Vegurinn til Hólmavíkur er dagbók ferðalangs. Óskar Árni fer um fásótta staði á Íslandi og skissar upp það sem fyrir augu ber - land og menn. Bókin, sem kom út árið 1997, inniheldur smáprósa í fimm köflum sem heita: Útjaðrar, Þrjár lóur á Landakotstúni, Vegurinn til Hólmavíkur, Skuggi af snúrustaur og Muldur í símalínum.
Úr Veginum til Hólmavíkur:
Sólheimasafn, 4. 4. 1994
Farið að dimma í lofti þegar ég kom að upplýstu safninu hjá tólfhæða blokkunum á holtinu. Inn í þetta litla bókasafn hafði ég ekki komið fyrr. Dvaldi þar dágóða stund og rakst fyrir tilviljun á forvitnilega bók, Hugleiðingar um iðjuleysi eftir japanska fornspekinginn Kenko. Bókina fékk ég lánaða að bragði og hvarf með hana út í myrkrið þegar safninu var lokað klukkan níu. Krítarteikningar á gangstéttinni og dansandi stjörnur milli háhýsanna. Alltaf rekur eitthvað á fjörur iðjuleysingjans.
(s. 16)