Um bókina
Það er vinnslustopp í rækjunni, gatan sundurgrafin og bærinn alltaf fullur af forvitnum túristum af nýju og nýju skemmtiferðaskipi. Ef ekki væri fyrir nágrannakonuna handan við brúna væri líf Halldórs ansi dapurlegt. En þótt það séu bara níu og hálft skref úr anddyrinu hans að dyrunum hennar er leiðin þangað furðulega flókin.
Úr bókinni
Mörg húsanna í Tangagötunni voru byggð í áföngum eftir þörfum íbúa á löngum tíma og því undarleg í laginu. Fyrst voru þau pínupínulítil, svo pínulítil, mjög lítil, bara lítil og þannig koll af kolli. Þegar hér var komið sögu voru þau flest rétt undir meðallagi og þau sem virtust stór að utan voru það ekki og ekki heldur þau sem virtust lítil. Í mínu húsi voru endalaus innskot og rangalar og gólfhæðin á jarðhæðinni var öll mishá. Stofan var til dæmis heilum þrjátíu sentimetrum lægri en eldhúsið. Á húsi Gyðu var gluggi á annarri hæð sem sneri þannig að innum hann sást ekki frá götunni af því bíslagið með forstofunni skyggði á hann. Tæknilega séð hefði átt að vera hægt að sjá innum hann úr húsinu austan við mitt en það hús var á sölu og þar bjó enginn og vestan megin við mig var bjórbruggarinn með stóran gluggalausan vegg. Í næstu götu fyrir aftan, Sundstrætinu, hefði sennilega verið hægt að sjá innum þennan glugga úr einhverjum húsanna sunnan megin götunnar en það var heldur langt í burtu og útsýnið eftir því. Á annarri hæðinni hjá mér var það meira að segja tæpt vegna þess hvernig glugginn hjá Gyðu sneri, það gekk eiginlega ekki - húsin okkar voru undin hvort í sína áttina.
Milli míns húss og hússins sem var til sölu var síðan bílskúrinn minn. - eða bílskúrin mín, ég hef reynt að venja mig á vestfirskuna en það er of mikið andstreymi. Bílskúrin sumsé hékk saman við húsið mitt og út um baðherbergisgluggann á efri hæðinni komst ég út á þak. Þangað fór ég stundum á veturna til þess að horfa á norðurljósin.
Um tíma síðasta vetur féll ég á reykingabindindinu. Ég ákvað að byrja ekki aftur að reykja inni heldur fara út á pall til að sinna ósómanum í þeirri von að þá myndi ég hætta þessu fyrr. Eitt kvöld í nóvember þegar það var einstaklega stjörnubjart og ég vongóður um mikil norðurljós fór ég út á bílskúrsþak til að reykja - frekar en út á pall, sem sagt - og þá gerðist það.
Þegar ég lít niður af glóandi stjörnunum - það var norðurljósalaust - og innum gluggann hjá Gyðu sé ég hana. Hún stendur álút við þennan skrítna glugga sinn og horfir niður á götuna með blautt hárið sleikt aftur og ekkert nema lítið hvítt handklæði um mittið. Hún potar í eitthvað í gluggakistunni og blóðið frýs í æðunum á mér, ég halla mér að veggnum og sýg reykinn djúpt niður í lungun. Ég á ekki að vera hérna, ég á ekki að vera uppi á þaki, að stara innum hennar einkaglugga, á hennar flennibera einkahold, en ég get ekkert að því gert, ég er hérna, frosinn, og héðan sé ég það sem ég sé, ég er á minni eign, það er kolniðamyrkur ef frá er talin glóðin á sígarettunni minn og birtan frá glugganum hennar.
(bls. 28-29)