Um þýðinguna
Valdar sögur úr ensku sagnasöfnunum A Friend of Kafka, A Crown og Passions eftir Isaac Bashevis Singer, í þýðingu Hjartar.
Úr Sautján sögum
Lykillinn
Um klukkan þrjú síðdegis fór Bessí Popkin að búa sig undir að fara niður götuna. Að fara út var ýmsum örðugleikum bundið, einkum á heitum sumardegi: fyrst varð hún að troða feitum líkamanum í lífstykki, þröngva bólgnum fótunum í skó og greiða hár sitt sem Bessí litaði heima og óx svo að hún réði ekkert við það og í voru allavega litir flekkir - gulir, svartir, gráir, rauðir; því næst að tryggja að grannar hennar brytust ekki inn í íbúðina hennar á meðan hún væri úti og stælu taui, fötum, skjölum eða færu bara að gramsa í dótinu hennar og týna því fyrir henni. Auk kvalara í mannsmynd átti Bessí í höggi við djöfla, púka, ill öfl. Hún faldi gleraugun sín í náttborðinu og fann þau í inniskó. Hún stakk glasinu sínu með hárlitunarvökvanum ofan í meðalaskúffuna; mörgum dögum seinna uppgötvaði hún að það var undir koddanum. Einu sinni skildi hún eftir pott með rauðrófusúpu í kæliskápnum, en Ósýnilegur tók hann þaðan og eftir langa leit rakst Bessí á hann í fataskápnum sínum. Ofan á súpunni var þykkt lag af floti sem lyktaði eins og þránuð tólg.“
(s. 21)