Skáldsagan Cards on the Table eftir Agöthu Christie í þýðingu Ragnars.
Herra Shaitana safnar fólki sem hefur komist upp með morð. Hann býður Hercule Poirot í heimsókn en áður en kvöldið er á enda hefur einn „safngripanna“ myrt gestgjafann. Fjórir liggja undir grun – og Poirot stendur frammi fyrir einni af sínum erfiðustu ráðgátum.
Úr bókinni:
Dyrnar að íbúð herra Shaitana opnuðust hljóðlega. Gráhærður bryti hleypti Poirot inn. Hann lokaði dyrunum jafn hljóðlega og tók fimlega við frakka gestsins og hatti.
„Hvern má ég kynna?“ spurði hann lágum, daufum tóni.
„Herra Hercule Poirot.“
Ómur af samræðum barst inn í anddyrið þegar brytinn opnaði dyrnar og tilkynnti: „Herra Hercule Poirot.“
Shaitana, sem hélt á sérríglasi, gekk í áttina að honum. Hann var óaðfinnanlega klæddur að vanda. Hann var djöfullegri á að líta en fyrr, augabrúnirnar sérstaklega áberandi, skoplegar og snúnar.
„Ég ætla að kynna þig fyrir fólkinu – þekkir þú frú Oliver?“
Hann lifði sig inn í hlutverk skemmtikraftsins og hafði því gaman af því að sjá að Poirot brá örlítið.
Frú Ariadne Oliver var mjög vel þekkt sem einn fremsti rithöfundur í flokki leynilögreglusagna og annarra æsifenginna sagna. Hún skrifaði greinar í léttum dúr (þó að málfræðin væri ekki alltaf rétt), til dæmis Glæpahneigð, Frægir ástríðuglæpir, Morð vegna ástar eða morð vegna græðgi. Hún var einnig ákafur baráttumaður fyrir kvenréttindum og þegar morð vakti athygli fjölmiðla þá var alltaf rætt við frú Oliver og tekið fram að hún hefði sagt: „Nú ef kvenmaður væri við stjórn í Scotland Yard!“ Hún trúði statt og stöðugt á kvenlegt innsæi.
(16-7)