Úr Sögunni af Aðalheiði og borðinu blíða:
Einu sinni var lítil stúlka sem hét Aðalheiður og hún þótti nokkuð undarleg í háttum. Aðalheiður litla var ellefu ára og var ávallt klædd ljósbláum kjól með fölbleikum blómum og hún gekk berfætt, hvernig sem viðraði. Einstaka sinnum sást þó til hennar í gúmmístígvélum. Enginn vissi hvar hún átti heima en þó gat verið að hún ætti heima í skúr á baklóð nokkurri hér í borg. Sumir uppástóðu jafnvel að Aðalheiður ætti heima í öllum skúrum borgarinnar, hún færði sig aðeins um set á milli þeirra eftir því sem henni hentaði. En það var mál manna að hún kynni best við sig í skúr einum á Njálsgötunni. Aðalheiður var gráhært barn og batt hárið í fléttur. Hún hafði verið gráhærð eftir því sem menn mundu, menn mundu fyrst eftir Aðalheiði um níu ára aldurinn. Hún byrjaði þá að sjást á götum bæjarins og enginn vissi hvaðan henni hafði skotið niður.
(s. 11-12)