Beint í efni

Hús á heiðinni – ljóð frá Þingvöllum

Hús á heiðinni – ljóð frá Þingvöllum
Höfundur
Steinunn Ásmundsdóttir
Útgefandi
Andblær
Staður
Reykjavík
Ár
1996
Flokkur
Ljóð

Um bókina

Ég var um nokkurt skeið landvörður á Þingvöllum og naut þeirra forréttinda að kynnast náttúrufari og sögu svæðisins vel og umgangangast heimafólk, sem allt var hið yndislegasta. Á þessum tíma bjó ég, stundum ein en oftar ásamt fleiri landvörðum þjóðgarðsins, í húsi ofan við Hrafnagjá handan sigdældarinnar heimsþekktu. Húsið nefndist Gjábakki og var teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Það var sannarlega hús með sál en nú er það brunnið. Í frístundum mínum skrifaði ég handritið að Húsi á heiðinni við eldhúsborðið í Gjábakka og vann það svo í kjölfarið til hlítar vetrarlangt í Þýskalandi.

Í bókinni eru dregnar upp margvíslegar myndir af lífi bæði manna, dýra og náttúrufyrirbæra á Þingvöllum. Ljóðin lýsa náttúruferlinu; vetur, vor, sumar, haust. Sagan er á margan hátt einnig tengd náttúrunni í ljóðunum.

Úr bókinni


Vorið

Árla morguns;
kyrrðin svo tær,
ljósbrot í snjóperlum,
grös að vakna,
þröstur á grein
og álftir í oddaflugi
með sunnanátt
undir vængjum.

Veröldin umhverfis
að bráðna saman
í nýtt upphaf.

Auðmjúkir
bíða farfuglarnir
á þröskuldi tímans.


Samspil

Fiðlan
er vatnið.

Boginn
fuglarnir.

Tónninn
söngurinn.

Verkið
náttúran sjálf.


Mosi

Mjúkur ertu mosi
og gamalgróinn.

Manstu hófaskelli
og þjark á þingi?
Smaladrengi,
þreytta bændur
blunda við þig?

Þúsund vor
og þúsund vetur
mjúki mosi.


Veiðimaður

Á vatnsbakkanum
maður með veiðistöng
og reynir af alefli
að fanga friðsældina.

Fleira eftir sama höfund

Einleikur á regnboga kápa

Einleikur á regnboga

rauði gossjálfsalinn / brosir kátur til mín / utan frá götunni.
Lesa meira
dísyrði kápa

Dísyrði

og guðirnir búa á tindinum / jötnar við ræturnar.  
Lesa meira
hin blíða angist kápa

Hin blíða angist – ljóð frá Mexíkó

Ég hef ekki heyrt frá Elsu síðan / og var sagt af þarlendum yfirvöldum / að hún hljóti að vera hugarburður. / Enga konu með þessu nafni / sé nokkurs staðar að finna.
Lesa meira
áratök tímans kápa

Áratök tímans

Sjö mínarettur bláu moskunnar / hafa vakað yfir bænum fólks / í fjögur hundruð ár..  
Lesa meira
fuglamjólk kápa

Fuglamjólk

í húsinu var reimt / en líka alúð og kærleikur / ungæðislegur galsi / við elduðum dýrðlegar máltíðir / sungum margraddað / ljóð Huldu við eldhúsborðið / gáfum fósturkrummanum / gammeldansk úr teskeið / sváfum vært við ugluvæl af heiðinni / söng stelksins á snúrustaurnum / gogg krumma í morgunsárið á rúðuna. .  
Lesa meira
í senn dropi og haf kápa

Í senn dropi og haf

Seint um nóttina hjólaði ég heim / gegnum skógana / drukkin af hamingju / og óhaminni orku / heldur of hratt / og smádýr á veginum / áttu fótum fjör að launa.
Lesa meira
ástarsaga kápa

Ástarsaga

Það varð að segjast að litlu, syfjuðu Reykjavík veitti ekki af smávegis innblæstri og upptakti til að lifna aðeins við og fá fólk út á göturnar þetta haustið. Vinirnir töluðu um hversu hressandi það væri í rauninni, og hreinlega frelsandi, að heyra önnur tungumál og sjá fleiri hörundsliti. Öryggiskröfurnar væru þó algjörlega bilaðar og skrítið og jafnvel ógnvekjandi að sjá allan þann öryggisviðbúnað sem smám saman var að taka á sig mynd í Borgartúninu og alls staðar þar sem Reagan og Gorbatsjev myndu fara um komandi helgi. Um stund hefði mátt halda að Reykjavík væri á pari við gamalgrónar evrópskar heimsborgir.
Lesa meira
manneskjusaga kápa

Manneskjusaga

Saga íslenskrar stúlku frá vöggu til grafar á síðari hluta tuttugustu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu og fyrstu. Í samtíma hennar var enginn skilningur á þeim ósköpum sem hún gekk í gegnum, allt var þagað í hel. Ef til vill var hún ögn á einhverfurófi og stöðugt á skjön við veröld sem var.
Lesa meira