Æviágrip
Þórarinn Leifsson fæddist í Reykjavík þann 29. júlí 1966. Hann stundaði myndlistarnám við Listaháskóla Íslands á árunum 1984-1989, á því tímabili gerðist hann einnig götulistmálari í Evrópu. Eftir útskrift starfaði hann við myndskreytingar og vefhönnun. Hann hefur myndskreytt bækur, bókakápur og blaðagreinar. Meðal verka hans eru myndskreytingar við röð ævintýra eftir H.C. Andersen sem kom út víða á Norðurlöndum. Hann hefur einnig skrifað nokkrar léttlestrarbækur fyrir Námsgagnastofnun og fleiri menntastofnanir.
Þórarinn þreytti frumraun sína sem rithöfundur með barnasögunni Algjört frelsi (2001) sem hann skrifaði með eiginkonu sinni, Auði Jónsdóttur. Fyrsta skáldsaga hans handa börnum, Leyndarmálið hans pabba, kom út árið 2007. Hún hefur verið þýdd og gefin út í Þýskalandi, Danmörku og Finnlandi. Bókasafn ömmu Huldar kom síðan út árið 2009. Fyrir hana hlaut Þórarinn Barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur sama ár. Bókin var gefin út á dönsku haustið 2010.
Þórarinn Leifsson býr í Reykjavík. Hann á tvö börn.
Mynd af höfundi: Albin Olsson (CC BY 3.0)
Forlag: Mál og menning.
Frá höfundi
Frá Þórarni Leifssyni
(Hugleiðing í tilefni af Barnabókaverðlaunum Menntaráðs Reykjavíkur)
Enginn ætlar sé í raun og veru að verða rithöfundur. Það gerist bara. Ég ætlaði mér aldrei að verða rithöfundur þótt ég hafi alist upp á menningarheimili þar sem popptónlist var bönnuð nema þegar faðir minn fékk sér í glas á stórhátíðum og kom út úr skápnum sem trylltur Stóns aðdáandi.
Systkini mín æfðu sig á torkennileg hljóðfæri bak við luktar dyr, átján klukkustundir á dag. Einu sinni sigaði nágranninn á okkur lögreglunni. Hann hélt því fram að skelfileg óhljóð bærust frá íbúðinni og sést hefði til barns sem ráfaði á milli herbergja með riffil í fanginu. Faðir minn hafði nefnilega gefið mér loftriffil í jólagjöf.
Þar sem ég var yngsta barnið af þremur og flestir sjóðir á þrotum þegar kom að mér slapp ég við að þurfa að læra á hljóðfæri og þurfa að hlýta reglum sem oftast eru kenndar við vestræna siðmenningu og kurteisi. Þegar ég var orðinn nær óviðráðanlegur af frekju var ég sendur í sveit svo ég gæti unnið fyrir mér.
Systkini mín hafa aldrei alveg fyrirgefið mér þetta frjálsræði sem ég bjó við á öndverðum sjöunda áratugnum. Á fimmtugs- og sextugsaldri tala þau ennþá um „yngsta barnið“ í hálfum hljóðum og harma glataða æsku. Lái þeim hver sem vill.
Þegar ég kom úr sveitinni fór ég í algjöra uppreisn gegn elítisma föðurhúsanna. Ég var svo heppinn að vaxa beint inn í pönkkynslóð sem þótti ekki par fínt að kunna á hljóðfæri eða klára skóla. Það þótti eiginlega ekkert fínt að kunna að lesa og skrifa.
Samt lásu allir í laumi. Ég svolgraði í mig béin þrjú, Bulgakov, Burroughs og Bukowski. Sögur Márquez, Crumb, Ende, Hergé, Kundera, Kirkegaard og Dostojevski voru líka í tísku hjá mér. Og Süskind, Mann og Hasek. Allt sem hét framandi nöfnum og gat leitt hugann burt frá þessari hræðilegu eyju á hjara veraldar.
En rithöfundar sem slíkir voru auðvitað síðasta sort.
Rithöfundar voru eina starfsstéttin sem fékk verðlaun fyrir að vera leiðinleg. Á mannamótum sátu þeir álútir úti í horni og mjálmuðu eitthvað um „ansans Nóbelsskáldið sem er að kæfa okkur alla“ í hálfum hljóðum og um hvað Fræbbblarnir væru hræðilega miklir dónar.
Ég fór í Myndlistar- og handíðaskólann aðallega vegna þess að ég nennti ekki að klára menntaskólann. Og í miðju myndlistarnáminu lagðist ég í flakk um Evrópu og norður-Afríku og gerðist götumálari. Týndist í einhverja mánuði áður en ég kom heim til að útskrifast sem „merkilegt kvikindi“ eins og tollverðirnir í Keflavík orðuðu það.
Fullorðinsárin tóku við mér, þau liðu áfram við auglýsingagerð, vefhönnun og aðra mannlega eymd. Ljósir punktar í tilverunni voru þó að ég fékk einstaka sinnum að teikna eitthvað og ég eignaðist dóttur.
Annars má spegla þessi ár í fleygum orðum Jóhannesar Birkiland: „Ef einhver hefði boðið mér að veita stóru verzlunar- eða iðnfyrirtæki, forstöðu, myndi það hafa valdið straumhvörfum í lífi mínu.“
Loks kynntist ég konunni minni í vinnustaðapartíi. Við vorum búin að eiga þrjú stefnumót þegar hún sagði mér að hún væri rithöfundur. Auðvitað var það visst áfall en á móti kom að ég átti barn úr fyrra sambandi og þess vegna vorum við bæði með ákveðinn farangur úr fyrra lífi.
Konan mín hófs þegar handa við að gera mig að rithöfundi. Það hefur alltaf verið sérstakt áhugamál hjá henni að láta alla í kringum sig skrifa texta. Ég man eftir bókmenntafræðingi sem flúði öskrandi út á götu þegar enginn nennti að hlusta á sjálfsmeðaumkunnarvæl verktakans lengur. Nei. Hún átti að skrifa frumsaminn texta og hana nú.
Ég var eitthvað að bögglast við að blogga og féllst á það að skrifa barnabók í gegnum tölvupóst með konunni minni. Hún vissi að ég hafði gaman af því að ferðast og sannfærði mig um að við gætum farið í frí til útlanda ef við kláruðum þessa sögu. Við fórum til Ítalíu út á drauma um metsölu og heimsfrægð. Trúlofðuðum okkur í iðrum Napolí. Ári síðar skrifuðum við Algjört frelsi á milli okkar. Hún fékk ágætar viðtökur.
Það liðu samt sex ár áður en ég kom mér að því að skrifa fyrstu bókina mína. Ég var beðinn um að myndskreyta handrit sem mér fannst heldur þunnur þrettándi. Fannst ég geta skrifað bók sem væri að minnsta kosti jafn góð – ef ekki betri.
Þannig varð Leyndarmálið hans pabba að veruleika. Barnabókin um mannætuna fékk góða dóma og kom fljótlega líka út í Danmörku og Þýskalandi.
Einn daginn var ég að fletta blaði og skoða viðtal við sjálfan mig þegar ég tók eftir því að ég var titlaður rithöfundur. Mér fannst þetta svolítið skrítið en fann svo að mér leið ekkert illa með það.
Ég hófst handa við að skrifa Bókasafn ömmu Huldar sem var að nokkru leiti innblásin af móður minni og ást á öll grúski, ást á því sem er öðruvísi og gerir lífið svo skemmtilegt. Fúkkalyktin af bókum í fornbókabúðum og þreyta á því sem er fullkomið, hreinum hvítum veggjum í nýjum byggingum.
Svo þegar ég var að byrja að skrifa þriðju bókina mína – þessa sem ég ætla að taka tvö ár í að skrifa – þá áttaði ég mig allt í einu á því að það að skrifa bækur er það skemmtilegasta sem ég hef tekið mér fyrir hendur um dagana.
Þórarinn Leifsson, Apríl 2010
Greinar
Viðtöl
Tine Maria Winther: „Islænding portrætterer dansk kannibal“
Politiken, 12. desember 2009.
Lesið viðtalið á vef Politiken.
Um einstök verk
Bókasafn ömmu Huldar
Margrét Tryggvadóttir: „Barnabækur eftir hrun“
Tímarit Máls og menningar 2010, 71. árg., 2. tbl. bls. 80-6.
Götumálarinn: skáldævisaga
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Flökkulíf“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir: „Leikið í „slömminu“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg., sumar, bls. 13.
Kaldakol
Rósa María Hjörvar: „Kaldakol“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur
Leyndarmálið hans pabba
Dagný Kristjánsdóttir: „Kannski á ófreskjan líka börn“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg, 2. tbl. bls. 123-9.
Elín Björk Jóhannsdóttir: „Í greipum mannætunnar: menningarleg bannsvæði í Leyndarmálinu hans pabba eftir Þórarin Leifsson“
Tímarit Máls og menningar 2013, 74. árg., 3. tbl. bls. 16-25.
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir: „Hræðileg bók og full af sannleika: Leyndarmálið hans pabba eftir Þórarin Leifsson“ (ritdómur)
Börn og menning 2008, 23. árg., 1. tbl. bls. 22.
Irmtraut Gutschke: „Eine schreckliche Familie: Thorarinn Leifsson enthüllt »Papas Geheimnis«“
Sozialistische Tageszeitung, aukablað um bókamessuna í Frankfurt, 14. október 2008.
Steffen Larsen: „Islandsk kannibalhistorie er en syret knaldperle“ (ritdómur)
Politiken, 11. júní 2009.
Lesið dóminn á vef Politiken.
Maðurinn sem hataði börn
Vera Knútsdóttir: „Bókamenning og blekkingar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
2010 - Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar: Bókasafn ömmu Huldar
Tilnefningar
2014 - Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka: Maðurinn sem hataði börn
2010 - Norrænu barnabókaverðlaunin: Bókasafn ömmu Huldar
Kaldakol
Lesa meiraMaðurinn sem hataði börn
Lesa meiraDóri litli verður útlenskur
Lesa meiraBestemor Hulds bibliotek
Lesa meiraGötumálarinn
Lesa meiraLoyndarmálið hjá pápa
Lesa meiraIskän salaisuus
Lesa meiraHrekklaus fer á netið
Lesa meira