Um bókina
Snæbergsfjölskyldan er efnamikil, voldug og virt í samfélaginu. Allt virðist leika í lyndi, en þegar stórfjölskyldan sameinast í tilefni af afmæli ættföðurins á nýju hóteli á Snæfellsnesi koma brestir í ljós. Rifið er ofan af gömlum sárum og leyndarmál fortíðarinnar leita upp á yfirborðið. Á meðan veisluhöldin standa sem hæst versnar veðrið og í gegnum hríðina heyrast skelfileg öskur.
Úr bókinni
Þegar bróðir mömmu kemur og sest hjá okkur tek ég upp símann. Birgir hefur sent mér skilaboð. Lag eftir Kodaline sem heitir All I Want. Ég hef heyrt það áður, en set samt á mig heyrnartólin og hlusta. Tónlistin er sorgleg en falleg og þar sem ég horfi yfir fjörðinn líður mér eins og ég fljóti fyrir ofan hann. Eins og þessi stund sé ekki raunveruleg, heldur draumur.
Ég segi pabba að ég ætli að ganga aðeins niður í fjöruna. Ég feta mig yfir flata kletta í fjöruborðinu og passa að stíga ekki á sleipt þangið. Horfi svo á öldurnar sleikja sandinn fyrir framan mig.
Mér líður enn eins og ég sé ekki almennilega tengd við raunveruleikann. Ég veit ekki af hverju, en síðan ég kom hingað hefur mér liðið þannig. Eins og ég fari nokkur ár aftur í tímann og sé orðin tólf ára aftur, þaða var þá þegar þessi tilfinning byrjaði fyrst að koma yfir mig. Ég man að ég stóð fyrir framan spegilinn og leið eins og ég væri ekki ég sjálf, heldur einhver önnur. Eins og ég væri að horfa á sjálfa mig úr fjarlægð. Mér fannst ég bæði kunnugleg og ókunnug á sama tíma, eins og líkaminn kæmi mér ekki lengur við. Á því andartaki leið mér vel, eins og allt sam hafði gerst í skólanum mínum og annars staðar skipti ekki lengur máli.
En núna gengur mér illa að komast í þetta hugarástand. Sagan um Oddnýju pílu hefur vakið upp minningar. Þó ég viti ekkert hvað hafi gerst eða hvernig hún léstt, ímynda ég mér að hún hafi lent í einhverju skelfilegu. Ég ímynda mér að hún hafi gengið aftur til að hefna sín.
Þegar ég hugsa málið, er það nefnilega einmitt það sem ég myndi vilja gera. Svolítið var tekið frá mér þegar ég var tólf ára sem ég fæ aldrei aftur. Síðustu árin sem ég átti að fá að vera saklaust og trúgjarnt barn, sem hélt að heimurinn væri góður staður og að fólk væri annað hvort gott eða vont. Nú veit ég að það er ekki satt og líkt og Oddný píla brenn ég í skinninu að hefna mín.
(s. 100-101)