Um bókina
Maður finnst myrtur í sumarbústað í Skorradal. Á veggnum fyrir ofan hann hafa verið skilin eftir blóðug skilaboð.
Elma glímir hér við sérlega erfitt mál sem teygir anga sína víða um samfélagið og tugi ára aftur í tímann – ekki síst eftir að gömul dagbók ungs drengs finnst. Og á Akranesi er fólk sem vill alls ekki að sannleikurinn komi í ljós.
Hinn myrti var um fertugt og var banað með fjölmörgum hnífstungum. Elma er nýkomin úr fæðingarorlofi þegar hún fær þetta flókna mál í fangið.
Á meðan er Sævar heima í fæðingarorlofi með dóttur þeirra Elmu. Hann finnur kassa frá fyrri eigendum íbúðarinnar sem þau eru nýflutt úr þar sem meðal annars er að finna afar athyglisverða dagbók sem ungur drengur hélt á tímabili eitt sumarið í fortíðinni.
Úr bókinni
Kassinn reyndist vera fullur af skólabókum og blöðum og Sævar áttaði sig á því hvað þetta var. Þau höfðu fundið þennan kassa uppi á lofti skömmu eftir að þau fluttu inn. Fyrri eigendur höfðu skilið hann eftir. Háaloftið var undir súð og hafði ekki verið innréttað, einangrunin ber í loftinu og burðarbitarnir berir. Þau Elma höfðu séð fyrir sér að gera loftið huggulegt og hafa þar bækur og þægilega stóla. Eins konar afkima þar sem hægt væri að sitja í ró og næði. Fyrri eigendur höfðu notað loftið fyrir geymslu og nýju eigendunum til mikillar gleði, eða þanni, skildu þeir nóg af drasli eftir. Gamlar málningadósir, afgang af parketi og flísum og alls konar drasl sem þau höfðu farið með á haugana.
Þar á meðal var þessi kassi sem hafði slæðst með og geymdi ýmis blöð, tímarit og gömul heimaverkefni.
Sævar tók upp blað sem lá efst og virtist vera stæðfræðipróf í algebru. Einkunnin var 9,8.
"Vel gert," muldraði hann með sjálfum sér. Efst uppi í horninu stóð nafnið Máni. Hann þekkti engan Mána en gerði ráð fyrir að það væri barn sem einhvern tíma hefði búið í húsinu.
Máni hafði augljóslega verið betri en hann í stærðfræði.
Sævar tók upp næstu blöð sem voru heftuð saman. Íslenskupróf. Sneri heftinu við og sá að þar var einkunnin 9,5. Námið virtist sem sagt ekki hafa vafist fyrir þessum Mána.
Hann setti heftið aftur niður og sá að þarna voru gömul tímarit. Hann tók upp nokkur tölublöð af Æskunni sem hann mundi vel eftir. Hafði lesið þau spjaldanna á milli á sínum tíma. Fann svo nokkur tímarit merkt Lindin sem var tímarit sumarbúðanna í Vatnaskógi. Hann fletti hratt í gegnum þau án þess að koma auga á sálm númer 594, en skoðaði fjöldamargar myndir af glaðlegum strákum og óskaði þess að hann hefði fengið tækifæri til að fara á sínum tíma.
Neðst var gormabók sem hlaut líka að hafa verið í eigu Mána. Hún var dökkblá og græn og á forsíðunni var mynd af trúði. Þetta var ekki skólabók.
Þegar Sævar opnaði bókina sá hann að á fyrstu síðuna hafði verið skrifað stórum stöfum: Vatnaskógur. Máni reyndist ekki bara vera góður námsmaður, heldur var skriftin líka falleg og fullorðinsleg. Ártal og dagsetning hafði verið skrifað þar fyrir neðan, 8. ágúst 1995.
Sævar fletti yfir á næstu síðu og las: Ég á örugglega ekkert eftir að skrifa mikið í þessa bók.
(s. 57-58)