Skáldsagan Lord Edgware Dies eftir Agöthu Christie, í þýðingu Ragnars.
Lafði Edgware, fræg leikkona, leitar á fund Hercule Poirots og kveðst þurfa að losna við eiginmann sinn. Poirot fer á fund lávarðarins til að biðja hann um skilnað fyrir hönd lafðinnar. Lávarðurinn finnst síðan myrtur á heimili sínu og grunur fellur á eiginkonu hans. Aðrir koma þó til greina og raunar mun frekar en lafði Edgware. En málið virðist flóknara þegar betur er að gáð og fleiri látast á voveiflegan hátt þar þar á meðal sumir þeir sem lágu undir grun. Hercule Poirot þarf að komast að hinu sanna með aðstoð Hastings höfuðsmanns og það fljótt, áður en morðinginn lætur enn til skarar skríða.
Úr bókinni:
Carlotta Adams var klædd í lítt áberandi svört föt. Hún var ekki með andlit sem fólk veitti strax athygli eða kannaðist samstundis við. Þetta var breytilegt, viðkvæmt andlit sem hentaði einstaklega vel fyrir eftirhermur. Það hafði engin sérstök einkenni í sjálfu sér en gat auðveldlega tekið upp einkenni annarra.
Ég deildi þessum hugleiðingum með Poirot. Hann hlustaði á mig af athygli, hallaði egglaga andlitinu örlítið til hliðar og leit snöggt á þau tvö borð sem um var rætt.
„Er þetta sem sagt lafði Edgware? Já, ég man það núna – ég hef séð hana leika. Falleg kona.“
„Og góð leikkona að auki.“
„Hugsanlega.“
„Þú virðist ekki sannfærður.“
„Ég held að það ráðist af umgjörðinni, kæri vinur. Ef leikritið snýst um hana – ef hún er þungamiðja þess – þá gæti hún leikið hlutverkið, já. Ég efast um að hún geti leikið lítið hlutverk svo vel sé eða það sem kallað er skapgerðarhlutverk. Leikritið verður að vera skrifað um hana og fyrir hana. Hún virðist vera ein þeirra kvenna sem hefur eingöngu áhuga á sjálfri sér.“ Hann tók sér málhvíld en bætti svo við, nokkuð óvænt: „Slíkt fólk er sífellt í mikilli hættu.“
„Hættu?“ sagði ég, hissa.
„Ég sé að þessi orðnotkun hefur komið þér á óvart, kæri vinur. Já, hættu. Sjáðu til, svona kona sér aðeins eitt – sjálfa sig. Hún tekur ekki eftir hættunum allt í kring – hagsmunum og samböndum í lífinu sem skarast á ótal vegu. Nei, hún sér eingöngu sinn eigin stíg. Þess vegna – fyrr eða síðar – verður stórslys.
(12)