Beint í efni

Náttúrulögmálin

Náttúrulögmálin
Höfundur
Eiríkur Örn Norðdahl
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Náttúrulögmálin er söguleg skáldsaga þar sem brugðið er á leik með heimildir og staðreyndir svo úr verður frásögn af kaupstaðarlífi Ísafjarðar á miklum umbreytingatímum í sögu þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar.
Snemmsumars árið 1925 kallar yngsti, fegursti og jafnframt óviljugasti biskup Íslands, séra Jón Hallvarðsson, til prestastefnu á Ísafirði. Megintilgangurinn virðist vera að storka þjóðtrú landans og sýna mátt kristindómsins frammi fyrir hindurvitnum, spíritisma og náttúruöflum. En með uppátæki sínu hleypir biskup af stað ófyrirsjáanlegri sjö daga atburðarás þar sem náttúra staðarins kallast á við náttúru mannsins.

Úr bókinni

Trúarlíf Ísfirðinga, einsog annarra Íslendinga, annarra Evrópubúa, Vesturlandabúa, kannski jarðarbúa allra, um þetta leyti - þegar fjórðungur er liðinn af 20. öldinni - var í nokkru uppnámi. Fyrir stríð hafði bölsýnin ríkt yfir allri hugsun mannsins - gamalkunnugt vælið úr Schopenhauer um að lífið fælist ekki í öðru en því að drepast sleitulaust, sem rímaði ágætlega við þann táradal sem kirkjan boðaði - og stríðið varð ekki til þess að stemningin léttist neitt að ráði þótt margir hefðu makað á því krókinn.
   Engu að síður var líka ákveðinn galsi sem einkenndi þetta líf. Kannski hafði stríðið ekki bara fært vestrænum þjóðum heim sanninn um grimmd mannsins, heldur líka sanninn um megn mannsins. Ekki bara þetta gerðum við, heldur líka þetta gátum við - og fyrst við gátum þetta (!) var nú kannski ekki margt sem við ekki gátum, til góðs eða ills. Átti þessi aðdáun eðlilega tryggari fótfestu þar sem meira spurðist til stríðsins en fannst. Á Íslandi var mikið veitt, lesið og heyjað en lítið drepið og bjartsýni manna og glaðværð í samræmi við það.
   Hornsteinn hins kirkjulega starfs var og er rútína. Hinn kristni maður veit hvar hann á að vera á sunnudagsmorgni, hann veit hvað hann á að vera þar lengi, hann kann sálmana, þekkir sakramentin og hann veit hvernig sér verður að endingu launað. Sjálf trúin hangir á þessari óbreytanlegu skipan - svona er þetta og um leið og þessu er raskað; það sem áður var bannað er skyndilega leyft í nafni "nýrrar guðfræði", skapast óöryggi sem nístir hinn kristna mann inn að sálu og veldur honum óöryggi (sem stendur glötun næst). Ef sálmurinn sem hefur alltaf verið sunginn er ekki lengur sunginn, hvað hefur þá orðið af eilífðinni? Ef hefðirnar sem eitt sinn voru skylduboð reynast nógu hverfular til að í þeim megi róta eftir tískustraumum - afnema þær eina stundina til þess að taka þær aftur upp þá næstu - hvað verður þá um þá sem ekki fylgdu skylduboðinu í millitíðinni? Brenna þeir í helvíti? Og ef dauðasynd - kukl eða "sálarrannsóknir" - er ekki lengur dauðasynd heldur bara sniðug afþreying eða jafnvel samræmanleg hinu guðdómlega, raskast allt hið andlega líf. Trúarleg vissan sem áður hélt manni uppréttum og vísaði veginn verður að hálfkæringslegu ráfi sem enginn veit lengur hvert leiðir (ef ekki sem sagt beinustu leið til helvítis).

(s. 106-107)

Fleira eftir sama höfund

Ú á fasismann - og fleiri ljóð

Lesa meira

Heljarþröm

Lesa meira

Móðurlaus Brooklyn

Lesa meira

Þjónn, það er fönix í öskubakkanum mínum!

Lesa meira

Handsprengja í morgunsárið: baráttukvæði

Lesa meira

Gift för nybörjare

Lesa meira

Ljóð í Ny islandsk poesi

Lesa meira

IWF! IWF! OMG! OMG!

Lesa meira