Myndir : Ari Hlynur Guðmundsson Yates
Um bókina
Ár er liðið frá því að hópur hugrakkra krakka gjörsigraði myrkraverur sem höfðu lagt undir sig stóran skóla á Reykjanesi. Allt endaði vel og allir gátu andað léttar. Eða hvað? Þegar unglingadeild skólans skellir sér í ferðalag út á land kemur fljótlega í ljós að enginn er óhultur. Allra síst krakkarnir í öftustu rútunni …
Skólaslit 2: Dauð viðvörun eftir Ævar Þór Benediktsson er sjálfstætt framhald metsölubókarinnar Skólaslita. Sagan birtist fyrst sem ógnvekjandi hrekkjavökudagatal en kemur nú út á bók – sem lesendur munu tæta í sig.
Skólaslit voru tilnefnd til Bókaverðlauna barnanna auk þess sem verkefnið hefur hlotið fjölda viðurkenninga.
Úr bókinni
Skurðurinn sem krakkarnir höfðu leitað skjóls í var í um það bil tíu metra fjarlægð frá þjóðveginum. Misháir snjóskaflar og dauð strá skýldu Ragnari þar sem hann leit varlega í kringum sig.
Rútan lá á hliðinni, hinum megin við veginn. Það rauk úr henni. Ragnar sá að afturrúðan sem þau höfðu verið að berja á hafði greinilega brotnað þegar hún valt. Sama gilti um flesta hina gluggana.
Krakkarnir sem höfðu verið í rútunni stóðu á þjóðveginum. Bekkjarsystkini, skólasystkini og vinir. Úr fjarlægð litu þau út eins og þau væru að taka þátt í Skrekks-atriði sem væri enn ekki byrjað; öll á sínum stað, tilbúin að byrja að dansa um leið og tónlistin færi af stað eða einhver myndi segja ákeðna setningu.
En þegar hann horfði betur sá hann að það var eitthvað mikið að þeim. Þau voru alblóðug. Munnarnir opnir. Húðin rifin og tætt. Sár alls staðar. Augun sjálflýsandi. Síversnandi veðrið virtist ekki hafa nein áhrif á þau. Þau stóðu á víð og dreif um veginn, slefandi svörtu slími, næstum eins og þau væru að bíða eftir einhverju.
Ragnari varð aftur litið í átt að rútunni. Einhver lá við hlið hennar. Allavega fjögur skólasystkini virtust vera að gæða sér á viðkomandi. Smattið heyrðist langar leiðir.
(s. 66-67)