Æviágrip
Arndís Þórarinsdóttir rithöfundur og þýðandi fæddist í Reykjavík 21. desember 1982, hún býr og starfar í Reykjavík. Arndís varð stúdent af fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík 2002, hún lauk BA-gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2205 og meistaraprófi í ritlist frá sama skóla 2018. Hún er einnig með meistarapróf í leikritun (Writing for Performance) frá Goldsmiths College, London, en því lauk hún 2006.
Arndís hefur unnið í leikhúsi og við blaðamennsku, en lengst af var hún samt deildarstjóri á Bókasafni Kópavogs. Frá 2018 hafa ritstörf verið hennar aðalstarf. Arndís hefur skrifað talsvert fyrir Námsgagnastofnun, þar á meðal stuttar skáldsögur fyrir mið- og unglingastig. Hún hefur einnig fengist við þýðingar og ritstjórn og ritað greinar í blöð og tímarit.
Arndís hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir bækur sínar, árið 2020 hlaut hún, ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Blokkin á heimsenda. Sú bók hlaut einnig Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur sama ár. Arndís hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Kollhnís árið 2022, svo og Fjöruverðlaunin 2023 og Barnabókaverðlaun Reykjavíkur 2023 fyrir frumsamið verk. Bókin var tilnefnd til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.
Arndís hefur tekið þátt í ýmsu félagsstarfi tengdum bókmenntum, var formaður IBBY á Íslandi á árunum 2010-2016, hefur meðal annars setið í stjórn Gerðubergsráðstefnunnar og bókmenntahátíðarinnar Mýrin. Hún situr nú í stjórn Síung á íslandi, samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda.
Mynd af höfundi : Gassi.
Frá höfundi
Pistill frá Arndísi
Það komst í tísku á síðustu árum tuttugustu aldar að gefa blekpenna. Velmegun hafði aukist, framleiðslukostnaður lækkað og úr varð að almenningur gat leyft sér ýmislegt sem áður hafði verið langsótt. Þess vegna var hægt að gefa fjarskyldum frænkum lindarpenna í fermingargjöf.
Ég hugsa að tískubylgjan hafi líka tengst því að tölvurnar voru að ryðja sér til rúms. Þegar þær ýttu blýöntum, kúlupennum og tússi af skrifborðum kom upp mótþrói í fólki. Ekki einhver svona fúll-á-móti-mótþrói. Þetta var ekki beinlínis uppreisn gegn tölvunni, heldur miklu frekar einhver nostalgía. Maður gaf fjarskyldu frænkunum lindarpenna í fermingargjöf til þess að sannfæra sjálfan sig og frænkuna um að ekki væri allt breytt í heiminum. Að góður penni stæði enn fyrir sínu. Maður væri hlynntur framförum, hjálpi mér, en að samt vissi maður að ákveðin grundvallaratriði væru alltaf söm.
En frænkurnar nýfermdu settu sjaldnast blekhylki í pennana.
Blekhylki, auðvitað, því við vorum þrátt fyrir allt svo ánægð með þennan nútíma sem gerði okkur kleift að kaupa svona flotta penna á svona samkeppnishæfu verði og tækniframfarirnar sem færðu okkur tölvurnar og gerðu subbuskap með blekbyttur óþarfan.
En svo fjaraði þetta út. Smám saman hættu verslanir að auglýsa að sjálfblekungar væru upplagðar fermingargjafir, því enginn þekkti táning sem lét sig dreyma um góðan blekpenna.
Fermingarpenninn minn er hvítur. Diplomat penni, Attache týpan, hef ég komist að með því að leita upplýsinga á netinu. Framleiðslustaður er merktur Vestur-Þýskaland, sem mér finnst skemmtilegt. Þýskaland hafði verið sameinað í nokkur ár þegar ég fermdist, en mig rennir í grun um að flestir sem helga líf sitt framleiðslu á blekpennum séu íhaldssamir að upplagi. Þess vegna hefur merkingunni á hettunni ekki verið breytt alveg strax.
Næsta blekpenna eignaðist ég sex árum síðar, þegar ég vann ritgerðarsamkeppni við stúdentspróf. Cross Century ii penni, með breiðum oddi. Breiði oddurinn finnst mér áhugavert smáatriði. Flestir gjafapennar eru með miðlungsoddi. Kannski hafa þeir bara verið uppseldir og sá breiði valinn í hallæri – en ég vil ímynda mér að þarna hafi smekkur þess sem keypti pennann ráðið. Ég hef aldrei sett blek í hann, bara dýft oddinum í blek til þess að prófa hann. Það er eitthvað svo einkennilegt við að skrifa með penna sem er jafnframt verðlaunagripur. Ég held að það setji alveg rangan tón.
En þetta með oddana, já. Það er sem sagt ekki til nein stöðluð stærðatafla um odda. Framleiðendurnir staðla bara sína penna, merkja þá með þessum stöfum eftir því hvernig þeir raðast hjá þeim. Miðlungsoddur eins framleiðanda getur verið eins og extra fine oddur hjá öðrum.
Það er samt eiginlega við hæfi.
Það er ópraktískt og einkennilegt að velja að skrifa með lindarpenna á tuttugustu og fyrstu öldinni. Það væri ekki alveg náttúrulegt ef allur bransinn væri staðlaður eftir kúnstarinnar reglum. Þetta er bransi sem gengur út á sérvisku - bæði notenda og framleiðenda.
Af því ég hef sem sagt verið að lesa mér meira til um blekpenna, á síðustu vikum. Þetta eru mikil fræði sem er hægt að kynna sér. Helstu framleiðendur og svoleiðis. Sérstakt tungumál. Er oddurinn blautur eða þurr? Er hann stamur? Gefur hann eftir? Er hann áfastur pennanum eða útskiptanlegur? Festist hettan með skrúfgangi, segli eða smellu? Hvernig er fyllt á blekið?
Það er bara rúmt ár síðan ég keypti mér blekpenna í fyrsta sinn. Fyrst venjulegan Safari penna frá Lamy. Ódýr og kom í fallega rauðum lit. Ég man að mamma átti svona penna þegar ég var lítil – þegar ég handleik pennann finnst mér hann eiginlega stærri en hann er, því minningin smækkar hendurnar á mér og barnsauga mitt pírir í gegnum agnarlitla gluggann sem veitir innsýn í leyndardóma pennans, eins og kýrauga á kafbáti.
Fljótlega keypti ég annan eins – þó í öðrum lit – svo ég gæti skrifað í fleiri litum af bleki. Í leiðinni keypti ég fyllingar í fermingar-pennann.
Það var ekki fyrr en ég keypti Pelikan pennann (M205) sem var komin alvara í þetta. Hann var fyrsti penninn sem ég keypti sem var fylltur úr blekbyttu og þegar maður er kominn með blekbyttu á skrifborðið sitt, tja, þá segir það bæði manni sjálfum og – ekki síður – öðrum að þarna fari manneskja sem meinar eitthvað með ritföngunum sínum.
Látlausir blekpennar hef ég ákveðið að séu þverstæða. Af hverju ætti maður að vilja skrifa með lindarpenna nema maður sé gefinn fyrir svolítið drama? Ég gef skít í mínímalíska hönnun – og blekfyllingar.
(Ég dreg samt mörkin við blekpenna sem þarf að fylla á með sprautu eða dropateljara. Einhvers staðar verður að segja stopp.)
Í nokkrar vikur hef ég varla hugsað um annað en blekpenna. Það var, sjáið til, í þessu óráðsástandi sem ég laumaðist til þess að dýfa oddi ritgerðarsamkeppnar-pennans í blekið, bara til þess að prófa. Bara til að sjá. Það stendur ekkert til að nota hann, en ég varð samt að sjá hvernig hann skrifaði, svona til samanburðar.
Ég hef raunar rannsakað þetta svo mikið að ég hef sáralítið skrifað undanfarið. Mér hefur legið svo mikið á að kynna mér skriffæri.
Eða, það er ekki alveg hreinskilið að orða þetta þannig.
Það er ekki eins og rannsóknavinnan hafi komið í veg fyrir skrifin. Hún hefur komið í staðinn fyrir þau. Hún hefur verið skálkaskjól.
Ég er búin að fylla samfélagsmiðlana mína af blekpennum. Íslenskir og erlendir hópar áhugafólks á Facebook. Undirdeild blekpennaáhugafólks hefur bæst við upphafssíðuna mína á Reddit.
Það er til mikið af varningi sem beint er að fólki sem lítur á sig sem rithöfunda. Leitið bara að gjafahugmyndum fyrir skrifandi fólk. Þið finnið óteljandi kaffifanta, músarmottur, sérmerkta sokka, skartgripi, taupoka, koddaver og barmmerki.
Stundum hittir maður fólk sem hefur bersýnilega meiri áhuga á því að segjast vera rithöfundar en á því að skrifa bækur. Slíkt fólk á iðulega svona kaffifanta.
Þegar þessi orð eru skrifuð er ég að reyna að leggja lokahönd á þrettándu bókina mína. Ellefu stykki til viðbótar hef ég þýtt. Ég stari á skjáinn og reyni að sannfæra sjálfa mig um að blekbytturnar mínar séu ekki sambærilegar við stuttermabol með mynd af ritvél og hnyttnum orðaleik. Að ég sé víst alvöru, þótt mér liggi svona mikið á að athuga þetta með blekpennana.
Það er óheppileg staðreynd að starfandi rithöfundar og draumóraskáldin eiga það sammerkt að verja mestum tíma sínum í að skrifa ekki.
Það er þægilegur vélritunarhraði að skrifa eitt orð á sekúndu. Það þýðir sextíu orð á mínútu, 3600 orð á klukkustund. Ef við reiknum með átta stunda vinnudegi, hálftíma í mat og korters kaffihlé bæði árdegis og síðdegis ætti rithöfundur sem hamraði inn allan daginn að skila af sér tuttugu og fimm þúsund orðum á dag. Þá væri hann búinn með skáldsögu í þokkalegri lengd á þriðja degi vinnuvikunnar. Þessi lúsiðni textasmiður gæti svo snikkað þetta til á fimmtudegi og föstudegi og byrjað úthvíldur á næsta snilldarverki strax eftir helgina.
En þetta er auðvitað ekki svona.
Skriftir ganga hægt. Það þarf að hugsa málin. Leyfa þeim að gerjast. Skrifa texta sem er hent samdægurs. Teikna upp persónur. Stilla upp persónum og greina samspil þeirra. Skrifa beinagrindur að óskrifuðum sögum. Skrifa eitthvað inn í beinagrindina. Teikna svo nýja beinagrind – þá af þessu sem raunverulega fór á blaðið – og reyna að skilja lögun sögunnar eins og hún er en ekki eins og hún átti að vera. Stara á tölvuskjáinn.
Miðað við ímyndaða rithöfundinn í huga mér, sem pundar út einu orði á hverri einustu sekúndu vinnudagsins, er ég ólýsanlega mikill slóði. Tuttugu sinnum hægvirkari. Hundrað sinnum.
Tilhugsunin um það hvað ég er hægvirk er óbærileg. Þá er nú skárra að fella niður vinnuskjölin og skoða frekar síður um blekpenna á internetinu til að dreifa huganum.
Kannski dregst ég að blekpennanum af því enginn reynir að reikna út hvað hann skrifar mörg orð á mínútu?
En einhvern veginn koma samt sögur. Ég minni mig á það. Þrátt fyrir að ég sé óttalegur gaufari, þá koma sögur á endanum.
Ég er hætt að reyna að búa til skilvirkar starfsáætlanir yfir áætluð jafnaðarafköst á dag.
Ég hef lært að reyna að treysta því að sögurnar finni sér farveg. Frestunin er hluti ferlisins.
Ævintýri dagsins felst í því að stíga um borð í ógnarlangan kafbát og gægjast út um kýraugað. Áfangastaðurinn er þarna einhvers staðar.
Arndís Þórarinsdóttir 2021
Um höfund
Þægindaramminn og önnur mörk — um höfundaverk Arndísar Þórarinsdóttur
Andstæðurnar milli hins þekkta hversdagsleika og hins óvænta og nýja eru meðal þess sem er til umfjöllunar í verkum Arndísar Þórarinsdóttur. Arndís hefur skrifað skáldsögur fyrir börn og unglinga, smásögur, örsögur og ljóð, auk léttlestrarbóka og styttri skáldsagna sem ætlaðar eru til kennslu í grunnskólum.
Í barna- og unglingabókum Arndísar má greina ákveðin sameiginleg þemu, fjallað er um vináttu og samkennd og hvernig er tekist á við nýjar aðstæður eða breytingar. Sögurnar gerast þó í mjög ólíku umhverfi og segja frá ólíkum persónum og aðstæðum. Í ljóðum Arndísar er hversdagslífið til skoðunar, ýmis atvik og atburðir í lífi ljóðmælanda krufin, en einnig má greina háðskan tón undir yfirborðinu þegar nýju ljósi er varpað á kunnuglegar aðstæður.
Nýtt líf í nýju umhverfi
Játningar mjólkurfernuskálds er fyrsta skáldsaga Arndísar. Hún kom út árið 2012 og er ætluð lesendum frá 12 ára aldri. Sagan gerist í Reykjavík og segir frá Höllu, sem er 13 ára og búsett í Vesturbænum ásamt feðrum sínum þeim Aðalsteini og Tryggva. Í upphafi sögunnar er fjölskyldan nýflutt í úthverfi borgarinnar í kjölfar þess að Halla hefur verið tekin með fíkniefni í bakpoka á skólalóð Hagaskóla. Hún þarf að byrja í nýjum skóla fjarri öllu og öllum sem hún þekkir. Henni leiðist og hún saknar gamla lífsins óskaplega, aðallega bestu vinkonunnar Jennýjar sem hún hefur ekki talað við eftir að hún var tekin. Halla er yfirleitt alger pabbastelpa og fyrirmyndarnemandi og í nýja skólanum reynir hún í fyrstu að vera eins og hún er vön, en bæði nemendur og kennarar hafa fengið veður af dópmálinu í Hagaskóla. Samnemendur hennar halda að hún sé eiturlyfjasali eða dópisti og kennararnir trúa öllu illu upp á hana.
Halla gefst fljótt upp á því að reyna að passa inn og ákveður að breyta algerlega um stefnu, fyrst allir halda hvort eð er að hún sé vandræðaunglingur er líklega best að vera það bara. Hún breytir útliti sínu og klæðaburði og ákveður að vingast við þá úr bekknum sem hún telur vera á einhvern hátt á rangri braut í lífinu. Hún kemst þó að því að það er meira spunnið í vandræðaunglingana en hún hélt og sér að það eru ekki fötin eða hárgreiðslan sem gera mann að þeim sem maður er, heldur það sem býr innra með manni og framkoma við aðra. Halla finnur sér að lokum leið út úr þeim ógöngum sem hún er komin í, nær að eignast vini í nýja skólanum og laga það sem fór úrskeiðis í Hagaskóla, en fyrst þarf hún að sættast við sjálfa sig og átta sig á því hver hún er í raun.
Sagan gerist á nokkrum mánuðum og hefst þegar mestu lætin eftir afbrot Höllu eru afstaðin. Frásögnin er í fyrstu persónu Höllu sjálfrar, en í fyrstu gefur hún lítið uppi um ástæður þess að hún ákvað að brjóta af sér í Hagaskóla. Þegar líður á söguna kemur þó sífellt meira í ljós samhliða því að Halla fer að sætta sig við orðinn hlut, en fram að því á hún í töluverðri innri baráttu. Hún er ekki lengur fyrirmyndarbarnið sem hún var, en hún er í raun heldur ekki vandræðaunglingurinn sem hún reynir að leika í nýja skólanum. Hún er einmana og ráðvillt en vill samt alls enga aðstoð við að finna sig og komast á réttan kjöl. Á endanum eru það samt sem áður nýju vinir hennar sem hjálpa henni að skilja og sættast við sjálfa sig.
Umfjöllunarefni sögunnar er vissulega alvarlegt, en sagan er samt full af húmor. Samskipti unglinganna eru í fyrirrúmi, vandræðaleg atvik í skólanum og ýmis mál sem einkenna unglingsárin tekin eru fyrir svo sem fyrsta ástin, skólaböll og fleira. Halla þroskast töluvert í gegnum söguna og lærir margt, bæði um sjálfa sig og aðra. Þegar hún verður fyrir fordómum vegna atburðanna í Hagaskóla veit hún ekki hvernig hún á að bregðast við, en hún gerir sér smám saman grein fyrir því að hún er sjálf haldin fordómum og gjörn á að draga ályktanir um aðra. Hún stendur uppi í lokin með breytta sýn á lífið og töluvert sáttari við sjálfa sig.
Nærbuxur, krúttlegar kanínur og vélmenni í tómu tjóni
Nærbuxnaverksmiðjan (2018), Nærbuxnanjósnararnir (2019) og Nærbuxnavélmennið (2020) er þriggja bóka flokkur fyrir lesendur á yngri stigum grunnskóla. Þær segja frá aðalpersónunni Gutta, vinkonu hans Ólínu og ýmsum athyglisverðum atburðum sem verða í kringum nærbuxnaverksmiðju í bænum Brókarenda þar sem þau búa. Bækurnar eru allar ríkulega myndskreyttar af Sigmundi Breiðfjörð Þórarinssyni.
Gutti og Ólína eru afar ólík og þekkjast í fyrstu ekki mikið, Ólína er ný í skólanum og Gutti er ekki spenntur fyrir því að kynnast henni. Hann er alltaf til fyrirmyndar og er bæði greiðvikinn og duglegur en Ólína er aftur á móti uppátækjasöm og hávær. Nærbuxnaverksmiðjan í bænum er stór hluti af lífi allra bæjarbúa og ekki síst Gutta þar sem amma hans, Lena, vinnur í bókhaldinu og hefur gert alla tíð. Þegar Gutti fréttir að það standi til að loka verksmiðjunni drífur hann sig heim til ömmu Lenu til að athuga hvort sé ekki í lagi með hana. Amma hans reynist ekki vera komin heim og á meðan Gutti veltir fyrir sér næstu skrefum kemur Ólína aðvífandi. Hún sannfærist strax um að ekki sé allt með felldu og rýkur af stað til að bjarga ömmu Gutta úr verksmiðjunni. Gutti neyðist til að elta hana til að tryggja að allt fari ekki upp í háaloft.
Verksmiðjan er risastór og full af nærbuxum, en það kemur Gutta á óvart að sjá að hún er nánast yfirgefin að öðru leyti. Þau Ólína feta sig í gegnum alls kyns ranghala, skrítna framleiðslusali og nærbuxnaþróunarherbergi í leit að ömmu Lenu, á meðan vinnuvélarnar sem bíða fyrir utan búa sig undir að jafna húsið við jörðu.
Á leið sinni um verksmiðjuna lenda Gutti og Ólína í alls konar hættulegum og óvæntum uppákomum. Þau finna flokk af ótrúlega sætum og mjúkum kanínum, hitta nærbuxnavélmennið Rasmus, er rænt af hópi unglinga sem hafa fundið griðastað fyrir áreiti nútímans í einum salnum, og rekast svo á hóp eldri borgara sem hefur lagt undir sig sal fyrir alls konar fjör og skemmtanir. Þegar þau finna loksins ömmu Lenu og fá skýringar á öllu sem þau hafa orðið vitni að kemur í ljós að ýmislegt hefur gengið á bak við luktar dyr verksmiðjunnar. Allt virðist komið í óefni, en Gutti og Ólína eru ekki tilbúin til að gefast upp svo auðveldlega. Gutti safnar kjarki og tekst að bjarga verksmiðjunni, ömmu sinni og öllu fólkinu sem heldur til í húsinu. Verksmiðjan öðlast á endanum nýjan tilgang þar sem þau Gutti, Ólína og amma Lena fá að taka þátt í spennandi uppbyggingarstarfi.
Lífið í Brókarenda heldur áfram sinn vanagang í Nærbuxnanjósnurunum. Gutti og Ólína eru orðin innstu koppar í búri í samfélagsmiðstöðinni Rumpinum og taka þátt í að skipuleggja og halda utan um starfsemina sem þar fer fram, ásamt ömmu Lenu sem hefur tekið að sér að stýra öllu saman. Þau vinirnir verja öllum frítíma sínum í Rumpinum og geta komið og farið eins og þau vilja. Þegar amma Lena skellir sér á ráðstefnu á skemmtiferðaskipi ákveða þau að líta inn og athuga hvort allt sé ekki eins og það á að vera, en þegar komið er í Rumpinn sjá þau strax að það er eitthvað undarlegt í gangi. Þar er kominn húsvörður sem þau kannast ekkert við, afskaplega fúl kona sem rekur þau út og bannar þeim að koma utan opnunartíma. Gutti og Ólína eru ekki tilbúin til að sætta sig við þessa stöðu. Þegar þau læðast aftur inn sjá þau að ein alsætasta kanínan úr kanínuflokknum er horfin og sömuleiðis eldri borgarinn Ársæll sem heldur alltaf til í miðstöðinni. Verðmæt innrömmuð blúndubrók sem er stolt verksmiðjunnar og tilheyrði eitt sinn danakonungi er ekki heldur á sínum stað. Gutti og Ólína leggjast í rannsóknarvinnu og komast að því að allt virðist þetta tengjast. Í einu af ótalmörgum herbergjum hússins fara fram leynilegar rannsóknir og þróun á stórhættulegum hátæknibúnaði. Gutti og Ólína þurfa að bjarga Rumpinum frá eyðileggingu og ná að koma öllu í samt horf áður en amma Lena kemur heim af ráðstefnunni.
Í Nærbuxnavélmenninu er Ólína komin í frjálsíþróttalið skólans og er algerlega búin að finna sína hillu í lífinu þar. Æfingar taka allan hennar tíma en Gutti deilir ekki áhuga hennar á íþróttum og þau eru eiginlega alveg hætt að hittast. Hann er líka upptekinn við ýmsa skipulagsvinnu í Rumpinum en það kemur í ljós að amma hans hefur sleppt því að boða hann á mikilvæga fundi um hátíðarhöld sem eru framundan. Henni finnst hann eyða of miklum tíma í vinnu og eiga allt of lítinn frítíma. Gutti er aldeilis ekki sammála og einsetur sér að sýna bæði ömmu Lenu og öllum öðrum að hann sé ómissandi partur af liðsheildinni í Rumpinum. Hann hefst strax handa við að skipuleggja spennandi viðburði á hátíðinni en sá allra mest spennandi er að fá breskan prins sem er nýhættur með bleyju til að koma og taka á móti splunkunýjum nærbuxum. Þegar nærbuxnavélmennið Rasmus bilar óvænt virðist öllum áformum Gutta stefnt í hættu. Vélmennið, sem hefur alltaf verið vinalegt og friðsælt, tekur upp á allskonar óskunda og virðist vera orðið hættulegt umhverfi sínu. Bilunin verður sífellt alvarlegri og Rasmus æ ófyrirsjáanlegri, en ef spyrst út að ekki sé allt eins og það á að vera gæti þurft að aflýsa hátíðinni. Það verður sífellt erfiðara fyrir Gutta að halda Rasmusi í skefjum, þegar allt virðist komið í rugl og litla prinsinum er stefnt í voða sér Gutti að hann verður að leita til Ólínu eftir hjálp, þó að hann sé ekki viss um að þau séu einu sinni vinir lengur.
Bækurnar um Gutta og Ólínu einkennast af húmor og spennu. Í hverri bók þurfa vinirnir að leysa ráðgátu og komast til botns í alls kyns flóknum og stundum hættulegum málum. Atburðarásin í öllum sögunum er frekar hröð og skiptir persóna Ólínu þar miklu máli, enda knýr hún söguna áfram þegar Gutti vill staldra við og hugsa málin. Textinn er fullur af orðaleikjum og gríni í kringum nærbuxurnar sem óhjákvæmilega eru í aðalhlutverki í bæ þar sem risastór nærbuxnaverksmiðja gnæfir yfir öllu. Ansi margt í bænum tengist nærbuxum á einn eða annan hátt, ekki bara bæjarheitið Brókarendi heldur götunöfn eins og Bómullarbraut, Satínstræti og Blúndustígur og nafnið á pítsastað bæjarins: Boxer-bökur. Nærbuxnaþemað er svo enn frekar undirstrikað í fyrstu bókinni þar sem litlum myndum af nærbrókum af ýmsum gerðum er dreift um textann, en einnig má finna aragrúa af nærbuxum á stærri heilsíðumyndum. Í seinni bókunum tveimur er á sama hátt lögð áhersla á meginþemu bókanna með smærri myndum víðsvegar um textann. Í Nærbuxnanjósnurunum eru svakalega sætar kanínur áberandi og í Nærbuxnavélmenninu má sjá bilaða vélmennið Rasmus dreifa sér um síðurnar, oft í bútum og með útlimina í hnútum.
Vinátta Gutta og Ólínu leikur stórt hlutverk í gegnum bækurnar þrjár og þó að Gutti sjái ekki í fyrstu að hægt sé að umgangast Ólínu yfirleitt lærir hann að meta kosti hennar. Ólína er öllu opnari fyrir vináttu en Gutti, en hún þarf líka að læra að taka tillit til hans, þó að hann sé afar ólíkur henni og stundum full hægvirkur og hlédrægur. Ólínu tekst með tímanum að draga Gutta aðeins út úr skelinni, fá hann til að taka áhættu og prófa eitthvað nýtt og Gutti hjálpar Ólínu að koma hugmyndum sínum og orku í uppbyggilegri farveg en hún hefur gert fram að þessu.
Lestrarbækur fyrir grunnskóla
Arndís hefur skrifað nokkrar skáldsögur og annað efni ætlað til kennslu í grunnskólum. Bækurnar eru mislangar og henta fyrir mismunandi stig grunnskóla, allt frá yngsta stigi og upp í unglingastig. Allar sögurnar eru aðgengilegar rafrænt á vef Menntamálastofnunar og hægt að lesa þær beint af tölvu eða spjaldtölvu. Bókin Galdraskólinn er auk þess aðgengileg sem hljóðbók. Sögurnar fjalla um börn og unglinga í ólíkum aðstæðum, sem eru að læra á lífið og hvernig framkoma þeirra og hegðun hefur áhrif á aðra.
Skáldsagan Lyginni líkast (2013) segir frá unglingsstelpunni Kötlu sem er nýkomin aftur í skólann eftir alvarleg veikindi. Hún upplifir sig utanveltu og gömlu vinir hennar vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við henni. Fjallaferð með bekknum hefur afdrifaríkar afleiðingar og Katla fær tækifæri til að sanna sig bæði gagnvart sjálfri sér og hinum krökkunum. Gleraugun hans Góa (2015) segir frá Góa sem fær snjallgleraugu í afmælisgjöf en Gleraugun gera honum kleift að taka upp allt sem hann sér. Í fyrstu finnst bæði Góa og bekkjarfélögum hans spennandi að geta tekið upp mistök sem kennararnir gera og fleira fyndið, en fljótlega fer hinum krökkunum að finnast óþægilegt að vera í kringum Góa. Hvað ef hann er að taka þau upp og þau gera sig að fífli? Galdraskólinn (2019) er stutt saga um Kötju, sem fær inngöngu í galdraskóla í Saurbæ. Hún er ekkert sérlega flink að galdra og finnst lærdómurinn ganga hægt. Í raun og veru langar hana líka bara að vera í venjulegum skóla og spila fótbolta með vinum sínum. Hún þarf að ákveða hvað hún vill gera, hvort hún vilji halda áfram í galdraskólanum eða fara heim í gamla skólann sinn. Arfurinn (2020) fjallar um Hannes sem erfir dularfulla bók eftir píanókennarann sinn. Bókinni fylgja afar undarleg fyrirmæli, hana verður að eyðileggja við rætur Snæfellsjökuls á sumarsólstöðum. Hannes er efins í fyrstu en þegar ógnvekjandi hlutir fara að gerast í kringum hann áttar hann sig á alvarleika málsins. Hann hringir í stjúpsystur sína sem hann hefur ekki séð síðan foreldrar þeirra skildu og biður hana um aðstoð. Hannesi finnst ekki auðvelt að taka fyrsta skrefið og hafa samband, en þegar stjúpsystir hans kemur honum til bjargar sér hann að hann getur treyst á hana, þó þau tilheyri ekki lengur sömu fjölskyldu.
Ýmsar siðferðilegar pælingar eru teknar til umfjöllunar í bókunum, hvernig er rétt að bregðast við í mismunandi aðstæðum og hvaða afleiðingar ákvarðanir geta haft í för með sér. Einnig mikilvægi þess að fylgja innsæinu og standa með sjálfum sér, en að taka samt tillit til annarra og koma vel fram. Bækurnar eiga það sameiginlegt að ýmis fróðleikur er fléttaður inn í söguþráðinn, umhverfislýsingar og lýsingar á staðháttum, þjóðlegur fróðleikur og ýmislegt fleira.
Allt öðruvísi samfélag
Blokkin á heimsenda er skrifuð í samstarfi Arndísar og Huldu Sigrúnar Bjarnadóttur. Bókin kom út árið 2020 og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka sama ár. Sagan segir frá hinni 12 ára gömlu Dröfn sem er frökk og beinskeytt týpa, hvatvís og orkumikil og lætur yfirleitt allt flakka. Í upphafi sögunnar tilkynna foreldrar Drafnar henni og eldri bróður hennar að þau fjölskyldan séu á leið í auka sumarfrí. Þau ætla að heimsækja ömmu Drafnar sem býr á afskekktri eyju og þarf á aðstoð þeirra að halda. Dröfn hefur aldrei hitt þessa ömmu sína eða heimsótt eyjuna og er mjög spennt. Þegar þau koma á áfangastað kemur í ljós að amman er ekkert eins og þær ömmur sem Dröfn hefur heyrt um, sem baka kökur og dekra við barnabörnin. Hún er ströng og hvöss og finnst fólk ofan af landi vanþakklátt og tilætlunarsamt. Auk þess þarf hún enga hjálp frá þeim því í eyjunni afskekktu hjálpast allir íbúarnir að.
Foreldrar Drafnar ákveða engu að síður að fjölskyldan verði aðeins lengur í eyjunni en samfélagið þar er mjög ólíkt því sem þau eiga að venjast að heiman. Allir íbúarnir, tæplega 300 talsins, búa saman í stórri blokk til að spara orku og verjast veðrinu, sem getur orðið mjög slæmt yfir veturinn. Allt líf þeirra fer fram í blokkinni, þar eru gripahús, skóli, mötuneyti, tannlæknastofa og búð svo fátt eitt sé nefnt. Ekkert Internetsamband er og rafmagn af skornum skammti, íbúarnir þurfa sjálfir að framleiða það rafmagn sem þeir nota og hafa fundið upp ýmsar nýstárlegar aðferðir til þess. Eyjan er svo einangruð að þangað komast engin skip nema rétt yfir sumartímann og sambandsleysið við umheiminn hefur mikil áhrif á líf fólks. Allir þurfa að hjálpast að við að halda samfélaginu gangandi og allir verða að fylgja ákveðnum húsreglum til að skipulagið gangi upp.
Dröfn á afar erfitt með átta sig á öllum reglunum tilganginum með endalausu skipulagi í kringum alla hluti. Henni finnst ansi margt við lifnaðarhætti fólksins furðulegt og óþarflega flókið. Íbúarnir vilja samt meina að allt sé með besta móti í blokkinni og að allir séu sáttir við fyrirkomulagið, en Dröfn kemst fljótt að því að það er bara á yfirborðinu, undir niðri kraumar óánægja, að minnsta kosti hjá einhverjum íbúum. Þegar hlutir fara hverfa úr blokkinni fljótlega eftir að þau koma grunar Dröfn að einhver sé viljandi að eyðileggja fyrir hinum íbúunum. Fjölskylda hennar er eina aðkomufólkið og grunurinn beinist strax að þeim. Hún einsetur sér að komast til botns í málinu en það reynist bæði flókið og hættulegt.
Samfélaginu í blokkinni er lýst með augum Drafnar, sem finnst það í fyrstu bæði glatað og gamaldags en verður smám saman ljóst að sumt þar er kannski ekki svo slæmt. Andstæðurnar milli þess sem hún þekkir að heiman og þess samfélags sem hún kynnist eru áberandi og beina sjónum að neysluhyggju og sóun sem íbúar eyjunnar hafa mikla óbeit á. Dröfn fær öðruvísi sýn á margt sem hún hefur áður tekið sem gefnu, svo sem þegar hún lærir hversu mikla orku kostar að gera hluti sem heima hjá henni eru sjálfsagðir, eins og bara að baka eða elda á eldavél. Þó að það sé vissulega ömurlegt að vera án alls konar munaðar sem fjölskyldan er vön, Internets, sjónvarps og tölvuleikja, finnur Dröfn að það er stundum alveg ágætt að vera laus við allt áreitið sem fylgir tækninni og kröfum um að vera alltaf á fullu og eiga allt. Þannig fær hún sjálf nýja sýn á lífið og nær á sama tíma að hrista aðeins upp í fólkinu í blokkinni, kenna þeim að meta nýjar hugmyndir og taka breytingum af meiri æðruleysi en áður.
Hlutverk og skorður
Ljóðabókin Innræti kom út árið 2020 og er fyrsta ljóðabók Arndísar, en sama ár birtust auk þess tvö ljóð í Són - tímariti um óðfræði. Ljóðin í Innræti veita innsýn í hugsanir og hugarheim ljóðmælanda, konu sem veltir fyrir sér aðstæðum sínum og ólíkum hlutverkum í gegnum lífið. Tóninn í ljóðunum er ýmist írónískur eða angurvær, og þegar ljóðmælandinn leyfir sínum innstu hugsunum að flæða óheftum fram, jafnvel svolítið háðskur.
Umfjöllunarefni ljóðanna tengjast lífi ljóðmælandans og varpa ljósi á hugmyndir hennar um ýmsar hliðar á tilverunni; hún veltir fyrir sér fjölskyldu, börnum og heimili, samböndum og samskiptum en líka fortíðinni og framtíðinni, dauðanum, kyrrstöðu versus ferðalögum og þeim hlutverkum sem hafa mótað hana í gegnum lífið.
Í ljóðunum má greina ákveðna togstreitu innra með ljóðmælandanum, milli þeirra hlutverka sem henni eru ætluð og þeirrar persónu sem hún raunverulega er og vill vera. Þessi spenna verður strax ljós í fyrsta ljóðinu „Umönnun“ þar sem ljóðmælandi lýsir því hvernig hún annast um ytri birtingarmynd sína, af illri nauðsyn eins og má sjá í fyrstu línum ljóðsins,
Ég smeygi ólinni um hálsinn
og kippi harkalega í tauminnþað er ekki valkvætt að viðra sig
segi ég byrst
Ljóðmælandi er klofin og hennar innri, þaggaða kona sér til þess að líkaminn og andlitið út á við fái þá umönnun sem samfélagið gerir ráð fyrir og hagi auk þess sér skikkanlega. Ljóðið setur tóninn fyrir restina af bókinni, þar sem hlutskipti konunnar í nútímasamfélagi er til skoðunar og því er meðal annars ítrekað lýst hvernig ljóðmælandinn bælir niður ýmsar hugmyndir og hugsanir sem leita þó alltaf upp á yfirborðið. Í ljóðinu „Eðlið“ talar ljóðmælandi um að hún sé „mýld af siðmenningunni“, í „Ég tek pláss“ veltir hún fyrir sér þeim fjölda fólks sem hún skapraunar á hverjum degi og þvælist fyrir með því einu að vera til, og í ljóðinu „Taumhald“ bíður hún þess að hún ráði ekki lengur við sig og „hömlurnar bresti“. Önnur ljóð sem fjalla um útlit og væntingar sýna aðra hlið á sama efni, þar sem kemur fram áhersla á mikilvægi þess að vera ung og mjó, því það eina sem skiptir máli er að yfirborðið sé eins og það á að vera.
Eitt af mörgum hlutverkum sem ljóðmælandi veltir fyrir sér er móðurhlutverkið. Í ljóðunum þar sem það er til skoðunar er einnig að finna nokkra togstreitu, þar sem eftirsjá eftir liðinni tíð, samverustundum, fyrri hlutverkum og heimilum togast á við þörfina fyrir að vera einstaklingur. Þessu er lýst í „Kona fer að heiman“:
Ég varpa af mér hlutverkunum einu af öðru
Þegar ég bursta tennurnar: Móðir
Þegar ég helli vatninu út á tepokann: Dóttir
Þegar ég fleygi kápunni yfir axlirnar: Framkvæmdastjóri heimilisinsÞegar ég stíg upp í leigubílinn er ég ekki lengur konan þín
Í flugrútunni finn ég sjálfa mig vaxa inn í tómið
Í Leifsstöð rúmast ég varla við tveggja manna borð
Togstreitan í ljóðunum snýst að miklu leyti um hvernig kröfur og væntingar einhvers annars stjórna þeim skorðum sem ljóðmælandi finnur sig knúna til að setja sér. Þá er greinileg ádeila á grunnhyggni, útlits- og æskudýrkun, en má auk þess greina ákveðinn sjálfsgagnrýninn undirtón þar sem ljóðmælandi óskar þess að geta stigið út fyrir hlutverkin, og tekst það jafnvel stundum.
Óvenjulegt sjónarhorn
Nýjasta bók Arndísar, Bál tímans - örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár (2021), er söguleg skáldsaga fyrir börn og unglinga. Sagan er nokkuð óvenjuleg því hún er sögð frá sjónarhorni Möðruvallabókar sjálfrar og bókin er sjálf bæði sögumaður og aðalpersóna. Hún segir frá uppruna sínum og ýmsu því sem á daga hennar drífur í gegnum aldirnar, en sagan hefst við ritun hennar í kringum árið 1330. Frásögnin spannar svo sjö aldir, fram í nútímann og reyndar aðeins lengra fram í tímann því sögunni lýkur árið 2023 þegar verið er að koma Möðruvallabók fyrir í Húsi íslenskunnar, sem er þegar þetta er ritað ennþá í byggingu. Í bókinni er fléttað saman því sem vitað er með nokkurri vissu um sögu Möðruvallabókar og skáldskap sem er spunninn í kringum heimildirnar, bæði um bókina sjálfa og um þau tímabil sem sagan nær yfir.
Í upphafi sögunnar fylgjumst við með því þegar Möðruvallabók vaknar til lífsins og kemst til meðvitundar um tilveru sína. Hún lýsir því að hún hafi verið pöntuð af mætum höfðingja og hvernig skrifarar í klaustri á Íslandi fylla hana af merkilegum sögum. Á hillum klaustursins kynnist hún öðrum ritum, sem hún á svo eftir að rekast á í gegnum aldirnar á ferðalögum sínum milli heimila, landa og safna. Bókin dvelur í klaustrinu í nokkurn tíma eftir ritunina. Hún nýtur þess að vera lesin, að stytta fólki stundir, fræða og ekki síst að vera notuð til að kenna börnum lestur, en lýsir eftirsjá yfir því að hafa aldrei verið fullkláruð. Þegar Möðruvallabók er flutt úr klaustrinu hefjast ævintýri hennar fyrir alvöru, bókin segir frá því hvernig hún fer frá einum eiganda til annars, kynnist bæði frægu fólki úr Íslandssögunni og venjulegu fólki sem nýtur þess að lesa og hlýða á sögurnar í henni. Möðruvallabók er, eins og gefur að skilja, algerlega valdalaus hvað varðar örlög sín. Hún er upp á náð og miskunn eigenda sinna komin hverju sinni og þó að margir sem lesa hana beri virðingu fyrir henni og verndi hana, verður hún engu að síður fyrir ýmsu hnjaski í ferðalögum sínum. Hún kemst í hendurnar á skemmdarvargi og rétt sleppur frá því að lenda í sjónum, verður vitni að brunanum mikla í Kaupmannahöfn árið 1728 og horfir á eftir mörgum handritum, gömlum kunningjum, verða eldinum að bráð. Henni er svo komið fyrir á Árnasafni í Kaupmannahöfn og þó henni líki ágætlega að vera á safni sér hún eftir því að vera ekki lengur notuð til að kenna börnum að lesa.
Svaðilförum Möðruvallarbókar er ekki lokið þó hún sé komin á safn. Hún lendir aftur í háska þegar Bretar ráðast inn í Kaupmannahöfn árið 1807 en er bjargað naumlega. Eftir nokkuð rólegt tímabil fer hún svo í eitt langferðalagið enn, líklega það síðasta, þegar hún er send ásamt fleiri handritum frá Árnasafni í Kaupmannahöfn til Árnastofnunar í Reykjavík á áttunda áratug síðustu aldar. Þar er hún enn þann dag í dag á meðan hún bíður eftir því að lokið verði við byggingu Húss íslenskra fræða. Sigmundur B. Þorgeirsson myndskreytir bókina en myndirnar sýna það sem Möðruvallabók sér sjálf en líka umhverfi hennar og svipmyndir af fólki sem hún kynnist. Yfir myndunum er sögulegur blær og lesandinn fær þannig tilfinningu fyrir hverju tímabili sem fjallað er um.
Í frásögn Möðruvallabókar er fjallað um merka atburði í sögu hennar og gripið niður í ólík tímabil. Tóninn í sögunni er íhugull, bókin veltir fyrir sér örlögum sínum og annarra bóka sem hún kynnist í gegnum aldirnar, en líka afdrifum fólksins sem les hana eða hefur haft umsjón með henni á einhverjum tíma. Í lokin er hún orðin virðulegur og vitur öldungur, sem hefur upplifað og séð margt og snert líf margra.
Að lokum
Þægindaramminn og ýmis mörk eða skorður sem við setjum okkur eru til skoðunar í verkum Arndísar Þórarinsdóttur. Fjallað er um áhrif okkar á fólkið í kringum okkur og umhverfið, þau hlutverk sem við gegnum eða sem við erum sett í og framkomu okkar við aðra.
Í barnabókunum er skoðað hvernig persónur glíma við breyttan veruleika, svo sem að byrja í nýjum skóla, að kynnast nýju umhverfi eða fólki, sem er ólíkt þeim sjálfum og hefur önnur gildi og hugmyndir. Persónur lenda í óvæntum eða ókunnugum aðstæðum og þurfa að bregðast við á einhvern hátt, en með því að aðlaga sig og taka breytingum opnum hug læra þær eitthvað nýtt, bæði um sig sjálfar og um aðra. Í ljóðabókinni Innræti eru vangaveltur um hlutverk og tilgang í fyrirrúmi, um hvað ljóðmælandinn vill í raun og hvað hún telur sig knúna að gera til að standast væntingar samfélagsins og annarra. Fortíðarþrá og innri uppreisn ljóðmælandans gegn ríkjandi viðhorfum fléttast saman og kallast ljóðin þannig á við margt af því sem aðalpersónur í skáldsögum Arndísar glíma við. Ekki síst misjafnlega vel heppnaðar tilraunir til að passa inn, upplifun annarra á okkur, hver við erum og hvað við viljum í raun.
María Bjarkadóttir, mars 2021
Til þessara greinaskrifa hlaut Bókmenntavefurinn styrk frá
[[{"fid":"7581","view_mode":"default","fields":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Miðstöð íslenskra bókmennta","field_file_image_title_text[is][0][value]":false},"type":"media","field_deltas":{"2":{"format":"default","field_file_image_alt_text[is][0][value]":"Miðstöð íslenskra bókmennta","field_file_image_title_text[is][0][value]":false}},"attributes":{"alt":"Miðstöð íslenskra bókmennta","class":"media-element file-default","data-delta":"2"}}]]
Greinar
um einstök verk
játningar mjólkurfernuskálds
Helga Birgisdóttir: "Ljóð á mjólkurfernum og minnismiðum" (ritdómur)
Spássían, 2011 (2) bls. 34-35.
nærbuxnaverksmiðjan
María Bjarkadóttir: "Breytingar í brókarenda" (ritdómur)
Börn og menning, 2018; 33 (2): bls. 28-30
Verðlaun
Verðlaun og viðurkenningar
2023 - Fjöruverðlaunin : Kollhnís
2023 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkur : Kollhnís
2022 - Íslensku bókmenntaverðlaunin : Kollhnís
2021 - Vorvindaviðurkenning IBBY
2020 - Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka (ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur): Blokkin á heimsenda
2020 - Barnabókmenntaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur (ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur): Blokkin á heimsenda
2019 - Viðurkenning Ljóðstafs Jóns úr Vör
2016 - Viðurkenning Ljóðstafs Jóns úr Vör
2011 - Nýræktarstyrkur Bókmenntasjóðs
Tilnefningar
2023 - Íslensku bókmenntaverðlaunin : Mömmuskipti (meðhöfundur Hulda Sigrún Bjarnadóttir)
2023 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkur : Mömmuskipti (meðhöfundur Hulda Sigrún Bjarnadóttir)
2023 - Barna- og unglingabókaverðlaun Norðurlandaráðs : Kollhnís
2022 - Barna- og ungmennabókaverðlauna Norðurlandaráðs: Bál tímans : Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár (ásamt Sigmundi Breiðfjörð Þorgeirssyni myndhöfundar)
2022 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkur í flokki frumsaminna bóka á íslensku: Bál tímans : Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár
2021 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Bál tímans : Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár
2021 - Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaraðs (ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur): Blokkin á heimsenda
2021 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkur í flokki frumsaminna bóka á íslensku (ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur): Blokkin á heimsenda
2020 - Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki skáldverka: Innræti
2019 - Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka: Nærbuxnanjósnararnir
2012 - Norrænu barnabókaverðlaunin: Játningar mjólkurfernuskálds
Mömmuskipti
Lesa meiraLinda hefur alltaf verið frægari en hana langar. Samfélagsmiðladrottningin mamma hennar tjáir sig óspart um fjölskyldulífið á netinu og barnamynd af Lindu er þekkt um allan heim. Sjálf vill hún helst af öllu fá að vera í friði og æfa parkúr án þess að fólk fatti að hún sé klósettkrakkinn.. . En nú versnar í því! Mamma Lindu er einn af áhrifavöldunum sem keppa um pláss í raunveruleikaþættinum Mömmuskiptum. Barbara systir er æsispennt, pabba virðist standa á sama og enginn hlustar á hávær mótmæli Lindu. Ef allt fer á versta veg fá þau glænýja mömmu í heilan mánuð og heimsbyggðin mun fylgjast með!Kollhnís
Lesa meiraKleinan lítur út eins og marglitur broddgöltur þegar kökuskrautið stendur út úr henni.Bál tímans: Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár
Lesa meiraArfurinn
Lesa meiraNærbuxnavélmennið
Lesa meiraBlokkin á heimsenda
Lesa meiraInnræti
Lesa meiraGaldraskólinn
Lesa meira
Bjólfskviða: forynjurnar og fræðimennirnir
Lesa meiraHulduheimar: Álagahöllin
Lesa meira