Beint í efni

Einlægur Önd

Einlægur Önd
Höfundur
Eiríkur Örn Norðdahl
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur

um bókina:

Þegar Eiríkur Örn, aðalpersóna þessarar skáldsögu, tekur að sér kennsluverkefni í ritlist fyrir erlent stórfyrirtæki er því mótmælt með nafnlausri hótun. Hann hefur enda brennt allar brýr að baki sér með skrifum sínum og framkomu. Til að flýja verukeikann sökkvir hann sér í vinnu, söguna af Felix Ibaka frá Arbítreu, þar sem fólk refsar hvert öðru með múrsteinaburði.

úr bókinni:

Þetta voru einrænir dagar hömlulauss snakkáts og rúmlegu. Eiríkur Örn var orðinn sannfærður um að nemendur hans vildu honum illt. Kannski átti það ekki við um öll þeirra, en eitthvert þeirra, sannarlega, og þótt hann vissi að það væri ekki sanngjarnt að láta það bitna á þeim öllum vissi hann ekki hvað hann gæti annað gert. 

Hann skrifaði þeim strax og hann vaknaðu og sagðist því miður þurfa að "hringja sig inn veikan" í dag. Hann gæti kannski horft framan í þau , ef hann reyndi, en hann vildi það ekki.

Þau skrifuðu honum til baka og spurðu hvenær þau ættu þá að hittast næst? Hann reyndi að svara óljóst - fljótlega, hvað úr hverju, kemst ekki á fimmtudaginn, við þurfum að finna út úr þessu - en lofa engu.

Í fjórar vikur var enginn á gervöllu Íslandi sem volaði jafn innilega og Eiríkur Örn. Hann skók hnén af krafti undir sænginni svo fartölvan sem hann hafði á hnjánum valt einsog skítakoppur í stórsjó, hann barði krepptum hnefanum ítrekað og af öllu afli í gormadýnunua - sem hratt hnefanum jafn snögglega af sér - sló út í loftið og rumdi. Þetta var ófögur sjón. Engum var jafn mikil vorkunn og honum. Enginn átti jafn bágt. Enginn var jafn ofsóttur og smáður. Góða fólkið, hugsaði Eiríkur Örn. Helvítis góða fólkið. Eða góða helvítis fólkið? Mannlegu skítakleprar. Nú myndi aldrei neinn elska hann - ekki fyrirvaralaust, hann yrði alltaf á skilorði. Það yrði alltaf vakað yfir hverju orði, beðið eftir því að hann misstigi sig. Hann fengi aldrei Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.

Við sem höfum takmarkaða innsýn í heilabú Eiríks Arnar getum kannski ekki að því gert að hlæja að þessum tilburðum skáldsins til þess að gera mikið úr harmi sínum. Því hvað var raunverulega að? Hver "ofsótti" Eirík Örn - annar en í mesta lagi Eiríkur Örn sjálfur? Var ekki staðreyndin einfaldlega sú að Eiríkur þráði sitt píslarvætti eins og ungbarn þráir sitt snuð? Píslarvættið friðaði samviskubit hans, fróaði mikilmennskubrjálæði hans. Hann þyrfti aldrei að vinna til bókmenntaverðlauna Nóbels, þyrfti aldrei að afreka neitt í bókmenntum sínum, ef hann væri sviptur möguleikanum fyrirfram - dæmdur úr leik á tækniatriði. En þótt við hlæjum í laumi skulum við líka hafa í huga að við erum ekki betra fólk fyrir að vera harðbrjósta.

Auk nemendanna skrifaði Lynn Mykle honum ítrekað. Eiríkur hafði enn ekki skilað af sér neinum myndböndum og var búinn að blóðmjólka allar Covid-afsakanir í bókinni, að meðtalinni grófri lyginni um að hann hefði veikst og legið á spítala. Hann hafði ekki lagt í að gera sig alveg dauðsjúkan af ótta við að það mætti sannreyna það einhvern veginn, fannst full bratt að setja sig í öndunarvél, en hann hafði látið leggja sig inn á Landspítalann til athugunar og legið þar í fimm daga. Þá þurfti hann heldur ekki að svara tölvupóstinum á meðan.

(s. 152-153)

Fleira eftir sama höfund

Ú á fasismann - og fleiri ljóð

Lesa meira

Heljarþröm

Lesa meira

Móðurlaus Brooklyn

Lesa meira

Þjónn, það er fönix í öskubakkanum mínum!

Lesa meira

Handsprengja í morgunsárið: baráttukvæði

Lesa meira

Gift för nybörjare

Lesa meira

Ljóð í Ny islandsk poesi

Lesa meira

IWF! IWF! OMG! OMG!

Lesa meira