Beint í efni

Algleymi

Algleymi
Höfundur
Hermann Stefánsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur


Af bókarkápu:

Guðjón Ólafsson vaknar á sjúkrahúsi og hefur misst minnið. Hvað gerðist? Lenti hann í slysi? Var það slys? Hvaða ókunni maður kom að honum og bjargaði lífi hans?

Í þessum fjöruga hugmyndatrylli opnast lesandanum smám saman ógnænlegur heimur þar sem dularfullar ofsóknir virðast viðgangast, lykilatvik úr mannkynssögunni birtast í nýju ljósi, hulunni er svipt af dulmögnuðu handriti frá miðöldum, það brestur á með æðisgengnum flótta - og inn í þetta blandast mesta eðlisfræðitilraun allra tíma sem fram fer í agnahraðli í CERN í Sviss.

Úr Algleymi:

HEIM

Allslaus? Guðjón reyndist ekki alveg allslaus. Pabbi hans, Ólafur Guðmundsson, hálfókunnugur og nákominn maðurinn (Guðjóni brá alltaf þegar hann leit framan í hann, átti von á miklu yngri manni), fór á heimleiðinni með soninn í hús í Smáíbúðahverfinu sem Guðjón reyndist eiga. Hélt að honum þætti gaman að koma á kunnuglegar slóðir. Hann stakk lyklinum í skrána og lauk upp hurðinni, á móti þeim tók lykt sem ekki var laust við að minnti Guðjón á eitthvað, það var hans eigin lykt. Allt í einu fór hann að hugsa hvað það væri skrýtið að hann ætti svona stórt hús, ekki eldri maður en þetta.
Hvað er ég gamall? spurði hann.
Ólafur svaraði einhverju sem ekki festist við hugann.
Sennilega þriggja mánaða.
Hver maður hefur sína lykt og hún sest í húsmunina hans. Lyktin kom heim og saman við eitthvað en munina kannaðist Guðjón ekki við. Inn af forstofunni var gengið inn á gang með brúnni kommóðu sem engum bjöllum hringdi, þaðan inn í setustofu. Þar var grár hægindastóll eins og úr ævintýri og sjónvarp frá horfnum tíma. Gamli maðurinn leyfði honum að litast um og þreifa á hlutunum til að reyna að koma þeim fyrir sig. Sonurinn sagði upp úr eins manns hljóði:
Er í lagi að við séum hérna inni?
Hvað meinarðu, Guðjón minn?
Guðjón, hann hét Guðjón.
Hafði hann ekki einfaldlega hnigið niður?
Aðkomumaður hafði komið að honum.
Ég meina, erum við ekki að brjótast inn? Megum við vera hérna?
Er það ekki hlálegt að brjótast inn í sitt eigið hús og kannski ráða sig af dögum, liðnum dögum sem mann dreymir ekki einu sinni til?
Helena kærasta hans sat í hægindastól í stofunni eins og hún væri ein af mublunum og þau kysstust og skiptust á nokkrum orðum en hann gleymdi þeim jafnharðan, gleymdi fundi þeirra og gleymdi tilvist hennar rétt eins og hann hafði gleymt heimsóknum hennar á spítalann. Hún gat þetta ekki. Pabbi Guðjóns leiddi hann að opnum dyrum við enda stofunnar. Í augum einhvers sem gæti hafa staðið og horft á þá nálgast hefðu þeir verið sjónumhryggir. Gamall maður með heilaveikan son sinn. Sá gamli lágvaxinn, grannur og dökkur yfirlitum með blásvart hár og blíðan munnsvip. Eiginlega þesslegur að vera sérlega mikið góðmenni. Þannig fólk er ekki á hverju strái og því er líkast sem það sjáist gjarnan í fylgd með hálfgerðum illmennum, eins og andstæðurnar dragist hvor að annarri. En Guðjón leit ekki út fyrir að vera slæm sál, þvert á móti, einkar hrekklaus ásjóna rímaði vel við svipmót föðurins, sauðslegur svipur og stráksleg augu hefðu getað orkað dálítið hlægileg. Maðurinn hafði misst mikið og annað er um að ræða en í að lenda. Þú hlaust alvarlega höfuðáverka. Stigi tók við handan við dyrnar og þeir gengu upp í ris.

(s. 12-13)

Fleira eftir sama höfund

Súkkulaði og kók

Lesa meira

Skipið siglir

Lesa meira

Níu þjófalyklar

Lesa meira

Sjónhverfingar: Fjarvistarsannanir fyrir íslenskan veruleika

Lesa meira

Stefnuljós

Lesa meira

Borg í þoku

Lesa meira

Áður óútgefið efni

Lesa meira

Skyldan kallar. Pólitískur gamanlekur

Lesa meira

Högg á vatni

Lesa meira