Í ritröðinni Smábækur Menningarsjóðs (22).
Romeo und Julia auf dem Dorfe eftir Gottfried Keller, í þýðingu Njarðar.
Úr bókinni:
Mennirni nutu árbítsins í makindum. Börnin viku ekki af staðnum meðan setið var að snæðingi og þeir gáfu þeim ánægðir bita með sér. Jafnframt létu þeir augun hvarfla út yfir sveitina og sáu reyki stíga upp af glampandi fjallabænum, því að hinn ríkulegi hádegisverður er íbúar Seldwylar matreiddu á hverjum degi myndaði ljómandi, silfurlita skýslæði yfir þökum húsanna, er sveif síðan glaðlega með hlíðunum.
- Það brasar eins og venjulega, pakkið í Seldwyl, sagði Manz, annar bóndinn, og Marti, svo hét inn, svaraði: - Það var maður hjá mér í gær út af akrinum. - Frá sveitarstjórninni? Hann kom líka til mín, sagði Manz. - Jæja? Og honum hefur náttúrulega líka fundizt þú ættir að nýta landið og greiða herrunum leiguna? - Já, þangað til vitað er hveri eigi akurinn og hvað við hannverið gert. En ég þakkaði pent fyrir að koma þessari órækt í nýtilegt horf fyrir einhvern annan og sagði að þeir ættu bara að selja akurinn og geyma andvirðið þar til búið sé að hafa upp á eigandanum sem náttúrulega aldrei verður; því það sem einu sinni er komið í hendurnar á sveitaskrifstofunni í Seldwyl, það smýgur ekki strax þaðan aftur, og auk þess er erfitt við málið að fást. En þessir skrattar vilja náttúrulega fá eitthvað af eligunni á krókinn sinn og það gætu þeir auðvitað einni g fengið af söluverðinu. Við yrðum þá bara að passa okkur að kaupa ekki of dýrt og þa´vissum við líka hvað við hefðum og hver ætti landið.
- Ég er sömu skoðunar og gaf rokknum svipað svar.
Svo þögðu þeir litla stund, en þá tók Manz aftur til máls: - En það er mikill skaði að þetta góða land skuli vera í slíkri niðurníðslu, það er ekki hægt að horfa upp á það. Svona hefur þetta verið í tuttugu ár og einginn hefur grennslazt eftir því. Hér í þorpinu er einginn sem á neitt tilkall til akursins, og auk þess veit einginn hvað orðið hefur af börnum þessa skrattans lúðurþeytara.
- Tja, sagði Marti, - þú segir nokkuð. Þegar ég sé svarta fiðlarann sem ýmist heldur sig með flökkurunum eða leikur fyrir dansi í þorpunum, þá gæti ég svarið að hann er barnabarn lúðurþeytarans og hefur náttúrulega ekki hugmynd um að hann á akur. Og hvað mundi hann svo sem gera með hann? Drykki sig fullan í mánuð og tæki svo aftur upp fyrri hætti! Og hver ætti svo sem að fara að benda á hann þegar maður veit ekkert með vissu?
(8-9)