Um þýðinguna
Der Knecht eftir Isaac Bashevis Singer. Hjörtur Pálsson þýddi úr ensku.
Þrællinn eftir Isaac Bashevis Singer gerist í Póllandi um miðja sautjándu öld. Gyðingurinn Jakob hefur misst konu sína og börn í gyðingaofsóknum, flúið og verið seldur í ánauð. Undir okinu er hann staðráðinn í að þjóna guði sínum og standast allar freistingar holdsins og andans. En uppi í fjöllunum þar sem hann er látinn gæta búpenings á sumrum kynnist hann sveitastúlkunni Wöndu, ungri ekkju sem er afbragð annarra kvenna og kemur til hans í selið á hverjum degi að sækja mjólkina og smjörið. Hún tekur trú Jakobs og nefnist eftir það Sara. Þrællinn er ástar- og örlagasaga þeirra. Þrátt fyrir trú sína, góðvild og staðfestu mega þau margt þola af guði og mönnum uns dauðinn innsiglir ást þeirra og líf á óvæntan hátt að sögulokum. Þetta er saga um djúpan harm og sterkar ástríður.
Úr Þrælnum
Þennan dag gat hann ekkert aðhafst og þess vegna lagðist hann endilangur í hálminn og dró yfir sig ábreiðuna. Nei, Wanda kæmi ekki. Hann blygðaðist sín fyrir hve heitt hann þráði þessa konu sem var ein af hinum, en því harðar sem hann glímdi við girnd sína, því óviðráðanlegri varð hún. Hún skildi hvorki við hann biðjandi né gruflandi, í svefni eða vöku. Hann vissi hver var hinn beiski sannleikur: borið saman við þá ástríðufullu þrá sem hann bar í brjósti til Wöndu hjaðnaði sorg hans yfir konu og börnum og ást hans á Guði og varð að engu. Ef fýsnir holdsins voru frá Fjandanum komnar, þá sat hann fastur í neti Djöfulsins. Ójá, ég er búinn að glata báðum heimunum, muldraði hann og reyndi að halda vöku sinni þótt augu hans væru hálflukt. Krónublöð blóms bærðust úti í blautu grasinu. Hagamýs, hreysikettir, moldvörpur, skunkar og broddgeltir földu sig þar. Öll þessi litlu dýr biðu þess óþolinmóð að sólin færi að skína. Fuglarnir sátu á greinum trjánna sem svignuðu undan þeim eins og ávaxtaklösum og um leið og stytti upp hófst tíst, kvak og garg.
(s. 56)