Um Sonnettuna
Er alþekkt sonnetta Snorra Hjartarsonar andstæð fjölmenningu á Íslandi?
Deilur um það verða til þess að menntaskólakennarinn Tómas hrekst úr starfi. Jafnframt eru erfiðleikar í hjónabandi þeirra Selmu. Í fríi á Spáni kynnast þau fólki af ýmsu þjóðerni, þ. á m. nokkrum Íslendingum.
Þá verður Tómasi ljóst að skuggi sonnettunnar er lengri en hann óraði fyrir.
Úr Sonnettunni
Við sundlaugarbarinn ræddi Tómas við tvær íslenskar konur sem höfðu komið til Malaga með sömu vél og þau Selma. Þær voru á miðjum aldri, hétu Elísabet og Sigrún Klara, og þekktu vel til á sólbaðsströndum Spánar.
Þetta var ekki fyrsta ferð þeirra til Torremolinos, en dvölin hafði valdið vonbrigðum. Þær sögðu að hommar og lesbíur hefðu á liðnum árum lagt undir sig bæinn — og skemmtanalífið miðaðist nær eingöngu við þarfir þess konar fólks. „Meira að segja Dixie-barinn er hálftómur á kvöldin,“ sagði Elísabet.
„Hvaða staður er það?“ spurði Tómas og dreypti á bjórnum sínum.
„Það er aðal karaókíbarinn," svaraði konan. „Við vorum þar í gærkvöldi.“
„Hún tók nú samt lagið,“ sagði Sigrún Klara flissandi og lyfti vínglasinu til að skála við Tómas.
Við þessa uppljóstrun fór Elísabet ögn hjá sér. „Nú, einhver varð að reyna að halda uppi fjörinu,“ sagði hún.
„Já, þú reyndir svo sannarlega,“ sagði Sigrún Klara kaldhæðnislega. „Það áttuðu sig sko allir á því.“
Sigrún Klara virtist nokkuð ölvuð, og Tómas kvaddi fljótlega. Honum hafði dottið í hug að spyrja konurnar um nautaatið sem hótelbæklingurinn þagði svo kyrfilega um — en hætti við. Það mátti bíða betri tíma.
Hann gekk yfir að sundlauginni. Þar fjölgaði hótelgestum stöðugt eftir því sem á daginn leið. Hann rétti Selmu vatnsflösku af barnum og settist með bjórglasið á sólbekkinn sinn. Það var funheitt, hitastigið hlaut að vera yfir þrjátíu gráður.
Selma lagði frá sér bókina meðan hún skrúfaði tappann af flöskunni og fékk sér sopa. „Þú varst lengi."
Hann játti því og sagði henni frá vinkonunum skemmtanaglöðu og Dixie-barnum — en stakk síðan upp á því að þau tvö könnuðu næturlífið í bænum. „Þú ert sennilega lítið spennt fyrir karaókísöng," sagði hann, „en hér er fólki boðið upp á ýmislegt fleira."
„Inn á þennan Dixie-bar færi ég nú aldrei," sagði hún og setti flöskuna undir bekkinn.
„En hvað með næturklúbb? Ég sá í bæklingi að það er vinsæll staður ekki langt héðan.“
„Ég held varla,“ svaraði hún.
Mollan í garðinum var þyngri en niðri á strönd og einnig þessi ágenga væmna lykt af olíubornum líkömum sem hann klígjaði við núorðið. Honum var óskiljanlegt hvernig Selma gat legið þarna langtímum saman og látið sér vel líka. Hún virtist ekki einu sinni heyra óhljóðin sem bárust frá barnapottinum.
Hann kláraði úr bjórglasinu og stóð svo á fætur. „Ég ætla upp á herbergi," sagði hann og braut saman handklæðið sitt.
„Hvað, viltu ekki leggjast aðeins?“ Hún lá á bakinu með augun lokuð, og höndin sem hélt á bókinni nam við glansandi flísarnar.
„Nei,“ svaraði hann.
Á stígnum urðu á vegi hans maður og kona ásamt unglingsstúlku. Þau ræddu saman á íslensku. Ekki minntist hann þess að hafa séð þetta fólk á hótelinu en fannst maðurinn kunnuglegur. Hann var um fertugt, grannur vexti og grannleitur með dökk þunglyndisleg augu sem hvíldu eitt andartak á Tómasi þegar þeir mættust. Tómas staldraði við og horfði á eftir þeim undir sólskyggnið hjá barnum.
Hann hafði ákveðið að bregða sér í sturtu því yfirleitt lét hann verða sitt fyrsta verk eftir sólböð að þrífa af sér bannsetta sólarvörnina — og jafnskjótt og upp á herbergi kom skrúfaði hann frá heita vatninu inni á baði. Síðan fór hann fram til að sækja hreinar nærbuxur og opnaði um leið út á svalir. Þegar hann leit niður í garðinn lá Selma ekki lengur á bekknum svo hann gekk að handriðinu og svipaðist um eftir henni. Og brátt sá hann hana; hún hafði stungið sér í laugina — hann fylgdist með henni líða áfram í vatninu, hægt og áreynslulaust. Það leyndi sér ekki að sumir karlanna við bakkann sýndu þessari ljóshærðu sundkonu ósvikinn áhuga.
Áður en hann sneri aftur inn í herbergið varð honum litið í áttina að barnum og kom þá auga á Íslendingana sem hann hafði mætt á stígnum. Konan og stúlkan sátu hjá þeim Elísabetu og Sigrúnu Klöru, en maðurinn stóð við barborðið með vatnsflösku í hendi. Hann sást allvel ofan af svölunum, og það vakti athygli Tómasar hvernig hann lagði aðra höndina aftan á hálsinn, angistarfullur á svip, og starði fram með hótelveggnum — út úr garðinum — líkt og hann vildi ekkert af mannlífinu þarna vita.
(30-33)