Um bókina
Áratök tímans er bók 70 ljóða Steinunnar Ásmundsdóttur frá árunum 2016-2018. Eins og titill bókarinnar ber með sér rær höfundur á mið tímans og hugleiðir hvað hefur sterkust tök á honum í sínu lífi.
Kaflar eru þrír; Heimaland, Útland og Innland. Sá fyrsti lýsir atvikum uppvaxtar- og umbrotaára í Reykjavík, þá taka við ferðalög á ókunnar slóðir og síðasti kaflinn fjallar um heimkomuna og að festa rætur í daglegum veruleika við bakka hins mikla Lagarfljóts.
Úr bókinni
Tuttugu þúsund bláar flísar
(Konstantínópel, Tyrkland)
Sjö mínarettur bláu moskunnar
hafa vakað yfir bænum fólks
í fjögur hundruð ár.
Bænakallið frá þeim endurkastast
áleitið en heillandi
um stræti borgarinnar.
Þeir sem heyra
hverfa frá daglegri iðju í tilbeiðslu.
Voldugt himinhvolfið
flýtur yfir líkömum á teppabreiðu.
Hver bæn jafnmikilvæg,
hver blá flís jafnmikilvæg.
Litríkt skótauið utan hvelfinganna
eins og hafsjór af vonum.
Minnir á fjölbreytni mannlífsins,
að hver gengur sína leið.
Brestir
(Qaqortoq, Grænland)
Þær eru knáar þessar lágvöxnu konur
sem bera mennina sína á öxlinni heim af barnum
eftir hráskinnaleik nútíðar í landinu gamla.
Þeir gubba fram af svölunum þar sem
veiðibráð og skinn hanga til þerris innan um þvottinn.
Hundarnir gelta órólega í gerðinu
og það brestur ónotalega í ísnum á voginum.
Nýr tími násker gamlan merg.
Allt undir fargi óvissu, þjóð og land
og ævagömul jarðbinding að trosna.
Steinbarn
Fór á barinn til að losa öskrið,
athuga hvort ég næði gegnum skelfinguna
til hjartans.
Veinið heima hræddi börnin.
Það rann langdregið út í nóttina,
úr skerandi kolsvartri botnlausri holu.
Um morguninn lygndi og hljóðnaði
eftir því sem birtan jókst.
Unnt að rísa upp og opna dyrnar fram.
Minning um smáan líkama,
steinbarnið,
vafið í klæði og kistulagt.
Öskur: að moldu skaltu verða.