Beint í efni

Arndís Þórarinsdóttir

Æviágrip

Arndís Þórarinsdóttir rithöfundur og þýðandi fæddist í Reykjavík 21. desember 1982, hún býr og starfar í Reykjavík. Arndís varð stúdent af fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík 2002, hún lauk BA-gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2205 og meistaraprófi í ritlist frá sama skóla 2018. Hún er einnig með meistarapróf í leikritun (Writing for Performance) frá Goldsmiths College, London, en því lauk hún 2006.

Arndís hefur unnið í leikhúsi og við blaðamennsku, en lengst af var hún samt deildarstjóri á Bókasafni Kópavogs. Frá 2018 hafa ritstörf verið hennar aðalstarf. Arndís hefur skrifað talsvert fyrir Námsgagnastofnun, þar á meðal stuttar skáldsögur fyrir mið- og unglingastig. Hún hefur einnig fengist við þýðingar og ritstjórn og ritað greinar í blöð og tímarit.

Arndís hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir bækur sínar, árið 2020 hlaut hún, ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Blokkin á heimsenda. Sú bók hlaut einnig Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur sama ár. Arndís hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Kollhnís árið 2022, svo og Fjöruverðlaunin 2023 og Barnabókaverðlaun Reykjavíkur 2023 fyrir frumsamið verk. Bókin var tilnefnd til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Arndís hefur tekið þátt í ýmsu félagsstarfi tengdum bókmenntum, var formaður IBBY á Íslandi á árunum 2010-2016, hefur meðal annars setið í stjórn Gerðubergsráðstefnunnar og bókmenntahátíðarinnar Mýrin. Hún situr nú í stjórn Síung á íslandi, samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda.

Mynd af höfundi : Gassi.

 

Heimasíða Arndísar