Jónsson og félagar hans eru komnir á ReyCup ásamt stelpum og strákum í 3. og 4. flokki frá öllu landinu og meira að segja frá útlöndum! Þar ríkir gríðarleg spenna og strákarnir komast að því að rangstöðureglur eru flóknar, bæði í fótboltanum og lífinu sjálfu.
Úr Rangstæður í Reykjavík
Aukaspyrna. Davíð var klipptur niður úti við hliðarlínu á miðjum vallarhelmingi Tottenham. En hver átti að taka hana? Dolli var ekki inná. Hann var aukaspyrnusérfræðingur liðsins númer eitt. Það var enginn númer tvö. Ég vissi að ég var bestur af strákunum í mínum árgangi í aukaspyrnum en vissu Sammó og Kristján það? Það bara hlaut að vera. Ég var alltaf að æfa mig að taka aukaspymur á gervigrasinu í Laugardalnum fyrir og eftir æfingar. Ég hljóp því að boltanum. Lúkas hélt á honum og neitaði að láta hann af hendi. Fyrirliðinn sjálfur. Ég veit ekki hvaðan mér kom hugrekkið til að segja það sem ég sagði. Jú, annars, ég veit hvaðan það kom. Það kom frá Akureyri. Þetta var ársgamalt hugrekki.
„Lúkas, þú ert miklu stærri en ég. Ég gef inní og þú skallar inn,“ sagði ég og hann keypti þessa röksemdafærslu. Ég ætlaði ekkert endilega að gefa á hann, bara þann sem var í bestri stöðu til að skalla.
Ég stillti boltanum upp. Strákarnir stilltu sér allir upp á vítateigslínunni. Ég var ákveðinn í að sveigja boltann að markinu þannig að ef enginn myndi ná að skalla hann þá myndi hann samt lenda á markinu og jafnvel í netinu. Vandamálið var bara að ég var örvfættur og ég var á vinstri kantinum. Það þýddi að boltinn myndi sveigja frá markinu. Það var þrennt í stöðunni:
Númer eitt: Reyna að láta boltann sveigja að markinu með því að taka utanfótarspyrnu (þær eru oft ónákvæmari en innanfótarspyrnur).
Númer tvö: Taka spyrnuna með hægri fæti (sem var ekki góð hugmynd. Muna að æfa sig meira með hægri!).
Númer þrjú: Taka hana með ristinni. Án sveigju. Ronaldo stíll (alltaf gaman, alltaf töff og ég réð ágætlega við þennan stíl).
Númer fjögur: Taka hana innanfótar og láta boltann sveigja frá markinu (sagði ég ekki að þrír möguleikar væru fyrir hendi?).
Ég leit á Heiðar sem flautaði. Ég leit á þvöguna inni í teig. Gabríel var kominn inn í teiginn. Bíddu ... var svona lítið eftir af leiknum? Markmaðurinn kemur aldrei fram nema það séu bara nokkrar sekúndur eftir. Þetta varð að virka. Fyrir aftan hópinn lúrði Lúkas, illa dekkaður af stærsta manni Tottenham. Ég tók ákvörðun. Ég negldi í boltann með ristinni. Allir strákarnir í teignum þustu í áttina að markinu og stukku svo upp til að reyna að skalla boltann. Hann þaut yfir allan hópinn og stefndi á stöngina fjær. Markmaðurinn stökk út í teiginn en náði ekki boltanum. Ahhh, boltinn stefndi fram hjá! Þá skaut Lúkas upp koliinum og reyndi að skalla boltann. Hann hitti ekki. Boltinn fór í öxlina á honum og þaðan út í teiginn, beint í bakið á miðverðinum sem var að dekka Lúkas. Og þaðan fór boltinn í markið!
JEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEEESSSSSSSSSSSS!
Við skoruðum á móti Tottenham. Á móti TOTTENHAM HOTSPURS! Við hlupum til Lúkasar og stukkum ofan á hann allir sem einn. Ég langsíðastur og var því efstur í 11 manna hrúgu. Svo bættust Dolli og hinir strákarnir á bekknum ofan á mig og þá valt hrúgan. Lúkas var skelli- hlæjandi.
Við hlupum til baka en Heiðar flautaði leikinn af.
3-1.
1-0 fyrir okkur í seinni hálfleik.
„Við tókum þá!“ sagði Lúkas og við jánkuðum allir og brostum og hlógum. Ég held að enginn Þróttari hafi nokkurn tímann verið jafnglaður yfir að tapa leik 3-1. Lúkas kom til mín og klappaði mér á bakið og sagði:
„Góður!“
Fyrirliðinn og ég. Við vorum orðnir vinir, eða sko, við vorum alltaf ágætisvinir en mér fannst við eiga eitthvað sérstakt samband núna. Hann treysti mér. Við gengum saman til Tottenham-gauranna og tókum í hendurnar á þeim og þökkuðum þeim fyrir leikinn. Á ensku.
„Thank you for the game!“
(26-8)