Æviágrip
Kristín Eiríksdóttir fæddist árið 1981 í Reykjavík. Hún lauk B.A. prófi frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2005.
Fyrsta ljóðabók Kristínar, Kjötbærinn, kom út árið 2004. Áður höfðu ljóð hennar birst í tímaritum og dagblöðum. Á eftir fylgdu svo ljóðabækurnar Húðlit Auðnin árið 2006 og Annarskonar sæla árið 2008. Árið 2010 kom út smásagnasafnið Doris deyr og haustið 2012 sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, Hvítfeld – fjölskyldusaga. Fleiri skáldsögur fylgdu svo í kjölfarið. Hún hefur einnig samið leikrit, þar á meðal Karma fyrir fugla ásamt Kari Ósk Grétudóttur, sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu árið 2013 og Hystory sem sett var upp í Borgarleikhúsinu árið 2015.
Kristín hefur lagt stund á þýðingar, en árið 2010 kom út í hennar þýðingu bókin Hundshaus eftir danska rithöfundinn Morten Ramsland.
Auk þess að sinna ritstörfum hefur Kristín tekið þátt í samsýningum og sett upp gjörninga í samstarfi við Ingibjörgu Magnadóttur, bæði hér heima og erlendis. Sögur hennar og ljóð hafa verið þýdd á önnur mál, m.a. á dönsku, þýsku og ensku. Kristín hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir ljóðabókina KOK árið 2014, og Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna og Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt sem kom út árið 2017. Bókin Tól sem kom út 2022 var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs (2024)
Um höfund
Samskipti, sögur og gler: Kristín Eiríksdóttir
Ummyndanir myndmálsins
Táknin augljós. Standlampinn skíðlogar. Krydd þekur eldhúsgólf. Útvarpið kveikir á sjálfu sér og surgar. Loftljós blikka. Rafmagnið verður sýnilegt, örmjóir þræðir neons hlykkjast um herbergið. Ein smáauglýsingin í blaðinu er þrívíð:
Kjötbærinn óskar eftir eldsálum.
Svona hefst fyrsta bók Kristínar Eiríksdóttur, Kjötbærinn frá árinu 2004. Í bókinni er sögð einskonar saga í prósum, saga sem hefst á þessari auglýsingu. Sjónarhornið er ungrar stúlku, Kötu. Hana dreymir illa og til að reyna að sporna við þessu hefur kærastinn hennar, Kalvin, tekið niður öll þungarokksplakötin af veggjunum. Þó hún viti að þetta hafi engin áhrif á draumana þá er hún fegin því hún var „orðin hundleið á öllum innyflunum, blóðinu, útglenntu konunum og táknmyndum dauðans“ (13). Þó er hugur hennar fanginn af kjöti, nánar tiltekið fyrrnefndri auglýsingu frá Kjötbænum. Prósarnir lýsa síðan brotum úr lífi þessa unga fólks, Kata er föl af inniveru og upptekin af jakuxum, en snemma í bókinni er prósi sem lýsir henni á baki jakuxa sem reikar um slétturnar í leit að hjörð. Ekki er ljóst hvort þetta er draumur, eða hvort draumurinn sé kannski auglýsingin. Í það heila lýsa prósarnir heimi sem er alldraumkenndur og mætti jafnvel tengja súrrealisma, ekki síst þar sem sumar lýsingar snúast upp í ofurraunsæi. Bókmenntafræðingurinn Anna Balakian sem greindi ljóð súrrealista segir táknheim súrrealískra ljóða einkennast af því að hafna einfaldri merkingu. Að þessu leyti minna þau á völundarhús, því máttur þeirra til að trufla felst í því að þau „vísa í ólíkar áttir á sama tíma“ (Balakian 1986, 19).
Súrrealistar voru hrifnir af hrollvekjum og í ljóðum Kristínar má oft finna hrollvekjandi ævintýri sem drifin eru af myndmálinu sjálfu sem ummyndast stöðugt. Kristín var á þessum tíma að læra myndlist í Listaháskóla Íslands og það sem einkennir verkið er tilfinning fyrir spuna í myndmáli, hvernig það tekst á flug og skapar sér eigin heim. Þessi heimur kemur vel fram í lýsingum á Kjötbænum: „Sjálft kjöthúsið er afskekkt, stoðirnar úr beinum veggir úr rjóðu kjöti. Frá húsinu vætla blóðlækir, það andar, belgist út og dregst saman“ (34).
Hér er myndmálið tekið bókstaflega og því fylgt eftir. Þetta kemur líka vel fram í síðasta prósanum, en þar er Kata endanlega horfin inn í þann heim sem myndmálið hefur skapað: „Sjóndeildarhringurinn byrjar að bólgna” og svo skýst blóðköggull
uppúr jörðinni og tekur svo á sig mynd lítillar ófreskju sem skelfur eins og hlaup í roki, opnar munninn og litlar beittar tennur koma í ljós. Allt verður rauðleitt og bólgan í sjóndeildarhringnum nálgast hraðar, verður þéttari. Blóðskrímslið verður að polli. Bólgan umlykur mig verður að fjórum veggjum, lofti og gólfi.
Hún heyrir hófatak og þar er jakuxinn kominn aftur: „Áður en ég veit af sit ég á baki hans dæmd til að æða með honum um óendanleikann að eilífu“ (42).
Þessi leikur með myndmál er í ætt við framúrstefnu og módernisma, enda tengdist Kristín grasrótarhópnum Nýhil sem var dæmi um þá stöðugu endurvinnslu sem framúrstefnan hefur gengið í allt frá blómatímum sínum á fyrstu áratugum síðustu aldar.
Nálgun Kristínar á prósaljóðið er fersk og kraftmikil og bókin er í það heila sérlega öflugt byrjendaverk sem hefur elst vel. Þess má geta að hún er dóttir skáldkonunnar Ingibjargar Haraldsdóttur og því ekki úr vegi að ætla að ljóðið hafi verið henni nærtækt.
Tveimur árum síðar fylgdi Kristín Kjötbænum eftir með annarri prósaljóðabók. Húðlit auðnin var ein af fimm bókum gefnum út af Nýhil þetta ár undir yfirskriftinni Norrænar bókmenntir II. [Sjá umfjöllun Úlfhildar um flokkinn hér á vefnum.] Þó bókasyrpuna megi flokka með ljóðum, þá lögðu höfundar töluvert á sig til að teygja það form og toga. Í pistlum sínum um bókaflokkinn, sem fluttir voru í Víðsjá sumarið 2006, tengir Benedikt Hjartarson bókmenntafræðingur bækurnar við framúrstefnu og ræðir útfrá nýbreytni og endurvinnslu. Niðurstaða hans er sú að þrátt fyrir að fátt sé endilega spánnýtt í þessum bókum þá þýði það ekki endilega að allt þeirra starf sé dautt og ómerkt, því í endurvinnslunni felist sköpunarkraftur.
Kristín Eiríksdóttir á minnsta kverið af þessum fimm. Áhrif súrrealismans eru sérlega áberandi hér en í Húðlitri auðninni er sögð einskonar saga af konu sem virðist búa í stóru húsi fjarri mannabyggðum. Allavega þarf maðurinn hennar að ferðast með þyrlu til og frá húsinu, en þó virðist súpermarkaðurinn ekki svo fjarri – en það er kannski bara blákaldur veruleiki að súpermarkaður sé aldrei fjarri. Ýmis minni birtast, húsið er kallað höll og íbúarnir bera húðlitar kórónur. Í kjölfar þessa ævintýrayfirbragðs kemur snertur af spennusögu þegar ljóðmælandi dregur upp „mjög nákvæma innbrotsáætlun fyrir demantsþjóf“. Andi hrollvekjunnar gengur þarna ljósum logum líkt og um Kjötbæinn og sömuleiðis er nóg af erótík, en báðar bækurnar einkennast af tilfinningu fyrir holdleika líkamans.
Líkt og í Kjötbænum bera ljóðin með sér andrúmsloft ofskynjunar, sem Balakian nefnir einmitt sem einkenni súrrealískra ljóða. Sem fyrr er myndmálið áhrifamikið og tekur á sig sjálfstætt líf. Draumkennt yfirbragð og síendurtekin stef skapa sterka nærveru. Eitt þessara stefja er hiti og eldur, en húsið eða höllin virðist staðsett í eyðimörk:
Við sitjum á plaststólum með sinn hvorn kokteilinn og horfum á höllina skreytta með eldi. Á himninum skín sólin skæru í miðjunni. Niður líkama þinn lekur efsta lag húðarinnar og svo lag fyrir lag. Þú ert að bráðna. Á endanum er ekkert eftir nema beinhvít undirstaða þín, þá sting í fingrum mínum á milli gagnaugabeinanna og þukla innviði höfuðs þíns. Finn agnarsmáan holdsveikan indjána sem ég sleppi lausum. (25)
Við fyrstu sýn mætti ætla að höllin væri að brenna, en svo er ekki því hún er enn standandi tveimur síðum síðar. Sömuleiðis er bráðnunin ekki varanleg, en á næstu síðu fer maðurinn með konuna í súpermarkaðinn. Hann setur á hana hálsól og hún getur ekki stillt sig um að spangóla. Þannig birtist líkamleg sundrung stöðugt sem tilfallandi og afturkræf.
Kjötbærinn og Húðlit auðnin fjalla báðar að einhverju leyti um samskipti pars eða hjóna. Samskiptin einkennast af átökum sem endurspeglast í myndmáli óhugnaðar, þó það sé of mikil einföldun að túlka hið ævintýralega andrúmsloft sem einfaldar myndlíkingar fyrir margslungna togstreitu sambands og samskipta. Þetta þema ‚ásta samlyndra hjóna‘ er enn meira áberandi í þriðju bók Kristínar, ljóðabókinni Annarskonar sæla (2008). Sem fyrr er Kristín að föndra við form ljóðsins en þó ekki á eins róttækan hátt og fyrr; hér birtast textar sem í útliti líkjast meira því sem hefð er fyrir að kalla (nútíma)ljóð.
Ljóðabókin inniheldur fjögur ljóð, eða fjóra ljóðabálka. Í þeim fyrsta, „Leiðin“, erum við stödd erlendis, þar ferðast ljóðmælandi um í sporvögnum og hugsar um tilveruna, tímann, dauðann, fegurð og vax, svo dæmi séu tekin. Erindin enda flest á orðunum „annarskonar sæla / hvernig“ og vitna þannig um leit að einhverskonar samhengi eða tilgangi, eða bara tilfinningu. Ljóðlínan flakkar strítt milli ólíkra atriða sem á stundum mynda heillega mynd eins og í erindinu um ljósið, sem:
brýst gegnum smæstu rifur
um rafmagnið
sem leitt er um snúrur úr járni og gúmmíi
og taugar
ég hugsaði um taugar sem slengjast saman af vana
orsaka vellíðan hungur
þrá eftir ákveðnu formi bragði
ég hugsaði um sellur sem eyðast
sársauka
deyfingu verkjalyf vöðvaslakandi
En það er alls ekki alltaf sem slík samfella myndmáls myndast, á stundum sundrast myndin og ferðast víða og óreglulega. Í báðum tilfellum skapast sterk áhrif og líkt og í fyrri bókum höfundar skapast rík tilfinning fyrir undirliggjandi ólgu.
Ólgan er sömuleiðis til staðar í hinum þremur ljóðunum, en þó hvergi eins sterk. Í næsta ljóði, „Ástin og eilífðin“, erum við stödd á Íslandi og hversdagsleiki hins borgaralega lífs er yfirgnæfandi og þrúgandi eins og kemur fram í ljóðlínunni: „Grensásvegurinn leiðir til heljar“. Þriðja ljóðið nefnist „Kynlíf og dauði“ og þar fer að bera á sterkari pólitískum tónum sem síðan taka mikið til yfir í síðasta ljóðinu, „Stóri hvíti maður“, en þar gefur fyrirsögnin viðfangsefnið greinilega til kynna.
Sem fyrr eru ljóð Kristínar fersk, sterk og næstum skerandi þegar best lætur, teiknuð lausum rásandi og lifandi línum sem skapa stöðugt tilfinningu fyrir því að smeigja sér undan fingrum lesandans sem kannski er líkt farið með og parinu í „Ástinni og eilífðinni“:
þráum morð
heit lík og
eitthvað
sem við skiljum ekki
Umbrot bókarinnar, myndefni og framsetning er allóvenjuleg, á bókarkápu er að finna mergð leturs, setningabrota, orða, orðaflæðis og bulls innan um það sem virðist vel geta verið brot úr ljóðum. Ofan á þessum marglita fleti orða er mynd af hestum sem kannski eru þeir sem lýst er í einu ljóðinu: „yfir rúminu hangir mynd af hestum / þeir hlaupa í vatni / einhversstaðar í myndinni eru göng / þau leiða annað“. Seinna birtast hestarnir aftur þegar ljóðmælandi „leggst á hjónarúmið / leita að útgönguleið / glampa í auga hestsins“.
Hér má sjá hvernig myndlistakonan tengir saman myndmál í myndum og textum. Kristín á einnig þátt í velheppnuðu útliti bókaflokksins Norrænar bókmenntir en hún gerir kápumyndir í félagi við Örvar Þóreyjarson Smárason. Þó Húðlit auðnin sé ekki að öðru leyti myndskreytt inniheldur Kjötbærinn myndir eftir höfund sem takast á við textann og auka á það andrúmsloft innilokunar og óhugnaðar sem einkennir verkið.
Í fjórðu ljóðabók sinni KOK (2014) er enn meira um myndir, en eins og Vera Knútsdóttir bókmenntafræðingur segir í umfjöllun sinni hér á vefnum er „KOK […] á mörkum þess að vera ljóðabók og listaverk.” Vera bendir á að brot bókarinnar sé óvenjulega stórt og bæði það og annað í framsetningu og kynningu á verkinu gefi til kynna að KOK sé ekki einungis ljóðabók. Það er auðvelt að taka undir þessi orð Veru og líta á KOK sem einskonar bókverk. Sem slíkt er það fullkomlega eðlilegt framhald af fyrri ljóðabókum Kristínar, sem eins og áður segir einkennast af sérstökum spuna myndmáls, sem iðulega er í samtali við myndlýsingar og kápuhönnun bókanna. Myndirnar eru vatnslitamyndir í bland við teikningar, þær eru allar svarthvítar utan myndin á baksíðu bókarinnar og á stöku stað fylgja þeim ljóðlínur.
Hinar mjúku útlínur vatnslitanna skapa bókinni meiri kyrrð en finna má í fyrri ljóðabókum Kristínar og ljóðin eru sömuleiðis stilltari og agaðari. Í fyrri bókunum er ofgnótt af myndmáli sem eins og fyrr segir virkar eins og aflvaki í sjálfu sér, en í KOKI er búið að tálga myndirnar meira til, áhersla er á endurtekningar sem gefa tilfinningu fyrir takti, ekki síst í samspili við myndirnar.
Greina má samfelldan þráð, líkt og í fyrstu bókunum tveimur og einnig er þarna fjallað um samband. Fyrir miðju verksins er gler notað sem myndlíking samskiptanna:
við söfnum míniatúrum úr gleri
hreyfum okkur eftir kerfi
rífumst sjaldnar en flestir
en þegar það gerist
þegar það gerist
gerist
agnarsmáum dýrum úr glerihendurnar úr gleri
kynfærin úr gleri
fötin úr gleri
áform okkar úr gleri
loforðin draumarnir
gæludýrin úr gleri
ásjóna hvors annars úr speglagleri
og við blásum litlar lygar út í gleri
litlar tilgangslausar lygar út í gleri
Hér má glöggt sjá hvernig Kristín bæði heldur fyrri einkennum vinnu sinnar við myndmál, þar sem myndum er fylgt eftir, og hvernig þetta tekur á sig nýtt form í öllu hefðbundnara ljóði, sem býr þó yfir sama krafti og ferskleika og fyrri ljóð hennar. Táknmyndirnar eru ljósari – hið brothætta og speglunin – og furðurnar ekki eins ýktar, en tilfinningin fyrir hinu ævintýralega er enn til staðar.
Á stundum má sjá bregða fyrir súrrealískum myndum eins og í upphafi bókarinnar þar sem lýst er upphafi sambandsins:
ég gaf þér gosbrunn
og kúlu
fyrir haus
og haus
og ég reytti gras
og ég reif upp tré
óf öskubakka úr stráum
með grímuna frá þératómsvepp og afhöggna
grænhærða hausa
og neglur sem klofna og
staðinn reyk
Ein endurtekningin gengur út á að klæða úr og í. Fyrsta ljóðið lýsir því hvernig ‚ég‘ klæði ‚þig‘ úr svörtum jakka, nema að innanundir jakkanum er annar og svo áfram. Hér er enn á ný táknmynd samskipta í sambandi sem síðan er útfærð frekar í síðasta hluta bókarinnar en þar fara fram fjölbreytileg klæðskipti:
og við klæðum okkur í ykkur
og þið
klæðið okkur úr aftur
og við
klæðum ykkur í okkur
og þið
klæðið ykkur úr aftur
og þið
klæðið okkur í ykkur
og við
klæðum okkur úr aftur
Og þannig áfram. Hér hefur þema sambandsins verið stækkað til að ná yfir samskipti almennt og sömuleiðis hefur lesandinn sjálfur blandast inn í málið. Ljóðið er það form bókmennta sem iðulega hefur þótt hvað persónulegast og hér ávarpar Kristín lesendur sína og býðum þeim að klæða sig í þær tilfinningar sem bókin lýsir. Jafnframt opnar hún á vangaveltur milli lesenda og höfundar og (túlkunar)ferli lestursins, sem felst einmitt í því að fletta sig í gegnum myndir, klæða þær úr og í merkingu og máta sig við þær, klæðast í og úr persónum. Loks má sjá hér tilvísun í samspil mynda og texta, hvernig myndmálið flakkar frjálslega á milli og tekur hamskiptum í leiðinni.
Sagðar sögur
Samskipti fólks eru enn á ný til umfjöllunar í smásagnasafninu Doris deyr sem kom út árið 2010. Öfugt við þá nánd sem ljóðið skapar einkennast smásögurnar í Doris deyr þó af ákveðinni fjarlægð. Titilsagan er gott dæmi um þetta, en þar fær sögumaður símtal með tilkynningu um að Doris sé dáin. Hann rifjar upp vinskap þeirra en þau ferðuðust saman um Evrópu fyrir nokkrum árum. Félagsskapurinn hentaði báðum vel en þó var aldrei um neitt ástarsamband að ræða, þau halda vandlega fjarlægð hvort frá öðru en í fyrsta skiptið sem þau snertast segir Doris: „Eins og að snerta sjálfan sig“ (82). Þannig virðist sem þau séu á einhvern hátt tengd nánum böndum, en þekkjist samt í raun alls ekki, enda missa þau sambandið þegar þau fara hvort í sína áttina. Sögumaður getur ómögulega munað nokkuð um hana sem getur gefið honum möguleika á að grennslast frekar fyrir um líf hennar eða dauða. Því mætti segja að hér megi finna einhverskonar samspil eða togstreitu nándar og fjarlægðar.
Smásagnasafnið Doris deyr er nokkuð mikið frábrugðið ljóðabókum Kristínar, en frásagnarmátinn er allur hefðbundnari og lítið er um óróleika tilrauna með texta. Verkið markar þannig nýtt upphaf, eða skil, í ferli höfundarins, en slíkt er einmitt ekki óalgengt meðal höfunda sem byrja á samskonar nótum og Kristín. Bækur á þessum tímapunkti markast því oft af því að vera ‚leitandi‘, svo notaður sé frasi, þær virka dálítið eins og millistig, eða tengiflug, frá einum stað til annars á leið höfundarins.
Sögurnar láta flestar lítið yfir sér, í þeim er einblínt á það sem virðast vera smávægileg atvik en taka á sig aukið vægi, alveg eins og hefð smásagnaformsins segir til um. Þannig koma þær á einkennilegan hátt óþægilega við lesanda, en þessi ókennileiki er einmitt eitt helsta einkenni vera Kristínar. Heildarsvipurinn er raunsær en á einstaka stað stingur súrrealisminn sér niður, þar mætti nefna söguna „Þrjár hurðir“. Eins og áður segir birtist fjarlægðin á margvíslegan hátt, allt frá því að vera grimm og köld yfir í hið andstæða, þar sem hún dregur persónurnar nær hver annarri á einhvern undarlegan hátt. Það síðarnefnda kemur kannski einna best fram í síðustu sögunni, „Holur í menn“, en þar hverfur fjölskyldufaðirinn skyndilega og án útskýringa. Börn hans finna í gegnum lífsleiðina ýmis konar vísbendingar um hvarfið og dvalarstað föðurins, sem endar svo með því að lík hans finnst og þrátt fyrir ólík lífshlaup deila systkinin skyndilega fullkomnum skilningi. Titill sögunnar gæti vísað til enska ljóðsins „The Hollow Men“ eftir T.S. Eliot, með tilheyrandi tilfinningu fyrir tilgangsleysi, en ‚holir menn‘ leynast reyndar víðar í sögum Kristínar.
Sagan um safnarann, „Staðsetja, útvega, flokka, raða og varðveita“ er til dæmis magnað dæmi um vinnu með (tilgangslaus) smáatriði, en þar lýsir sögukonan því hvar hún var þegar Suðurlandsskjálftarnir gengu yfir árið 2000. Í fyrra skiptið var hún stödd í búningsklefa elliheimilisins Grundar og í síðara skiptið er hún í heimsókn hjá sérkennilegum pilti sem hún hefur óvænt kynnst, en hefur fyrst og fremst áhuga á að nýta sem efnivið í skemmtisögur handa vinum sínum. Hann er safnari og safnar ótrúlegustu hlutum að því er virðist til að koma einhverskonar reglu á líf sitt, eða jafnvel heiminn allan: „Mig vantar alltaf eitthvað“ segir hann, „það er stöðugt ástand, frá því ég vakna og þangað til ég sofna“ (31). Hann er því greinilega holur maður, söfnunin uppfyllir eitthvað sem hann þráir en nær samt aldrei að fanga. Meðal annars safnar hann beinagrindum dýra sem hann geymir vandlega flokkaðar í kössum og boxum, en allt þetta fer á skrið þegar jörðin skelfur.
Þessi saga er dæmi um tök Kristínar á því sem kalla mætti ofurraunsæi í bland við gróteska undirtóna, en slíkir finnast víðar og bera iðulega með sér tilfinningu fyrir grimmd og tilgangsleysi. Þó er ástin líka til staðar, en safnarasagan er öðrum þræði falleg ástarsaga. Sögurnar spanna því breiðan tilfinningaskala jafnframt því að bera með sér þetta heildaryfirbragð átakanlegrar fjarlægðar.
Fjarlægðin er margvísleg í skáldsögunni Hvítfeld, en þar er það ekki síst fjarlægð aðalsöguhetjunnar frá sjálfri sér sem ræður ríkjum. Hvítfeld ber undirtitilinn Fjölskyldusaga og sver sig þannig í ætt við afar algengt þema í íslenskum bókmenntum og æviskrifum, sem er einmitt fjölskyldan og fjölskyldutengsl.
Sagan er sögð í fyrstu persónu Jennu sem er búsett í Bandaríkjunum og gerir allt sem hún getur til að slíta tengsl við fjölskyldu sína á Íslandi. Þegar yngri systir hennar deyr neyðist hún til að koma heim en fer aftur utan eftir stutt stopp. Stuttu síðar fær mamma hennar áfall og þá verður hún aftur að koma til Íslands og að þessu sinni verður heimsóknin lengri.
Í þessum tveimur Íslandsferðum gengur Jenna í gegnum ákveðið uppgjör, bæði við sjálfa sig og fjölskyldu sína. Í ljós kemur að hún er lygasjúk og lítið sem ekkert af því sem hún segir af sínum högum í Bandaríkjunum er satt. Lygarnar byrja snemma en þegar Jenna er unglingur finnst henni hún þurfa að hressa upp á líf sitt með því að ýkja svolítið og þannig verða til æ flóknari lygavefir um frábæran árangur í eðlisfræðinámi, geimferðaþjálfun, forríka eiginmenn og vændi.
Snemma í sögunni lýsir Jenna því hvernig hún uppgötvaði hvað Ísland væri lítið og heimurinn stór og ákvað þá að fara burt: „Plottið í mínu lífi átti að vera stórbrotið, flókið og erlendis“ (10). Stuttu seinna talar hún um að segja fjölskyldu sinni ekki frá skilnaðinum við einn ríka eiginmanninn, „af því litla sem maður réð sjálfur í þessu lífi hlaut eitt af því að mega vera ævintýrið sem aðrir fylgjast með úr fjarska“ (15).
Inni á milli þessara frásagna koma svo sögur af fjölskyldumeðlimum, þ.á.m. móðurinni sem elst upp við allsérstæðar aðstæður hjá foreldrum sínum, sem eru sjúklegir safnarar, föðurnum sem kemur úr ákaflega fínni og ríkri fjölskyldu, Hvítfeld, en nafnið ber með sér sögu forföður sem felldi ísbjörn einn síns liðs. Sögurnar af fjölskyldunni eru því allskrautlegar öfugt við það hversdagslega líf sem Jenna reynist lifa (nema það sé enn ein lygin?) og eru að auki fullar af leyndarmálum: „Fjölskyldan okkar er svolítið eins og felumynd, eins og eitthvað vanti í myndina“ (160) segir frænka Jennu við hana þegar þær setjast niður og ræða lygar Jennu. Jennu er létt við að hafa komið upp um blekkingarnar og segist sjálf ekki vita „hvað er satt og hvað ekki“ (161), en stenst svo ekki mátið að snúa eigin lygasýki upp í samfélagslega líkingu um það hvernig allir séu alltaf að ljúga að sjálfum sér.
Fyrr í sögunni er hrunið nefnt og eins og Vera Knútsdóttir bendir á í umfjöllun sinni hér á vefnum þá felst ein lygasagan þar: „á einum stað er þessi lygasýki tengd mjög bersýnilega við lygavefi, afneitun og sýndarveruleika sem að lokum leiða til hruns heils hagkerfis og samfélags. Það er því augljóst að Hvítfeld er að vissu leyti skrifuð sem viðbragð við vissu samfélagsástandi í samtímanum.“
Skáldsagan fjallar því öðrum þræði um mörk lyga og sannleika þegar fólk segir sína eigin sögu og sögu fjölskyldu sinnar, en eins og Gunnþórunn Guðmundsdóttir bókmenntafræðingur hefur fjallað um einkennast öll æviskrif af átökum við þessi mörk. Hvað man fólk og hvernig, hverju hefur það gleymt og hversvegna og hvernig velur fólk að færa eigin sögu í form? Hvernig verður þetta atvik að sögu og hvaða útgáfu af sögunni velur viðkomandi að segja? Segja má að Kristín færi þessar spurningar inn í form skáldsögunnar og minni jafnframt á að skáldskapur sé alltaf lygi – jafnframt því að vera auðvitað alltaf sannleikur þess verks sem lygin finnur sig í.
Líkt og í smásögunum einkennist verkið af átökum milli fjarlægðar – eða fjarlægingar – og tengsla, nálægðar. Eins og Vera bendir á gengur hluti af þessari fjarlægð út á hlutgervingu kvenlíkamans og ofbeldi gegn konum sem á sér margar birtingarmyndir í verkinu. Þessi fjarlægð og hlutgerving, sem á stundum hverfist í ósýnileika, á sér svo andstæður í örvæntingarfullum og vonlausum ástum og ástarævintýrum, eða draumum um ástarævintýri.
Prósaverk Kristínar eru bæði ólík og lík ljóðunum. Sameiginleg einkenni má sjá í samskiptaþemanu sem finna má í öllum verkunum, en á meðan ljóðin einkennast af súrrealískum augnablikum, fantasíu og hryllingi eru prósaverkin á mjög raunsæjum nótum.
Leikrit
Kristín Eiríksdóttir hefur einnig getið sér gott orð sem leikskáld. Hún hefur samið verkin Karma fyrir fugla (með Kari Ósk Grétudóttur) sem var flutt í Þjóðleikhúsinu og Skríddu sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu. Bæði verkin eru frá árinu 2013. Bæði leikritin bera nokkur ummerki þess súrrealíska andrúmsloft sem einkennir fyrstu ljóðabækurnar og eru í ætt við absúrd leikhús. Það sem í fyrstu virðist nokkuð hefðbundnar aðstæður leysast hægt og rólega upp í æ furðulegri samskipti, þrungin óhugnaði og valdabaráttu. Í Skríddu er par að ræða aðskilnað, í ljós kemur að maðurinn hefur ekki farið út úr húsi lengi og að nágranni þeirra lokkar til sín ungar stúlkur sem svo hverfa. Það skapast þarna eitthvað ógnarjafnvægi og ekki virðist ólíklegt að skyldleiki sé milli nágrannans og mannsins. Ört hrakandi samskipti birtast einnig í Karma fyrir fugla. Persónur eru fjölskylda, hvert hlutverk er á einhvern hátt dæmigert eða stereótýpískt. Dóttirin er að gifta sig, en foreldrarnir hafa illa efni á brúðkaupinu. Eftir því sem á líður verður hjónabandið æ óhugnanlegra, svo og samband foreldranna og dótturinnar. Inn í þetta kemur efnahagshrunið og ljóst að valdaátökin og valdníðslan er að einhverju leyti táknræn fyrir það.
Þriðja leikritið, Hystory, var einnig sýnt í Borgarleikhúsinu og gefið út á bók árið 2015. Þar hittast þrjár ólíkar konur í fyrsta sinn eftir mörg ár, en þær höfðu verið bestu vinkonur í skóla. Ein þeirra hefur misst tökin á lífinu, er atvinnulaus og illa farin af drykkju. Önnur er menntuð sem félagsfræðingur og kennir við Háskóla Íslands og sú þriðja er þarna mitt á milli, ómenntuð en með vinnu í móttöku og er tveggja barna móðir. Flakkað er fram og til baka í tíma og konurnar sýndar ýmist sem fullorðnar eða börn og unglingar og fljótlega verður ljóst að það er trámatískt atvik úr lífi þeirra sem sameinar þær, atvik þar sem þær eru sjálfar gerendurnir. Líkt og í Hvítfeld er verið að fjalla um markalínu lygi og sannleika, en jafnframt um sekt, sektarkennd og afleiðingar þessa. Líkt og Jenna hafa konurnar fyrst og fremst logið að sjálfum sér og um sjálfar sig og tekist þannig á við sektina með mismunandi hætti.
Leikverkin bera mun meiri ummerki vangaveltna um stöðu konunnar en finna má í ljóðunum og prósaverkunum. Einnig mætti segja að leikverkin dragi skýrar fram undirliggjandi ádeilu á kvenhlutverk í öðrum verkum Kristínar og þannig eru þau áhugavert dæmi um hvernig höfundarverk getur verið lagskipt. Með því að lesa höfundarverk í heild kemur ljóslega fram að þó hvert stakt verk sé sjálfstætt og áhugavert sem slíkt þá gefur samspil þeirra nýja sýn, bæði á einstök verk og höfundarverkið í heild.
Úlfhildur Dagsdóttir, apríl 2017
Heimildir
Balakian, Anna, Surrealism: The Road to the Absolute, Chicago og London, University of Chicago Press 1986 (1959)
Greinar
Almenn umfjöllun
Haukur Ingvarsson: „Ég hef þörf fyrir að jagast í raunveruleikanum...“ (viðtal)
Tímarit Máls og menningar, 72. árg., 2. tbl. 2011, s. 92-106
Kristín Ómarsdóttir: „Hnefi beitir heiðarlegra ofbeldi“ (viðtal)
Tímarit Máls og menningar, 78. árg. 4. tbl., 2017, s. 9-28
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir: „Kjötbær Kristínar“ (viðtal)
Vera, 23. árg., 4. tbl. 2004, s. 30-34
Um einstök verk
Doris deyr
Rúnar Helgi Vignisson: „Smáfuglar fagrir: staldrað við nokkrar smásögur frá liðnum árum“
Spássían 2011, 2. árg., vetur, bls. 36-9
Úlfhildur Dagsdóttir: „Fjarlægð nálægð“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Annarskonar sæla
Hjalti Snær Ægisson: „Kristín Eiríksdóttir: Annarskonar sæla“
Ritdómur, fluttur í útvarpsþættinum Víðsjá á Rás 1, 30. október 2008
Elín, ýmislegt
Maríanna Clara Lúthersdóttir: „Efni og áferð manneskjunnar“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 79. árg., 2. tbl. 2018, s. 124-128
Vera Knútsdóttir: „Elín, ýmislegt“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Húðlit auðnin
Emil Hjörvar Petersen: „Mannfugl og fílabeinsturn: konan í undraveröld“
Tímarit Máls og menningar, 68. árg., 3. tbl. 2007, s. 58-63
Hvítfeld: fjölskyldusaga
Guðrún Lára Pétursdóttir: „Úps, ég gerði það aftur : um óáreiðanleika og samlíðan í Hvítfeld eftir Kristínu Eiríksdóttur“
Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 195. árg., vor 2021, s. 203-221
Hildur Ýr Ísberg: „Heiðarleiki eftir hentugleikum“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2013, 74. árg., 4. tbl. bls. 132-5
Vera Knútsdóttir: „Ókennileiki fjölskyldunnar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Karma fyrir fugla
Þorgeir Tryggvason: „Tvíeggjað sverð dystópíunnar“ (leikdómur)
Spássían 2013, 4. árg., vor/sumar, bls. 62
Kjötbærinn
Sigríður Albertsdóttir: „Hugur í flækjubendu“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 2. tbl. 2005, s. 107-108
KOK
Vera Knútsdóttir: „Taka tvö / ljóðlist og myndlist“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Tól
Þorsteinn Vilhjálmsson: „Tól með sál“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 84. árg., 1. tbl. 2023, s.112-115
Verðlaun
2018 – Fjöruverðlaunin: Elín, ýmislegt
2017 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Elín, ýmislegt
2014 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: KOK
Tilnefningar
2024 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Tól
2023 - Fjöruverðlaunin: Tól
2022 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Tól
2020 - Maístjarnan: Kærastinn er rjóður
2017 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Elín, ýmislegt
2015 – Menningarverðlaun DV í leiklist: Hystory
2014 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: KOK
2013 – Fjöruverðlaunin: Hvítfeld – fjölskyldusaga
Tól
Lesa meiraKvikmyndagerðarkonan Villa Dúadóttir situr fyrir svörum á heimildamyndahátíð í Stokkhólmi en spurningarnar vefjast fyrir henni.A Fist or a Heart
Lesa meiraElin, diverse
Lesa meiraKærastinn er rjóður
Lesa meiraElín, ýmislegt
Lesa meiraHystory
Lesa meiraKok
Lesa meiraKarma fyrir fugla
Lesa meiraSkríddu
Lesa meira
Birtan í húminu: ljóðaþýðingar
Lesa meiraHundshaus
Lesa meira